Ósk Sigurðardóttir
Verkefnastjóri hjá Landspítalanum - MPM 2013
Ósk Sigurðardóttir starfar á verkefnastofu Landspítalans. Hún sinnir ýmsum umbótaverkefnum er varða húsnæði, sameiningum deilda eða teyma, þróun framtíðarferla og þjónustu. Hún skipuleggur einnig vinnustofur, veitir ráðgjöf og stuðning og er með lean-þjálfun í Lean skóla LSH. Ósk er menntaður iðjuþjálfi og útskrifaðist úr MPM-náminu árið 2013.
,,Þar sem ég starfa í heilbrigðiskerfinu var sérstaklega gaman að kynnast heimi verkfræðinnar og verkefnastjórnunar. Í scrum-námskeiði varð til hugmynd að appi sem ég setti í framkvæmd ásamt verkefnahópnum mínum og kennara námskeiðsins. Með appið að vopni komumst við í undanúrslit í stórri norrænni velferðarkeppni, höfum fengið styrki á við Fræið og Sprotastyrkinn frá Tækniþróunarsjóðnum. Í dag erum við enn á fullu að forrita og rekum fyrirtæki saman. Raunhæfa verkefnið er einnig eftirminnilegt frá þessum tveimur árum, en hópurinn minn gerði fyrsta heilsu- og meðferðargarð á landinu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra á BUGL. Svo verð ég líka að nefna allt fólkið sem ég kynntist í náminu. Það var mjög lærdómsríkt að fá tækifæri til að vinna náið með fólki úr fjölbreyttum geira sem hafði oft ólíka sýn á viðfangsefnin.“