Verkefnastjórnun hristir upp í starfsumhverfi lögmannsstofa

Pistill í Viðskiptablaðinu eftir Helga Þór Ingason

Helgi Þór Ingason, prófessor og forstöðumaður MPM námsins, skrifaði nýverið pistil í Viðskiptablaðið þar sem hann varpaði ljósi á hvernig verkefnastjórnun hefur áhrif á starfsumhverfi lögmannsstofa. 

Verkefnastjórnun hristir upp í starfsumhverfi lögmannsstofa

Viðfangsefni lögmannsstofa, rétt eins og annarra ráðgjafarfyrirtækja, eru í eðli sínu verkefniÍ haustútgáfu fagtímarits Breska verkefnastjórnunarfélagsins APM er fjallað um það hvernig verkefnastjórnun er að hrista upp í starfsumhverfi lögmannsstofa í Bretlandi.

Við fyrstu sýn virðist sem hér sé um að ræða gjörólíkar faggreinar, önnur þeirra er íhaldssöm, byggð á hefðum, táknum og umfangsmiklum lagabókstaf og hefur í eðli sínu lítið breyst um margra alda skeið. Hin er ung og leitandi og hefur á sér orð fyrir að vera tæknileg og byggja á áætlanagerð og töflureiknum. Hér er áhugaverð þróun í gangi og nefnd eru dæmi um stórar lögmannsstofur í Bretlandi sem hafa tekið skref til að innleiða formlega verkefnastjórnun í verkferlum sínum.

Nýtt fagsvið, Legal Project Management eða LPM er í miklum vexti meðal lögmannsstofa í Bretlandi, en upphafið má rekja til Bandaríkjanna fyrir um 10 árum síðan. Stofurnar eru í kapphlaupi að gera þjónustu sína gagnsærri, skilvirkari og hagkvæmari fyrir viðskiptavini. Í greininni er bent á að lögmenn sem starfa á lögmannsstofum séu yfirleitt „verkefnastjórar fyrir tilviljun“. Þeir hafa ekki fengið formlega þjálfun í verkefnastjórnun en þegar litið er á viðfangsefni lögmanna falla þau þó fullkomlega að hefðbundinni skilgreiningu verkefna. Þau eru afmörkuð í tíma, fela í sér að búa til tiltekna útkomu með skilgreinda eiginleika og kalla á samræmingu og samskipti milli ólíkra aðila þar sem taka þarf tillit til margskonar áhrifaþátta. Viðfangsefni lögmannsstofa, rétt eins og annarra ráðgjafarfyrirtækja, eru í eðli sínu verkefni og hefðbundin lögmál og aðferðir verkefnastjórnunar ættu að nýtast vel í rekstri þeirra.

Áhrif á starfsumhverfi lögmanna

Einn af stóru kostunum við innleiðingu verkefnastjórnunar á lögmannsstofu er einmitt sá að með því að ferlavæða undirbúning og framkvæmd verkefna stofunnar geta lögmennirnir einbeitt sér að sínum sérsviðum. Á sama tíma eru þá öðrum falin endurtekin og stöðluð viðvik. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram og muni hafa töluverð áhrif á starfsumhverfi lögmanna á komandi tímum. Í vaxandi samkeppnisumhverfi munu lögmannsstofur varla geta boðið viðskiptavinum sínum upp á að greiða hátt tímagjald lögmanns fyrir einfalda rútínuvinnu. Og þeir sem tileinka sér ekki verkefnastjórnun munu þá hægt og sígandi missa markaðstækifæri og lognast útaf. Hér má nefna að fleiri mótandi þættir hafa mikil áhrif á starfsumhverfi lögmanna nú um stundir. Hér ber fyrst að nefna þróun upplýsingatækninnar, ekki síst stóraukin áhrif gervigreindar.

Þróunin á Íslandi

Á Íslandi hefur þessi þróun átt sér stað um nokkurra ára skeið og ég merki það meðal annars af því að nokkur rannsóknaverkefni í rekstrarverkfræði og verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík hafa verið unnin í samstarfi við lögmannsstofur. Vilji þeirra hefur staðið til þess að ferlavæða starfsemina, innleiða gæðakerfi og þróa staðlað verklag við undirbúning og framkvæmd verkefna.

Höfundur er prófessor og forstöðumaður MPM náms við Háskólann í Reykjavík.Fara á umsóknarvef