Fara á umsóknarvef

Háskólanám eftir iðnnám

Við Háskólann í Reykjavík er lögð áhersla á hagnýta þekkingu, verklega þjálfun og tengsl við atvinnulífið. Iðnmenntun er því mjög góður undirbúningur fyrir nám við HR. Háskólamenntaðir einstaklingar sem hafa grunn í iðngreinum eru afar eftirsóttir í atvinnulífinu.

Tæknigreinar

Skýringarmynd

Tækniháskóli á traustum grunni

Háskólinn í Reykjavík er stærsti tækniháskóli landsins. Tækniskóli Íslands var stofnaður árið 1964 og árið 2005 sameinaðist hann Háskólanum í Reykjavík undir nafni HR. Grunnur Tækniskóla Íslands veitir HR sérstöðu en við HR er lögð áhersla á að nemendur öðlist verkþekkingu, auk þess að þekkja fræðin.

Vinsælar brautir

Iðnfræði og tæknifræði hafa verið afar vinsælar brautir meðal iðnmenntaðra við HR enda hagnýtt og skemmtilegt nám sem opnar ótal dyr í atvinnulífinu. Jafnframt er boðið upp á fjölda byggingagreina sem veita margvíslegar gráður og starfsréttindi.

Iðnfræði: Hagnýtt fjarnám 

Löggilt starfsheiti: iðnfræðingur

Háskólinn í Reykjavík er eini háskólinn á Íslandi sem kennir iðnfræði. Iðnfræði er hagnýtt nám til diplómagráðu sem veitir lögverndað starfsheiti sem iðnfræðingur. Námið veitir einnig rétt til meistarabréfs. Kennt í er í fjarnámi með tveimur staðarlotum á önn, eina helgi í senn. Hægt er að velja um eftirfarandi brautir: 

Byggingafræði: Praktískt og skemmtilegt nám 

Löggilt starfsheiti: byggingafræðingur

HR er eini háskólinn á Íslandi sem kennir byggingafræði. Það veitir löggilt starfsheiti sem byggingafræðingur. Fyrri hluti námsins er kenndur í fjarnámi með námsbraut í byggingariðnfræði.

Tæknifræði: Sérhæfing og raunhæf verkefni 

Löggilt starfsheiti: tæknifræðingur

Þeir sem útskrifast með lokapróf í tæknifræði hljóta BSc-gráðu og lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur. Námstími er þrjú og hálft ár og er starfsnám hluti af náminu. Þrjár greinar tæknifræði eru kenndar við HR:  

Byggingagreinar í HR

Spennandi möguleikar

Það er mikil eftirspurn eftir fagfólki með sérfræðiþekkingu í byggingagreinum á vinnumarkaðinum og því hvetjum við einstaklinga með iðnmenntun í byggingagreinum til að skoða neðangreinda möguleika vel. Innan iðn- og tæknifræðideildar og verkfræðideildar er boðið upp á námsbrautir á diplóma-, BSc-, og meistarastigi:

Byggingariðnfræði

Gráða: diplóma. Kennt í fjarnámi.

Nám í byggingariðnfræði hentar vel fyrir fólk í atvinnulífinu sem vill styrkja stöðu sína. Kennt er í fjarnámi og námið er sniðið að þeim sem eru á vinnumarkaði hvar sem er á landinu. Diplóma í byggingariðnfræði og sveinspróf í iðngreininni veita rétt til meistarabréfs, ásamt lögverndaða starfsheitinu iðnfræðingur. Helstu námsgreinar eru byggingafræði, burðarþolsfræði, rekstur og stjórnun og hagnýtt lokaverkefni.

Byggingariðnfræðingar geta starfað sem byggingastjórar og starfssviðið er fjölbreytt. Þeir starfa hjá verktakafyrirtækjum, á verkfræðistofum og við eftirlit. Að námi loknu er hægt að halda áfram í byggingafræði, sem er BSc-nám, og er iðnfræðin metin að fullu inn í það nám.

Byggingafræði

Gráða: BSc. Kennt í staðarnámi og fjarnámi.

HR er eini háskólinn á Íslandi sem kennir byggingafræði. Það veitir löggilt starfsheiti sem byggingafræðingur.

Þekking byggingafræðinga á byggingaferli, efnisvali og verkefnastjórnun er afar dýrmæt og eftirsótt á íslenskum vinnumarkaði. Byggingafræðingar starfa meðal annars við hönnun mannvirkja og eftirlit og stjórnun framkvæmda. Þeir geta líka starfað sem sjálfstæðir hönnuðir með réttindi til að skila inn aðaluppdráttum, uppdráttum að skipulagi lóða og tilheyrandi deiliuppdráttum.

Byggingartæknifræði

Gráða: BSc. Kennt í staðarnámi.

Byggingartæknifræðingar eru frá útskrift tilbúnir til að takast á við raunveruleg verkefni í sínu fagi. Þeir sem ljúka lokaprófi í tæknifræði (BSc) hljóta full réttindi til að starfa sem tæknifræðingar og nota lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur (enska: Certified Engineer).

Byggingartæknifræðingar fást meðal annars við hönnun, framkvæmdastjórnun og rekstur mannvirkja. Einnig má nefna umsýslu fasteigna, störf í fagtengdri stjórnsýslu á vegum ríkis og sveitafélaga, stjórnun og eftirlit í verktaka- og framleiðslufyrirtækjum og umhverfismál.

Þeir sem ljúka BSc-námi í tæknifræði, eru með sveinsbréf og hafa lokið tilskyldum starfstíma fá jafnframt meistarabréf í tilsvarandi iðngrein. Að loknu BSc-náminu er jafnframt möguleiki að ljúka tveggja ára MSc-námi og öðlast starfsréttindi sem verkfræðingur.

Byggingarverkfræði

Gráða: MSc. Kennt í staðarnámi.

Að loknu grunnnámi (BSc) í t.d. byggingartæknifræði og meistaranámi (MSc) í byggingarverkfræði geta nemendur öðlast starfsréttindi sem byggingarverkfræðingar.

Byggingarverkfræðingar taka þátt í uppbyggingu, stjórnun og rekstri á húsbyggingum, virkjunum, vegum, höfnum, háspennulínum og fleiri tegundum mannvirkja. Ákvarðanir um nýframkvæmdir, rekstur og förgun skipta miklu máli fyrir framtíðina og byggingarverkfræðingar hafa þar stóru hlutverki að gegna, til dæmis við að lágmarka áhrif mannvirkja á umhverfið.

Hagnýtt 30 ECTS diplómanám

Upplýsingatækni í mannvirkjagerð

Upplýsingalíkön mannvirkja (BIM – Building Information Model) gera aðilum í byggingariðnaði mögulegt að nýta möguleika upplýsingatækni á sviði hönnunar, framkvæmda og reksturs, með úrbætur og gæði að leiðarljósi.

Diplómanámið hentar sérstaklega vel þeim sem starfa í byggingariðnaði og við mannvirkjagerð. Má þá nefna sérstaklega byggingarstjóra, byggingariðnfræðinga, tæknifræðinga og byggingafræðinga.

Stutt og hagnýtt 45 ECTS diplómanám

Rekstrarfræði

Einstaklingar með iðnmenntun, starfsreynslu og þekkingu á rekstri fyrirtækja eru eftirsóttir í atvinnulífinu. Diplómanám í rekstrarfræði er stutt og hagnýtt rekstrar- og viðskiptanám, sérstaklega sniðið að einstaklingum á vinnumarkaði.

Nauðsynlegur undirbúningur

Í sumum tilvikum geta einstaklingar með iðnmenntun hafið nám í tæknigreinum strax en í öðrum þurfa þeir að bæta við sig einingum áður, oftast í Háskólagrunni HR. Sjá meira um nauðsynlegan undirbúning í Leiðarvísinum.

Hvernig vel ég nám við hæfi?

Það getur verið flókið að velja háskólanám enda er mikið framboð af spennandi námsbrautum. Við höfum tekið saman nokkur góð ráð sem vonandi geta nýst umsækjendum við að taka ákvörðun.

Samráð við fagfélög

Iðn- og tæknifræðideild og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík hafa skuldbundið sig til samráðs við fagfélög við uppbyggingu náms. Þetta er hluti af skilyrðum alþjóðlegs samstarfsnets tækniháskóla sem þær eru þátttakendur í og heitir CDIO. Samkvæmt þessari aðferð er lögð mikil áhersla á traustan, fræðilegan grunn ásamt því að láta nemendur beita þekkingunni í alls kyns verkefnum sem oft eru unnin í hópum.

Í góðum hópi

Fleiri háskólar í CDIO eru kunnir tækniháskólar víðsvegar um heiminn eins og MIT í Bandaríkjunum, DTU í Danmörku, KTH í Svíþjóð, Tækniháskólinn í Delft, Hollandi, Háskólinn í Sidney, Ástralíu og Jiaotong-háskóli í Peking, Japan.


„Nám í iðn- og tæknifræðideild HR er dýrmætur valkostur fyrir þá sem hafa grunnmenntun í iðn- og tæknigreinum enda býðst þar nám á fagháskólastigi sem opnar mikil tækifæri á vinnumarkaði. Í náminu er rík áhersla lögð á frekari þekkingaröflun, nýsköpun og atvinnutengd markmið. Mikil tækifæri felast í því fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs að háskólamenntuðum í tækni- og verkgreinum fjölgi, sérstaklega úr hópi þeirra sem hafa grunn úr iðn- eða tækninámi.“

Kona stendur á skrifstofu og horfir í myndavélinaIngibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnisstjóri á samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins.


Ný viðfangsefni

Tveir nemendur virða fyrir sér skrift á töfluGrunnnám í sex deildum

Fyrir utan tæknigreinar, eins og þær sem kenndar eru við iðn- og tæknifræðideild, verkfræðideild og tölvunarfræðideild, er hægt að sækja nám á ótal brautum við aðrar deildir í grunnnámi. Til dæmis má nefna viðskiptafræði, lögfræði, íþróttafræði og sálfræði. Grunnnám tekur að öllu jöfnu þrjú ár og lýkur með BSc- eða BA-gráðu. Einnig er hægt að ljúka diplómanámi við einstaka brautir en það er styttra nám.

Margir möguleikar

Það er líka hægt að velja um ýmsa spennandi möguleika í þverfaglegu námi. Það er hægt að klára BA-gráðu í lögfræði ásamt BSc-gráðu í viðskiptafræði á fjórum árum og sömuleiðis útskrifast með bæði BSc-gráðu í verkfræði og BSc-gráðu í tölvunarfræði eftir fjögurra ára nám. Í boði eru jafnframt blandaðar brautir eins og tölvunarfræði með viðskiptafræði sem aukagrein og lögfræði með viðskiptafræði sem aukagrein.

Undirbúningur

Í flestum tilvikum þurfa einstaklingar sem hafa lokið iðnmenntun að ljúka undirbúningsnámskeiðum áður en BA- og BSc-nám hefst. Algengast er að nemendur skrái sig í Háskólagrunn HR, sem er undirbúningur fyrir háskólanám, og tekur eitt ár að ljúka.

Háskólagrunnur HR og viðbót við stúdentspróf

Þegar nemendur sækja um í Háskólagrunni velja þeir grunn miðað við það háskólanám sem stefnt er að í framhaldinu. Einnig geta þeir sem hafa lokið stúdentsprófi bætt við sig einingum í til dæmis stærðfræði og raungreinum í viðbótarnámi við stúdentspróf við Háskólagrunn HR.

Yfirlit yfir námið

Við mælum með því að skoða námsframboðið vandlega. Á síðu hverrar námsbrautar fyrir sig er að finna inntökuskilyrði, upplýsingar um námskeið og annan nauðsynlegan fróðleik.

Leiðarvísir

Blöð liggja á borðiHvaða menntun ertu þegar með?

Byrjunarreitur nemenda í námi við HR er margvíslegur. Hér eru taldir upp nokkrir algengir námsáfangar og upplýsingar um hvaða inngönguskilyrði þeir uppfylla. Vinsamlega athugið að þetta er ekki tæmandi listi og oft þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig.

Burtfararpróf

Iðnfræði: Einstaklingar sem hafa lokið burtfararprófi geta byrjað strax í viðeigandi námsbraut í iðnfræði. Til að útskrifast verða þeir að hafa lokið sveinsprófi. Það er hægt að ljúka sveinsprófi samhliða iðnfræðináminu.

Algengustu iðngreinarnar hjá nemendum í iðnfræði eru:

  • Byggingariðnfræði: smiðir, múrarar, píparar, málarar
  • Rafiðnfræði: rafvirkjar, rafeindavirkjar
  • Véliðnfræði: vélfræðingar, vélvirkjar, bifvélavirkjar, vélsmiðir, píparar

Nemendur þurfa þó oftast að ljúka undirbúningsnámskeiðum í fjarnámi, samhliða iðnfræðináminu. Í boði eru undirbúningsnámskeið í stærðfræði, eðlisfræði, íslensku og ensku. Þessi námskeið eru sérhæfð undirbúningsnámskeið, eingöngu fyrir iðnfræðinema.

Byggingafræði: Einstaklingar sem hafa lokið burtfararprófi í iðngrein á byggingarsviði geta hafið nám í byggingafræði.

Tæknifræði: Burtfararpróf er góður grunnur fyrir nám í tæknifræði. Þau sem eru með burtfararpróf þurfa samt sem áður að hefja tæknifræðinámið í Háskólagrunni HR þar sem þau bæta við sig einingum í bóklegum greinum.

Aðrar námsbrautir: Þeir sem hafa lokið burtfararprófi eða sambærilegu námi þurfa að sækja um nám í Háskólagrunni HR. Ekki er gerð krafa um sveinspróf.

Sveinspróf

Iðnfræði: Þau sem hafa lokið sveinsprófi geta strax hafið nám í viðeigandi námsbraut í iðnfræði. Algengustu iðngreinarnar hjá nemendum í iðnfræði eru:

  • Byggingariðnfræði: smiðir, múrarar, píparar, málarar
  • Rafiðnfræði: rafvirkjar, rafeindavirkjar
  • Véliðnfræði: vélfræðingar, vélvirkjar, bifvélavirkjar, vélsmiðir, píparar

Nemendur þurfa þó oftast að ljúka undirbúningsnámskeiðum í fjarnámi, samhliða iðnfræðináminu. Í boði eru undirbúningsnámskeið í stærðfræði, eðlisfræði, íslensku og ensku. Þessi námskeið eru sérhæfð undirbúningsnámskeið, eingöngu fyrir iðnfræðinema.

Byggingafræði: Einstaklingar sem hafa lokið sveinsprófi í iðngrein á byggingarsviði geta hafið nám í byggingafræði en þeir hefja nám í fyrri hluta, það er, byggingariðnfræði.

Tæknifræði: Sveinspróf veitir góðan undirbúning fyrir nám í tæknifræði enda eru einstaklingar sem hafa þennan bakgrunn afar eftirsóttir í atvinnulífinu. Nemandi sem vill hefja nám í tæknifræði og er með sveinspróf þarf samt sem áður að hefja námið í Háskólagrunni HR og bæta við sig einingum í bóklegum greinum.

Aðrar námsbrautir: Ef ætlunin er að skrá sig í BA- eða BSc-nám verða þau sem hafa lokið sveinsprófi að ljúka lokaprófi úr Háskólagrunni HR áður en sótt er um.

Meistarabréf

Iðnfræði: Þau sem eru með meistararéttindi í sinni iðngrein geta skráð sig beint í iðnfræði.

Byggingafræði: Þau sem hafa lokið meistaranámi í sinni iðngrein uppfylla inntökuskilyrði í byggingafræði að því tilskildu að hafa lokið byggingariðnfræði, sem er fyrri hluti byggingafræðinámsins.

Tæknifræði: Einstaklingur sem er með meistararéttindi í iðngrein, er með sveinspróf og vill hefja nám í tæknifræði þarf samt sem áður að hefja nám við HR í Háskólagrunni og bæta við sig einingum í bóklegum greinum.

Aðrar námsbrautir: Þau sem hafa meistarabréf þurfa að ljúka Háskólagrunni HR til að skrá sig í annað hvort BA- eða BSc-nám við HR.

4. stigs vélstjórapróf

Iðnfræði: Þau sem eru með 4. stigs vélstjórapróf geta skráð sig beint í véliðnfræði og rafiðnfræði.

Tæknifræði: Ef einstaklingur er með 4. stigs vélstjórapróf getur sá hinn sami skráð sig strax í nám í tæknifræði. Viðkomandi þarf ekki að fara í Háskólagrunn.

Verkfræði: Einstaklingur sem hefur lokið 4. stigs vélstjórnarprófi getur skráð sig í BSc-nám í verkfræði.

Aðrar námsbrautir: Yfirleitt þurfa umsækjendur með 4. stigs vélstjórapróf að hafa lokið stúdentsprófi eða lokaprófi úr Háskólagrunni HR en það þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig. Best er að hafa samband við starfsfólk deildarinnar sem sér um námið.

Tækniteiknari

Iðnfræði: Tækniteiknarar skrá sig yfirleitt í byggingariðnfræði en þeir útskrifast ekki sem iðnfræðingar nema hafa lokið sveinsprófi. Oft þurfa þessir einstaklingar að taka ákveðna grunna samhliða iðnfræðináminu sem kenndir eru í fjarnámi.

Byggingafræði: Tækniteiknarar geta hafið nám í byggingariðnfræði strax sem er fyrri hluti byggingafræðinámsins. Þeir taka jafnframt undirbúningsgrunna í stærðfræði, íslensku og ensku, samhliða fyrri hluta námsins.

Tæknifræði: Einstaklingar sem hafa lokið tækniteiknun þurfa að ljúka undirbúningsnámi í Háskólagrunni HR til að hefja nám í tæknifræði. 

Aðrar námsbrautir: Stefni tækniteiknari í annað nám er nauðsynlegt að ljúka Háskólagrunni HR. Þetta fer að sjálfsögðu eftir undirbúningi hvers og eins, og ráðlagt er að hafa samband við starfsfólk deilda.

Iðnstúdent/tæknistúdent

Iðnfræði: Einstaklingar með iðnstúdentspróf eða tæknistúdentspróf geta hafið nám strax í iðnfræði.

Byggingafræði: Þau sem hafa lokið iðnstúdentsprófi eða tæknistúdentsprófi geta í flestum tilvikum hafið nám strax í byggingariðnfræðihluta námsins. Þau þurfa þó að athuga að þau séu með nægan undirbúning í undirstöðugreinum:

  • stærðfræði 12 einingar (eða 20 fein)
  • eðlisfræði 6 einingar (10 fein)
  • íslenska 12 einingar (20 fein)
  • enska 9 einingar (15 fein)

Ef það vantar eitthvað upp á þennan undirbúning er hægt að ljúka námskeiðum í fjarnámi samhliða fyrri hluta byggingafræðinámsins.

Tæknifræði: Þau sem eru hafa lokið iðnstúdentsprófi eða tæknistúdentsprófi geta í sumum tilvikum þurft að ljúka undirbúningsnámi í Háskólagrunni HR áður en nám í tæknifræði hefst. Skoða þarf hvort það dugi að ljúka viðbótarnámi í stærðfræði og raungreinum.

Aðrar námsbrautir: Sé stefnan tekin á annað BSc- eða BA-nám við Háskólann í Reykjavík þurfa iðnstúdentar og tæknistúdentar að ljúka Háskólagrunni HR.

Stúdentspróf

Iðnfræði: Þau sem hafa lokið stúdentsprófi ásamt námi í viðeigandi iðngrein geta hafið strax nám í iðnfræði. Þeir einstaklingar sem hafa ekki lokið sveinsprófi í viðeigandi iðngrein útskrifast þó ekki sem iðnfræðingar. 

Byggingafræði, tæknifræði og aðrar námsbrautir: Þau sem hafa lokið stúdentsprófi geta hafið nám í byggingafræði, tæknifræði, verkfræði og öllum brautum í grunnnámi, nema ef einingar vantar í stærðfræði og raungreinum. Þá er hægt að ljúka þeim áföngum í Háskólagrunni HR.

Ráðgjöf

Nýr nemandi situr við skilti sem á stendur viltu spjallaViltu spjalla?

Þær Gréta, Stella, og Hildur Katrín, náms- og starfsráðgjafar HR, veita upplýsingar um námið við háskólann og aðstoða einstaklinga við að ná árangri í námi, átta sig á áhuga sínum og styrkleikum.

Viðtöl

Nemendur bóka viðtöl með því að:

Góð ráð

Hvernig vel ég háskólanám? Nokkur góð ráð sem geta nýst við ákvörðunartökuna.

Deildaskrifstofur

Til að fræðast meira um einstakar námsbrautir má einnig leita til deildaskrifstofa:

Aðstaða

HópavinnuherbergiÞjónusta og góður aðbúnaður

Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR. Þar eru einnig aðstaða til verklegra æfinga, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn.

Kennslustofur og lesherbergi

Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á vel búnar kennslustofur, lestraraðstöðu og hópavinnuherbergi.

Verkleg kennsla

Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar. Nemendur í tæknigreinum hafa aðgang að rafeindatæknistofu, orkutæknistofu og vélsmiðju. Auk þess hafa þeir aðgang að efnafræðistofu og í sumum tilvikum kjallara háskólabyggingarinnar fyrir stærri verkefni og tilraunir.

Kennsla í fjarnámi

Nemendur í iðnfræði geta víða á landsbyggðinni fengið aðstöðu til náms og hópavinnu í símenntunarstöðvum, fræðslusetrum og háskólasetrum, en á höfuðborgarsvæðinu býðst nemendum vinnuaðstaða í HR. Upplýsingar um slíka aðstöðu utan Reykjavíkur er að finna hjá sveitarfélögum.

Góð þjónusta

Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.

Verslanir og kaffihús

Í HR er jafnframt Háskólabúðin sem selur helstu nauðsynjavörur, Te og kaffi, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.

Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR.

Kennsla

Thordur-Vikingur_1554809419253Fjölbreyttar kennsluaðferðir

Námsmatið í HR er fjölbreytt, sem þýðir að árangur nemenda er metinn með öðrum leiðum en einungis lokaprófum. Nemendur vinna mikið í hópum, jafnvel þvert á ólíkar faggreinar, og reynt er að efla frumkvæði nemenda. Kennarar eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur.

Nokkur dæmi:

Fjölbreyttar staðarlotur

Í iðnfræði eru tvær staðarlotur á hverri önn sem standa yfir eina helgi í senn. Í sumum áföngum eru staðarloturnar nýttar fyrir verklegar æfingar. Einnig er farið í fyrirtæki og verkefni unnin í raunumhverfi. Fyrirlestrar eru settir fram á aðgengilegan hátt með hljóðglærum.

Verkefnin ráða för

Nám í byggingafræði er svokallað verkefnamiðað nám. Frá fyrsta degi í byggingafræði eiga nemendur að leysa flókin og spennandi verkefni. Í gegnum allt námið er unnið með PBL (e. Project Based Learning) eða „að læra með því að gera“. Raunhæfu verkefnin knýja námið áfram þar sem nemendur þurfa að tileinka sér þá þekkingu og hæfni sem þarf til að geta leyst þau. Þetta fyrirkomulag er víða notað í kennslu í háskólum á Norðurlöndunum en einn helsti kostur aðferðarinnar er að ekki skapast of miklir álagspunktar fyrir nemendur.

12+3: Öðruvísi skipulag

Námið í tæknifræði miðast við að vera hagnýtt og að veita nemendum sterkan grunn sem svo er byggt ofan á. Nemendur eru látnir glíma við verkleg úrlausnarefni strax á fyrstu önninni. Annirnar eru brotnar upp í tvo hluta: fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.

Þrír nemendur stilla sér upp við verkefnið sitt á Tæknidegi HR

Nemendur tækni- og verkfræðideildar sýna afurð þriggja vikna verklegs námskeiðs á Tæknideginum sem er haldinn á hverju ári.

Sérfræðingar úr atvinnulífinu

Kennarar við deildir HR eru annars vegar fastráðnir við sína deild og hafa mikla og góða reynslu af kennslu. Einnig kenna sérfræðingar úr atvinnulífinu einstaka námskeið. Nemendur fá því góðan fræðilegan grunn ásamt því að fá nýjustu þekkinguna úr atvinnulífinu.

Reynslusögur

Hvað gerðu þau?

Hér segja nokkrir núverandi og fyrrverandi nemendur sem hafa lokið iðnmenntun frá sínum námsferli í HR. 

Frumgreinar_Daniel-Bonelli

Daníel Már Bonilla

Meistararéttindi í bílamálun - Háskólagrunnur HR - tölvunarfræði

Lesa meira

Hver er bakgrunnur þinn?

Ég er með meistararéttindi í bílamálun og hef unnið við tjónaviðgerðir í 10 ár.

Af hverju ákvaðst þú að hefja nám í tölvunarfræði?

Ég hef alltaf haft áhuga á tölvum og tölvutengdum hlutum. Ég hafði alltaf hugsað mér að læra eitthvað nýtt en það var ekki fyrr en ég vissi að ég væri að verða faðir sem ég ákvað að taka af skarið og skella mér í háskólanám.

Hvernig er reynslan af því hingað til?

Reynslan af náminu er mjög góð og mér gengur mjög vel. Námsefnið er áhugavert, skemmtilegt og mjög nytsamlegt fyrir framtíðina.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart?

Það hefur lítið komið mér á óvart en ástæðan fyrir því er líklega undirbúningur minn úr Háskólagrunninum.

Hvað myndirðu segja við einstaklinga sem hafa iðnmenntun og eru að velta fyrir sér háskólanámi

Það færi kannski eftir því hver bakgrunnur þeirra væri og í hvaða nám þeir ætluðu sér að fara. Ég t.d. þurfti betri stærðfræðikunnáttu fyrir tölvunarfræðina og þá mæli ég eindregið með Háskólagrunni HR sem undirbúningi hvort sem það er í fullu námi eða viðbótarnámi. Síðan bara skella sér á háskóladaginn og kynna sér námið eða skoða bæklinga/heimasíðu háskólans. Það er aldrei of seint að byrja.


Harpa-Sjofn-IMG_7583

Harpa Sjöfn Nicolaidóttir Blöndal

Sveinspróf í pípulögnum - viðbótarnám í Háskólagrunni HR - byggingartæknifræði

Lesa meira

Hver er bakgrunnur þinn?

Sveinspróf í pípulögnum.

Af hverju ákvaðstu að fara í nám í byggingartæknifræði? 

Af heilsufarslegum ástæðum get ég ekki unnið fulla vinnu sem iðnaðarmaður lengur svo ég ákvað að nota það sem ég hef og læra meira í kringum byggingariðnaðinn svo ég geti starfað áfram við það sem ég hef áhuga á. Ég vissi að kennslan í HR er að verulegu leyti verkleg og persónuleg og þá var valið auðvelt.

Hvernig er reynslan af því hingað til?

Ég sé ekki eftir neinu.

Hvað langar þig að gera að loknu námi?

Mig langar að hanna og teikna lagnir og vinna við stærri verkefni.

Byggingafraedi-Jorundur-IMG_7347

Jörundur Ragnar Blöndal

Sveinspróf í húsasmíði  - byggingariðnfræði - byggingafræði

Lesa meira

Hver er bakgrunnur þinn?

Ég hóf nám í húsasmíði við Iðnskólann í Reykjavík 1996 en tók hlé frá námi árið 1998. Settist svo aftur á skólabekk 2006 og lauk sveinsprófi í húsasmíði í kvöldskóla Tækniskólans samhliða fullri vinnu 2008. Annars hef unnið við smíðar síðan 2001.

Af hverju ákvaðst þú að hefja nám í byggingafræði? 

Mig langaði að bæta við mig meiri menntun og var bent á það af gömlum kennara mínum við Tækniskólann að sveinsprófið veitti mér aðgang í byggingariðnfræði við HR. Ég skráði mig í byggingariðnfræði árið 2015 og upphaflega stóð aðeins til að klára það. Þetta var mjög krefjandi nám en ég sá fljótt að þetta átti vel við mig. Eftir eitt ár í iðnfræðinni sótti ég um sumarstarf á verkfræðistofu og fékk starfið. Það var þá sem ég áttaði mig á vægi námsins á vinnumarkaði og sá að ef ég héldi áfram í byggingafræðina myndu tækifærin aðeins aukast og þá var ekki aftur snúið. Ég sé ekki eftir því í dag.

Hvernig er reynslan af því hingað til?

Reynslan af náminu og háskólanum hefur yfir höfuð verið frábær. Aðstaðan í skólanum er mjög góð, það er vel haldið utan um námið og leiðbeinendur í byggingafræðinni eru mjög hæfir og veita manni mikla og góða aðstoð í náminu. Lykilatriði er þó að það er gott andrúmsloft í nemendahópnum.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart? 

Það er þó nokkur stærðfræði fólgin í náminu, sérstaklega á fyrstu stigum þess. Ætli það hafi ekki komið mér mest á óvart hvað hún gekk vel. Það má segja að ég hafi áttaði mig á því að það er allt hægt ef maður setur sér markmið og vinnur ötullega að þeim.

Hver er helsti kostur námsins?

Námið er mjög krefjandi en ég finn það í starfi að verkefnin sem við erum látin leysa í skólanum eru raunhæf og undirbúa mann vel fyrir vinnumarkaðinn.

Hvað langar þig að gera að námi loknu?

Ég reikna með að halda áfram í þeirri vinnu sem ég fékk 2016 í kjölfar námsins við skólann en maður veit auðvitað aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Eitt er þó víst að námið hefur opnað margar dyr fyrir mér á vinnumarkaðnum sem er einmitt það sem ég vildi fá út úr þessu öllu saman.

Byggingafraedi-Hakon-IMG_7362

Hákon Barðason

Sveinspróf í húsasmíði - byggingariðnfræði - byggingafræði

Lesa meira

Hver er bakgrunnur þinn?

Ég er menntaður húsasmiður, útskrifaður frá FB, ásamt því að vera húsasmíðameistari og iðnfræðingur frá HR.

Af hverju ákvaðst þú að hefja nám í byggingafræði?

Ég er búinn að vinna sem smiður í 10 ár og ákvað að breyta til og nýta mér í leiðinni alla þessa dýrmætu reynslu sem ég hef unnið mér inn sem smiður. Einnig hef ég mikinn áhuga á byggingabransanum og langar að leggja mitt af mörkum.

Hvernig er reynslan af náminu hingað til?

Mjög skemmtilegt og krefjandi nám með nytsamlegum kennsluaðferðum fyrir framtíðina þar sem verkefni snúast markvisst um að þjálfa okkur fyrir vinnumarkaðinn.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart?

Hvað byggingafræðin er orðin nauðsynleg starfsgrein í byggingariðnaðinum og hvað það er mikið af skemmtilegum kennurum og fólki sem maður kynnist í skólanum.    

Hver er helsti kostur námsins?

Hvað námið er praktískt. Ég er búinn að vinna eitt sumar á arkitektastofu og ég fann hversu vel ég var undirbúinn að fara inn á vinnumarkaðinn eftir það sem ég hafði lært í náminu.

Hvað langar þig að gera að námi loknu?

Mig langar að verða löggiltur mannvirkjahönnuður ásamt því að vinna við hönnun og framkvæmdir í byggingarbransanum.


Haskolan-f-idnmentada-Rikardur-IMG_7385

Ríkarður Jón Ragnarsson

Sveinspróf í rafvirkjun - Háskólagrunnur HR - rafmagnstæknifræði

Lesa meira

Hver er bakgrunnur þinn? 

Ég er með sveinspróf í rafvirkjun og lokapróf úr Háskólagrunni Háskólans í Reykjavík.

Af hverju ákvaðstu að fara í nám í rafmagnstæknifræði? 

Ég hef unnið við rafmagn síðan ég var 12 ára og áhuginn liggur þar. Tæknifræðin var valin því hún býður upp á hagnýtara nám en verkfræðin. Eftir 7 anna nám fæ ég lögverndað starfsheiti sem tæknifræðingur, ég get sótt um meistarabréf í rafvirkjun og hef einnig möguleika á áframhaldandi meistaranámi fyrir frekari sérhæfingu.

Hvernig er reynslan af því hingað til? 

Samskipti nemenda við kennara eru til fyrirmyndar. Húsnæðið er opið allan sólarhringinn og aðstaðan er góð fyrir metnaðarfulla nemendur til að vinna að verkefnum eða sinna áhugamálum.

Hefur eitthvað komið þér á óvart? 

Frelsi nemenda. 

Hvað myndirðu segja við einstaklinga sem hafa lokið iðnmenntun og eru að velta fyrir sér háskólanámi?

Ég mæli með tæknifræði allan daginn. Ég hef fengið verkfræðinema til að sjá eftir því að hafa ekki valið tæknifræðina frekar en verkfræðina. 

Hvað langar þig að gera að loknu námi?

Ég stefni á að halda áfram í meistaranám erlendis. 

Aron Sölvi Ingason

Aron Sölvi Ingason

Sveinspróf í málaraiðn - stúdentspróf - viðbótarnám í Háskólagrunni HR - byggingartæknifræði

Lesa meira

Hver er bakgrunnur þinn?

Ég kláraði sveinspróf í málaraiðn og vann við það í 9 ár. Svo lauk ég stúdentsprófi af félags- og hugvísindadeild í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ 2013. Skráði mig svo í byggingariðnfræði en ákvað að færa mig yfir í byggingartæknifræði. Áður en ég gat byrjað þar þurfti ég að klára eitt ár í Háskólagrunni HR í stærðfræði og eðlisfræði.

Af hverju skráðir þú þig í það háskólanám sem þú ert í núna?

Mér leist vel á byggingartæknifræðina frekar en byggingarverkfræði þar sem eftir 3,5 ár er maður orðinn tæknifræðingur, og ef ég vil seinna halda áfram þá get ég alltaf gert það og orðið verkfræðingur.

Af hverju valdirðu HR?

Ég byrjaði þar í iðnfræðinni og Háskólagrunni og tæknifræði er ekki kennd í HÍ.

Hvernig líður þér með ákvörðunina?

Mjög vel.

Hvað langar þig að gera í framtíðinni?

Til að byrja með langar mig að vinna við hönnun í einhver ár svo bara sé ég til hvað ég geri eftir það, ef ég held ekki áfram í því.

Hefur eitthvað komið þér á óvart varðandi námið?

Þetta er auðveldara heldur en ég bjóst við, ekkert mál ef maður bara lærir nógu mikið.

Byggingafraedi-Saedis-Harpa-IMG_7411

Sædís Harpa Albertsdóttir

Tækniteiknun - Háskólagrunni HR - byggingafræði

Lesa meira

Hver er bakgrunnur þinn?

Ég er tækniteiknari að mennt.

Af hverju ákvaðstu að fara í nám í byggingafræði?

Ég vann á arkitektastofu þegar ég lauk tækniteiknináminu og fann að mig langaði að læra meira, þekkja reglurnar og vita aðeins meira.

Hvernig er reynslan af því hingað til?

Ég er mjög ánægð með þá ákvörðun að hafa skellt mér aftur í skóla því ég hef lært meira.

Hefur eitthvað komið þér á óvart?

Það kom mér á óvart hvað ég gat nýtt mér margt úr fyrra námi.

Hvað langar þig að gera að loknu námi?

Ég vil fara aftur á arkitektastofu og nýta mér alla nýju þekkinguna í að teikna og hanna betur.

Arnþór Gíslason

Arnþór Gíslason

Sveinspróf í rafeindavirkjun - Háskólagrunnur HR -  rafmagnstæknifræði -  rafmagnsverkfræði

Lesa meira

Hver er bakgrunnur þinn?

Ég kláraði sveinspróf í rafeindavirkjun áður en ég fór í Háskólagrunn HR.

Af hverju ákvaðstu að fara í frumgreinanám?

Ég hef áhuga á rafmagninu en var orðinn frekar leiður á starfinu og réð ekki nógu vel við puðið sem fylgdi iðninni.

Af hverju valdirðu HR?

Bróðir minn fór í Háskólagrunn HR og fór fögrum orðum um námið.

Hvernig líður þér með ákvörðunina?

Háskólagrunnur HR var allavega góð fyrir mig. Ég held enn að rafmagnstæknifræðin í HR sé besta rafmagnsmiðaða grunnnámið í boði á Íslandi. Ég væri samt til í að vera betri í forritun. Þetta er búinn að vera góður hluti af lífi mínu og sé ég ekki eftir því að hafa byrjað.

Hefur eitthvað komið þér á óvart varðandi námið?

Það kom á óvart hvað þetta var auðvelt fyrir mig. 

 


Var efnið hjálplegt? Nei