Tæknifræði
Í tæknifræði er lögð áhersla á að byggja upp verkvit, fræðilega fagþekkingu og tengsl við atvinnulífið. Námið er tilvalið fyrir þau sem vilja geta hafið starfsferil sinn strax að loknu BSc–námi. Þau sem útskrifast með lokapróf í tæknifræði hljóta lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur.
Tæknifræði er kennd á fjórum brautum:
- byggingartæknifræði
- rafmagnstæknifræði
- orku- og véltæknifræði (áður vél- og orkutæknifræði)
- iðnaðar- og orkutæknifræði á Norðurlandi (kennt í staðarnámi við Háskólann á Akureyri)
Upplýsingar um námið
- Námstími er þrjú og hálft ár.
- Tæknifræði hefst alltaf á haustönn, ekki er tekið inn um áramót.
Nauðsynlegur undirbúningur
Til að hefja nám í tæknifræði þurfa umsækjendur að hafa lokið stúdentsprófi, prófi úr Háskólagrunni HR, 4. stigs vélstjórnarprófi, sveinsprófi eða staðist lokapróf frá framhaldsskóla á 3. hæfniþrepi. Nauðsynlegt er að uppfylla einingafjölda og hæfniþrep sem talin eru upp hér fyrir neðan. Námsefni og kennsla á fyrsta ári í tæknifræði er miðuð við að nemendur hafi eftirfarandi undirbúning. Hægt er að lesa meira um hæfniþrep á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Stærðfræði
20 einingar, þar af 15 einingar á 3. hæfniþrepi. Miðað er við áfanga af náttúrufræði- eða náttúruvísindabraut.
Eðlisfræði
Umsækjendur í byggingartæknifræði: 5 einingar á 2. eða 3. hæfniþrepi.
Umsækjendur í rafmagntæknifræði, orku- og véltæknifræði, iðnðaðar- og orkutæknifræði: 10 feiningar á 2. eða 3. hæfniþrepi.
Íslenska
20 einingar
Enska
15 einingar
Tölvur í náminu
Nauðsynlegt að hafa góða tölvu í tæknifræðináminu. Mörg forrit sem eru notuð eru eingöngu til fyrir Windows stýrirkerfi, en ef nemendur eiga eða kjósa frekar að notast við Apple tölvur er mikilvægt að þær séu nógu öflugar til að keyra forritin í virtual umhverfi. Þar sem er unnið mikið með teikningar er gott skjákort einnig eitthvað til að huga að. Sem dæmi má nefna að AutoCAD hefur gefið út viðmið fyrir forritin frá þeim sem má finna hér
Iðn- og tæknifræði - Kynningarfundur
Stöðupróf í stærðfræði og eðlisfræði
Til að koma til móts við umsækjendur sem uppfylla ekki inntökuskilyrði í tæknifræði er boðið upp á stöðupróf í stærðfræði og eðlisfræði.
Stöðuprófin eru ætluð fyrir:
- Þau sem telja sig hafa nægilegan grunn án þess að hafa lokið tilskyldum framhaldsskólaeiningum
- Þau sem uppfylla inngönguviðmið en vilja rifja upp námsefnið og sjá hvar þau standa áður en nám hefst
Prófin fara fram um miðjan/lok júní í húsnæði HR við Nauthólsvík. Ekki verður að svo stöddu boðið upp á fjarpróf.
Athugið að ef sótt er um inntöku með stöðuprófi í stærðfræði og eðlisfræði, þarf samt sem áður að uppfylla kröfur um einingafjölda í íslensku og ensku.
Próf í stærðfræði:
Umsækjendur þreyta eitt stöðupróf. Prófið fer fram í júní og í því er kannaður grunnur í algebru auk annars efnis: Almenn brot, einfaldar jöfnur, prósentureikningur, rauntalnalínan, þáttun, mengi, föll, hornaföll, deildun, heildun, vigrar
Próf í eðlisfræði:
Stöðupróf í eðlisfræði fer fram í júní.
Umsækjendur í byggingartæknifræði taka A hluta stöðuprófs.
Umsækjendur í rafmagnstæknifræði, orku- og véltæknifræði, iðnaðar- og orkutæknifræði taka bæði A hluta og B hluta stöðuprófs.
A HLUTI | B HLUTI |
---|---|
Mælieiningar | Grunnhugtök í rafmagnsfræði |
Vigrar | Segulmagn og segulsvið |
Hraði og hröðun | Segulkraftar |
Hreyfing í tveimur víddum | Span |
Kraftar | Bylgjur |
Orka | Ljós |
Skriðþungi | |
Vökvar | |
Varmi og varmaflutningur |
Framkvæmd:
- Umsækjendur skrá sig með því að senda póst á Birtu Sif, verkefnastjóri í tæknifræði; birtaa@ru.is . Umsækjendur fá sendan hlekk inn á skráningarsíðu þar sem þau greiða fyrir stöðuprófið.
- Skráning er staðfest og umsækjendur fá aðgang að undirbúningsefni.
- Upplýsingar um prófstað og próftíma eru sendar áður en prófið fer fram í júní.
Þau sem standast nauðsynleg stöðupróf með einkunn 6 eða hærra er velkomið að hefja nám í tæknifræði. Þau sem ekki standast nauðsynleg stöðupróf geta hafið nám í Háskólagrunni til frekari undirbúnings. Að loknu námi í Háskólagrunni geta þau sótt um nám í tæknifræði.
Til þess að fá nánari upplýsingar og/eða skrá sig í stöðupróf sendið póst á birtaa@ru.is .
Við HR er hægt að ljúka viðbótarnámi við stúdentspróf ef einstaklinga vantar undirbúning í raungreinum, og Háskólagrunni HR ef frekari undirbúning vantar.
Iðnfræðin metin
Útskrifaðir iðnfræðingar geta fengið hluta af námi sínu metið inn í tæknifræðinám iðn- og tæknifræðideildar. Til að hefja nám í tæknifræði þarf iðnfræðingur eftir atvikum að bæta við sig einni önn í Háskólagrunni. Uppfylli viðkomandi lágmarkseinkunn fær hann eftirfarandi metið:
- Rafmagnsiðnfræðingar fá að lágmarki 29 ECTS einingar metnar inn í rafmagnstæknifræði
- Véliðnfræðingar fá að lágmarki 35 ECTS einingar metnar inn í orku- og véltæknifræði
- Byggingariðnfræðingar fá að lágmarki 41 ECTS einingu metna inn í byggingartæknifræði
Skipulag náms
Tækniháskóli í fremstu röð
Iðn- og tæknifræðideild er aðili að samstarfsneti um að þróa og bæta kennslu í verkfræði og tæknifræði, CDIO (Conceive, Design, Implement, Operate). Í dag eru um 100 háskólar frá öllum heimshornum þátttakendur og vinna þeir kerfisbundið að því að þróa námsbrautir í tæknifræði með áherslu á þarfir atvinnulífsins.