Algengar spurningar og svör varðandi Covid og HR

Kennsla

 • Hvernig er kennslan skipulögð í HR með þeim sóttvarnartakmörkunum sem eru í gildi?
  Hefðbundnar stundaskrár eru kjarni skipulags kennslunnar.

  Meðan takmarkanir eru í gildi, þá geta ekki allir nemendur mætt á sama tíma og eru leiðbeiningar fyrir hvert námskeið á Canvas um hverjir mæta hvenær.

  Allir fyrirlestrar eru sendir út í streymi eða teknir upp og gerðir aðgengilegir á netinu.

  Þegar fyrirlestrum er streymt, er gert ráð fyrir að þeir nemendur sem ekki koma í HR fylgist með heima og taki þátt í tímunum á stafrænan hátt. Þegar fyrirlestrar eru alfarið teknir upp og settir á netið, þá geta fyrirlestratímar verið nýttir sem verklegir tímar, dæmatímar, o.s.frv.

  Til að bæta upp aðgengistakmarkanir er í mörgum tilfellum bætt við stundaskrána fleiri verklegum tímum, dæmatímum, umræðutímum og öðrum tímum sem byggja á viðveru og samstarfi.

  Fyrirkomulag kennslu getur verið mismunandi milli námskeiða. Upplýsingar um fyrirkomulag hvers námskeiðs eru á Canvas.

 • Hvaða tímar eru kenndir í HR?
  Það er misjafnt eftir námskeiðum hvaða tímar eru kenndir í HR en almennt er lögð áhersla á að nýta starfrænar leiðir við miðlun, svo sem hefðbundna fyrirlestra, sem eiga að vera sendir út í streymi eða teknir upp. Áhersla er á að nemendur geti sótt verklega tíma, dæmatíma og umræðutíma í HR. Lögð er áhersla á að allir nemendur geti sótt hluta náms síns í HR, þrátt fyrir yfirstandandi takmarkanir. Upplýsingar um í hvaða tíma á að mæta í HR í einstökum námskeiðum er að finna á Canvas.

 • Hvaða tímar verða bara á netinu?
  Öllum fyrirlestrum er streymt eða þeir teknir upp og gerðir aðgengilegir á netinu. Misjafnt er milli námskeiða hvaða tímar verða einungis á netinu og hvaða tímar verða í HR. Lögð er áhersla á að allir nemendur geti sótt hluta náms síns í HR, þrátt fyrir yfirstandandi takmarkanir.

 • Get ég séð fyrirlestra eftir á?
  Hægt er að horfa á þá fyrirlestra sem teknir eru upp eftir á, en ekki þá fyrirlestra sem er streymt og ekki teknir upp.

 • Hvernig veit ég hvert ég á að mæta?
  Upplýsingar um í hvaða stofu nemendur eiga að mæta eru inni á Canvas, fyrir hvert og eitt námskeið sem þeir eru skráðir í.

 • Hvernig veit ég hvenær ég á að mæta í tíma?
  Upplýsingar um hvenær nemendur eiga að mæta eru inni á Canvas, fyrir hvert og eitt námskeið sem þeir eru skráðir í.

 • Hver getur gefið mér frekari upplýsingar varðandi kennslu í einstökum námskeiðum?
  Ef þú ert í vafa er best að senda fyrirspurn til kennara námskeiðs eða skrifstofu þinnar deildar. Ef málið tengist öðru en tilteknu námskeiði má leita til þjónustuborðsins á fyrstu hæð í Sólinni.

 • Verða haldin próf í haust?
  Markmiðið er að skólastarfið sé sem allra mest í samræmi við áætlun. Því er gert ráð fyrir því að námsmatstímabil (prófatímabil) verði eins og fram kemur í almanaki HR. Þær takmarkanir sem verða í gildi á þeim tíma geta þó haft áhrif á hvernig verður staðið að framkvæmd prófa.

 • Verður boðið upp á að velja „staðið“, í stað þess að fara í próf í haust?
  Nei, gert er ráð fyrir að námsmatstímabil (prófatímabil) verði eins og fram kemur í almanaki HR.

 • Hvernig verður fyrirkomulag þriggja vikna áfanga í haust?
  Miðað við að þær takmarkanir sem nú eru í gildi haldist út önnina eða að slakað verði á þeim, er stefnt að því að kennsla í þriggja vikna áföngum í haust verði með svipuðu sniði og í námskeiðum núna.

 • Verður forsetalisti þessa önn?
  Já, það er stefnt að því að það verði forsetalisti en fyrirkomulag hans hefur ekki verið endanlega ákveðið.

 • Verður útskrift um áramótin?
  Það verður útskrift í febrúar en fyrirkomulag hennar mun fara eftir þeim sóttvarnarráðstöfunum sem þá verða í gildi.

Húsnæðið og sóttvarnarhólf

 • Á ég að vera heima eða mæta í skólann?
  Sóttvarnaryfirvöld mælast mjög ákveðið til þess að þau sem það geti, vinni og stundi nám sitt heima a.m.k. til 19. október. Markmiðið er að ná tökum á þriðju bylgju Covid faraldursins. Sérreglur um skóla eru hins vegar settar til þess að hægt sé að viðhalda einhverri kennslu og námi á staðnum, með takmörkunum. Því verður aðstaðan í HR áfram opin nemendum og í ákveðnum námskeiðum býðst nemendum sem það kjósa að sækja tíma.

 • Er grímuskylda í HR?
  Það er grímuskylda fyrir alla á öllum göngum, salernum og opnum svæðum háskólans sem eru utan sóttvarnarhólfa. Ennfremur þarf að bera grímur alls staðar þar sem ekki er hægt að viðhafa tveggja metra fjarlægðarreglu. Ekki er grímuskylda í skólastofum og lesrýmum þar sem hægt er að viðhafa tveggja metra reglu. Kennarar þurfa ekki að nota grímu í kennslu ef þeir geta viðhaft að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð milli sín og nemenda.

 • Get ég komið og lært í HR?
  Já, hluti vinnurýma nemenda eru aðgengileg, þar á meðal rými fyrir meistaranema. Hægt er að fara innanhúss á milli skólastofa og annarra svæða í háskólanum. 

  • Virka daga er húsið opið kl. 8:00 til 18:00 og 18:00 til 22:00 með korti.
  • Um helgar er húsið opið kl. 9:00 – 17:00 og með korti til kl. 22:00.

  Til að gera þetta mögulegt, samhliða því að tryggja fjarlægðartakmörk, hefur verið komið á einstefnu gangandi umferðar um húsið (sjá kort). Merkingar hafa verið settar upp í byggingunni til að leiðbeina nemendum. Nemendur eru beðnir að gæta að því að umferð geti gengið greiðlega.

 • Hvernig veit ég hvert ég á að fara?
  Komið hefur verið á einstefnu gangandi umferðar um húsið. Upplýsingar er að finna á korti af byggingu háskólans. Merkingar hafa einnig verið settar upp í byggingunni til að leiðbeina nemendum. Nemendur eru beðnir að gæta að því að umferð geti gengið greiðlega. 

 • Eru kennslustofur sótthreinsaðar?
  Já, kennslustofur eru sótthreinsaðar reglulega í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnarlæknis. Til að aðstoða við sótthreinsun, biðjum við nemendur um að sótthreinsa stóla og borð sem þeir hafa setið við, í lok hverrar kennslustundar. Pappírsþurrkur og sótthreinsunarefni eru aðgengileg við hvert sæti. Kennarar eru einnig beðnir um að sótthreinsa vinnustöðvar sínar í lok kennslu.

 • Er húsnæði HR sótthreinsað reglulega?
  Já, þrif og sótthreinsun hafa verið aukin verulega. Allt húsnæði háskólans er þrifið og sótthreinsað einu sinni á dag og snertifletir á borð við hurðarhúna, lyftuhnappa og slíkt eru sótthreinsaðir oft á dag.

Aðstaða og þjónusta

 • Hvar get ég borðað?
  Regla um að ekki megi neyta matar og drykkjar inni í skólastofum hefur verið felld úr gildi og nemendum er velkomið að borða inni í skólastofum á milli kennslustunda. Þetta byggir þetta á því að nemendur gangi vel frá eftir sig og fari með rusl í ruslatunnur.

 • Er bókasafnið opið?
  Já, vinnuaðstaða er opin á bókasafninu sem er opið á sama tíma og önnur aðstaða í háskólanum.

 • Er tölvuaðstoðin opin?
  Já, nemendur geta mætt á þjónustuborð upplýsingatækni í Sólinni, auk þess sem þjónusta er veitt á help@ru.is.

 • Er námsráðgjöfin opin?
  Já, hægt er panta tíma í bókunarkerfi Karaconnect

 • Er sálfræðiþjónustan opin?
  Já. Nemendur sem hafa hug á að nýta sér þjónustuna geta sent tölvupóst á netfangið salfraedithjonusta@ru.is

 • Er Málið opið?
  Nei, Málið er lokað eins og er.

 • Get ég farið í World Class í kjallaranum?

  Nei, World Class er nú lokað.

 • Er Kaffitár opið?
  Nei, Kaffitár er lokað eins og er.

 • Er Háskólabúðin opin?
  Já, Háskólabúðin er opin. 

 • Er Bragginn opinn?
  Já, Bragginn er opinn.

 • Get ég fengið afslátt af skólagjöldum?
  Markmið HR er að klára önnina með eins litlum breytingum á námi og mögulegt er og að veita nemendum eins mikla þjónustu og hægt er miðað við þær takmarkanir sem verða í gangi á hverjum tíma. Skólagjöld munu því haldast óbreytt.

Sóttvarnir

 • Á ég að vera heima eða mæta í skólann?
  Sóttvarnaryfirvöld mælast mjög ákveðið til þess að þau sem það geti, vinni og stundi nám sitt heima a.m.k. til 19. október. Markmiðið er að ná tökum á þriðju bylgju Covid faraldursins. Sérreglur um skóla eru hins vegar settar til þess að hægt sé að viðhalda einhverri kennslu og námi á staðnum, með takmörkunum. Því verður aðstaðan í HR áfram opin nemendum og í ákveðnum námskeiðum býðst nemendum sem það kjósa að sækja tíma.

 • Hversu lengi gilda reglur um tveggja metra fjarlægð og sóttvarnarhólf?
  Það er ekki vitað en núverandi sóttvarnarreglur gilda til og með 19. október.

 • Er grímuskylda í HR?
  Það er grímuskylda fyrir alla á öllum göngum, salernum og opnum svæðum háskólans sem eru utan sóttvarnarhólfa. Ennfremur þarf að bera grímur alls staðar þar sem ekki er hægt að viðhafa tveggja metra fjarlægðarreglu. Ekki er grímuskylda í skólastofum og lesrýmum þar sem hægt er að viðhafa tveggja metra reglu. Kennarar þurfa ekki að nota grímu í kennslu ef þeir geta viðhaft að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð milli sín og nemenda.

 • Get ég fengið grímur í HR?
  Andlitsgrímur af réttri gerð og rétt notaðar draga úr hættu á smiti. Nemendur geta keypt andlitsgrímur á kostnaðarverði á þjónustuborði.

 • Hvað þýðir tveggja metra reglan?
  Tveggja metra reglan þýðir að nemendur og starfsfólk HR eiga að halda að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð á milli sín í háskólabyggingunni. Þar sem það er ekki hægt skal nota grímu.

 • Hvar gildir tveggja metra reglan?
  Nemendur eiga að halda tveggja metra reglu í öllu húsnæði HR: fyrirlestrastofum, verklegum stofum, rannsóknarstofum og í almennum rýmum. Þar sem það er ekki hægt skal nota grímu.

 • Hvernig er best að koma í veg fyrir smit?
  Munið að þvo og/eða spritta hendur vel og reglulega. Spritt og þurrkur eru aðgengileg víða í húsinu, í öllum skólastofum og öllum salernum.

  Alls ekki koma í skólann með kvef- eða flensueinkenni. Ef þú ert með einkenni skaltu halda þig heima og hafa samband í síma við heilsugæsluna þína, Læknavaktina í síma 1700 eða í gegn um netspjall á heilsuvera.is. Heilbrigðisstarfsfólk verður þar til svara og ráðleggur þér um næstu skref.

  Haldið a.m.k. tveggja metra fjarlægð við aðra einstaklinga, í skólastofum, í spjalli á göngunum, í matarhléum og í öllu háskólastarfinu.

  Sótthreinsið stóla og borð og aðra snertifleti fyrir og eftir notkun.

  Ef þú þarft að hósta eða hnerra skaltu nota olnbogabótina. Þannig kemurðu í veg fyrir að úði fari á hendur. Gættu þess að hósta eða hnerra ekki á aðra.

  Mikilvægt er að sem flestir nái í og virkji Rakning-19 appið.

 • Hver setur þessar reglur?
  Reglurnar eru formlega settar af heilbrigðisráðherra, að tillögu sóttvarnarlæknis og í samráði við ríkisstjórnina. Þær eru birtar í reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar .

 • Hvert á ég að senda fyrirspurnir eða ábendingar?
  Hægt er að senda Covid viðbragðsteymi HR póst á netfangið responseteam@ru.is. Í teyminu sitja rektor, sviðsforsetar tækni- og samfélagssviðs, framkvæmdastjóri rekstrar, forstöðumenn samskipta og fasteignaumsjónar og mannauðsstjóri.

Greining og veikindi

 • Mér finnst ég vera með einkenni Covid. Hvað á ég að gera?
  Allar upplýsingar um sóttvarnir, sóttkví, einangrun, nýjustu fréttir af faraldrinum hér á landi og fleira er að finna á síðunni www.covid.is sem rekin er af Embætti landlæknis og Ríkislögreglustjóra.

  Á síðunni www.covid.is kemur fram að ef þig grunar að þú sért með smit, skulir þú halda þig heima, hafa samband í síma 1700, heilsugæsluna þína eða heilsuvera.is í gegn um netspjall. Heilbrigðisstarfsfólk verður þar til svara og ráðleggur þér um næstu skref. Það er mjög mikilvægt að þú farir ekki í eigin persónu á læknavakt eða heilsugæslu. 

  Helstu einkenni Covid sýkingar minna á venjulega flensu: hiti, hósti, bein- og vöðvaverkir og þreyta. Meltingareinkenni (kviðverkir, ógleði/uppköst, niðurgangur) eru ekki mjög áberandi með COVID en eru þó þekkt. Breytingu, eða tapi á bragð- og lyktarskyni er lýst hjá 20–30% sjúklinga.

 • Hvað á ég að gera ef einhver sem ég hef verið í samskiptum við greinist með Covid?
  Ef þú hefur verið í nánum samskiptum við og/eða innan við tveggja metra fjarlægð frá einstaklingi sem greinst hefur með Covid, á meðan líklegt má telja að viðkomandi hafi verið smitandi, ertu beðin(n) um að koma ekki í HR uns ljóst er hvort þú þurfir að fara í sóttkví.

 • Hvað á ég að gera ef ég greinist með Covid?
  Heilbrigðisyfirvöld, með aðstoð Covid viðbragðshóps og deildarskrifstofa HR, sjá um samskipti við þá nemendur og starfsfólk sem greinast með Covid og veita þeim leiðbeiningar. Ef þú hefur komið í HR innan við tveimur dögum áður en að þú fannst fyrir fyrstu einkennum, skaltu láta skrifstofu þinnar deildar vita. Vegna mikils álags á smitrankingateyminu eru allir sem greinast nú einnig hvattir til að láta alla sem þeir voru í samskiptum við tvo daga á undan vita. 

  Ef nemandi getur ekki sinnt námi eða hluta náms vegna veikinda, sóttkvíar eða einangrunar af völdum Covid19, þá veitir HR viðkomandi allan þann sveigjanleika í náminu sem hægt er. Dugi það ekki til, eru nemendur sem hafa lent í vandræðum vegna Covid beðnir um að senda póst á responseteam@ru.is. Vilji nemandi fá aðstoð frá námsráðgjöf varðandi þætti sem snúa að námi þá er hægt að fá fjarfundi með námsráðgjafa með því að bóka tíma á www.ru.is/radgjof.

 • Hefur einhver í HR greinst með Covid?
  Háskólinn heldur ekki miðlæga skrá yfir hvort nemendur eða starfsmenn hafi smitast, séu í sóttkví eða einangrun. Eins og við er að búast í 4000 manna háskólasamfélaginu hafa komið upp smit hjá nemendum og starfsmönnum. Ekki er greint sérstaklega frá því nema ástæða sé til vegna sóttvarna.

 • Ég þarf að sinna veikum ættingjum/börnum/mökum og hef ekki tíma til að læra. Hvað get ég gert?
  Ef nemandi getur ekki sinnt námi eða hluta náms vegna eigin eða annarra veikinda, sóttkvíar eða einangrunar af völdum Covid19, veitir HR viðkomandi sveigjanleika í náminu eins og hægt er. Dugi það ekki til, eru nemendur sem hafa lent í vandræðum vegna Covid beðnir um að senda póst á responseteam@ru.is. Vilji nemandi fá aðstoð frá námsráðgjöf varðandi þætti sem snúa að námi þá er hægt að fá fjarfundi með námsráðgjafa með því að bóka tíma á www.ru.is/radgjof.

 • Þarf ég að mæta í HR ef ég vil ekki taka áhættu á að smitast?
  Nemendur eiga að geta stundað námið án þess að þurfa að mæta í fjölmenni. Nemendur sem þurfa að stunda nám sitt að öllu leyti að heiman vegna Covid er bent á að hafa samband við skrifstofu sinnar deildar til að fá nánari leiðbeiningar.


Var efnið hjálplegt? Nei