Reglur um skil á lokaverkefnum

Samþykkt í framkvæmdastjórn HR 20. desember 2016

  1. Nemendur í grunn-, meistara- og doktorsnámi í öllum deildum skólans skila einu eintaki af lokaverkefni sínu á rafrænu formi (PDF) í varðveislusafnið Skemmuna (www.skemman.is).
  2. Nemendur í doktorsnámi skila að auki prentuðum eintökum í samræmi við reglur viðkomandi deildar, á þjónustuborð HR í Sólinni, fyrir kl. 16:00 á tilgreindri skiladagsetningu [1].
  3. Öll lokaverkefni skulu vera opin til aflestrar á bókasafni HR og í Skemmunni í samræmi við stefnu skólans um opinn aðgang sem samþykkt var þann 13. nóvember 2014. Opinn aðgangur að lokaverkefni á bókasafni HR og í Skemmunni er opinber birting í skilningi höfundalaga nr. 73/1972.
  4. Nemandi getur óskað eftir því að aðgangi að lokaverkefni sé lokað ef það inniheldur upplýsingar sem krefjast þess að trúnaður ríki um. Þá er annars vegar átt við trúnaðarupplýsingar, þ.e. viðkvæmar upplýsingar sem höfundi kann auk þess að vera óheimilt að birta (persónuupplýsingar, viðskiptaupplýsingar þ.m.t. upplýsingar sem samstarfsfyrirtæki óska eftir að leynt fari). Hins vegar er átt við verðmætar upplýsingar, s.s. ef lokaverkefni inniheldur viðskiptahugmynd, upplýsingar um og/eða lýsingar á vöru, hugmynd eða aðferð sem hægt er að nýta eða sækja um einkaleyfi á.
  5. Nemandi sem óskar eftir því að aðgangi að lokaverkefni sínu sé lokað, verður að skila inn beiðni um lokun lokaverkefnis á sérstöku eyðublaði (sjá eyðublað hér). Beiðninni er skilað inn rafrænt á viðkomandi deild til samþykktar.

Um frágang lokaverkefna vísast til reglna viðkomandi deildar.

[1] Hér er átt við skiladag fyrir endanlegt lokaeintak eftir atvikum með leiðréttingum gerðum eftir vörn verkefnisins.


Var efnið hjálplegt? Nei