Fara á umsóknarvef
Reynslusögur
  • Árni Svavar Johnsen nemandi við Háskólagrunn HR

Hvað segja nemendur?

Lífið í Háskólagrunni HR – viðtal við nemanda

Háskólagrunnur HR er sértækt undirbúningsnám fyrir fólk sem stefnir í háskóla og þá einkum í HR. Námið tekur eitt ár.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
Ég hafði heyrt einróma lof um námið og fannst uppsetning námsins höfða vel til mín. Einnig þótti mér spennandi að fá tækifæri til að ljúka ígildi stúdentsprófs innan háskólastofnunar.

Hvaða væntingar hafðir þú?
Ég var að vonast til að námið yrði meira krefjandi og með öðru móti en það sem ég hafði fengið að kynnast áður á eigin framhaldsskólagöngu. 

Hvað kom þér mest á óvart í náminu?
Í hreinskilni sagt kom mér mest á óvart hversu krefjandi námið í raun og veru er. Mig hafði ekki órað fyrir því hversu mikla skipulagshæfni ég þyrfti að tileinka mér til þess eins að ljúka náminu. Það hefur einnig komið mér verulega á óvart hversu mikið af yndislegu fólki ég hef kynnst í gegnum námið. Það eru forréttindi að fá læra með þessu fólki á hverjum degi. Ég bjóst alls ekki við því að nám á framhaldsskólastigi gæti verið svo krefjandi, spennandi og skemmtilegt.

Hvað er það sem þú ert ánægðastur/ánægðust með í náminu?
Ég er hvað ánægðastur með hversu hnitmiðað námið er. Ég er viss um að ég hefði hvergi getað öðlast betri undirbúning fyrir áframhaldandi nám.

Áttu þér leiðarljós í náminu?
Mitt leiðarljós hefur verið fullvissan um að sú vinna sem ég legg í námið núna mun skila mér góðum undirbúningi fyrir það sem koma skal.

Manstu eftir skemmtilegu atviki úr náminu?
Skemmtilegu atvikin sem ég hef orðið vitni að í Háskólagrunni síðan ég hóf nám eru óteljandi. Helst er að minnast þess er ég og nokkrir bekkjarfélagar vöktum yfir stærsta heimspekiverkefni vetrarins. Mjög eftirminnileg verkefnavinna.

Áttu góðar ráðleggingar til fólks sem vill fara í námið?
Já, ég ætti nú að búa yfir nokkrum gullkornum. Ég mæli helst með því að gera ráð fyrir miklum tíma í lærdóm og að gera sitt besta til að koma að öllu náminu á skipulagðan máta.

Hvert stefnir þú að loknu námi?
Ég stefni beinustu leið í áframhaldandi nám við skólann.

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?
Ég ætla mér að hlaða batteríin vel, helst sólbrenndur og sæll við Miðjarðarhafið til þess að koma sem ferskastur inn á nýrri önn.

Árni Svavar Johnsen nemandi í Háskólagrunni HR

Fleiri spurningar?

Við HR eru líka náms- og starfsráðgjafar sem geta aðstoðað þig við að ákveða næsta skref.