Almennar reglur um nám og námsmat

Samþykkt með áorðnum breytingum í námsráði HR 5.6.2015 og framkvæmdastjórn HR 11.6.2015.

1. Um skráningar

1.1 Skráning og úrsögn úr prófi eða námskeiði og skráning í sjúkra- og endurtektarpróf

Nemandi ber ábyrgð á að skrá sig í námskeið innan tímamarka sem eru tilkynnt í almanaki Háskólans í Reykjavík (HR) enda gildir skráning í námskeið jafnframt sem skráning í próf.

Nemandi ber ábyrgð á eigin námi, þar með talið skráningu og því að skráning sé í samræmi við kröfur viðkomandi námsbrautar og í samræmi við reglur um framvindu og undanfara námskeiða. Á fyrstu tveimur kennsluvikum hverrar námsannar getur nemandi skráð sig í námskeið en nemandi getur skráð sig úr námskeiði á fyrstu fjórum vikum annar með því að senda kennslusviði póst (nemendabokhald@ru.is). Skráningu í þriggja vikna námskeið má breyta í síðustu viku tólf vikna tímabils. Um skráningu í námskeið á meistarastigi í lagadeild gilda sérstakar reglur sem sjá má á vef deildarinnar.

Nemandi, sem ekki mætir í lokapróf og hefur ekki boðað lögmæt forföll fær einkunnina núll í námskeiði. Nemandi sem hefur ekki próftökurétt til lokaprófs fær einkunnina núll í námskeiðinu.

Nemandi sem er veikur þegar lokapróf fer fram á kost á að taka sjúkrapróf, sjá nánar 5. grein þessara reglna. Skráning í sjúkrapróf fer fram um leið og nemandi skilar gildu læknisvottorði sbr. gr. 5.1 í reglum þessum. Sjúkra- og endurtektarpróf fara fram eftir að úrslit lokaprófa liggja fyrir og er tímasetningu þeirra að finna í almanaki skólans.

Skráning í endurtektarpróf fer fram á auglýstum tíma samkvæmt almanaki skólans. Kjósi nemandi að skrá sig úr sjúkra- eða endurtektarprófi skal hann senda póst á nemendabokhald@ru.is eigi síðar en fyrir próf sama dag og það er haldið. Prófgjald fyrir endurtektarpróf má sjá undir Skólagjöld á vef HR. Gjald fyrir endurtektarpróf er óendurkræft.

HR er heimilt að skrá nemanda úr námi eftir að tímabili skráningar í námskeið lýkur hafi hann hvorki greitt skólagjöld né skráð sig í námskeið á komandi önn.

1.2 Um flutning nemenda á milli brauta eða deilda

Þegar nemandi óskar eftir að skipta um braut innan deildar þarf hann að sækja um það formlega hjá viðkomandi deild. Nemandi getur aðeins skipt um braut milli anna.

Þegar nemandi óskar þess að stunda nám í annarri deild en hann er skráður í þarf hann að sækja um nám í þeirri deild sem hann óskar. Þótt nemandi hafi áður stundað nám í einni deild við skólann er það ekki trygging fyrir því að hann fái inni í annarri deild.

1.3 Hámarksfjöldi eininga sem nemandi getur skráð sig í

Fullt nám á önn telst að jafnaði vera 30 ECTS-einingar. Nemandi getur þó skráð sig í allt að 36 ECTS-einingar á önn. Ef mjög ríkar ástæður eru til má deild veita frekari undanþágu frá framangreindri reglu.

1.4 Um tímasókn

Nemanda ber að kynna sér kröfur hvers námskeiðs um tímasókn.

1.5 Þreytt próf 

Nemanda er heimilt að sitja hvert námskeið tvisvar og þreyta þau próf sem í boði eru í bæði skiptin. Að sitja námskeið þýðir að nemandi er enn skráður í námskeið eftir að frestur til að skrá sig úr námskeiði er liðinn, sbr. gr. 1.1.

Nemanda er heimilt að sitja aftur námskeið eða þreyta lokapróf sem hann hefur lokið til að breyta fyrri einkunn. Einkunn í námskeiði eða lokaprófi sem er þreytt aftur stendur alltaf, óháð því hvort hún er hærri eða lægri en fyrri einkunn.

1.6 Endurinnritun

Nemandi sem ekki stenst kröfur deildar um námsframvindu (sjá nánar í reglum deilda) getur sótt um endurinnritun hjá skrifstofu deildar. Við endurinnritun þarf nemandi í grunnnámi að endurtaka námskeið sem hann hefur lokið með einkunn lægri en 6,0. Á meistarastigi gilda reglur deilda um lágmarkseinkunn í námskeiðum sem metin eru inn í nám við endurinnritun.

1.7 Skráning aukaeininga

Ljúki nemandi einingum umfram lágmarkskröfu um einingafjölda fyrir prófgráðu getur hann óskað eftir því að valnámskeið sem samsvara umframeiningum verði ekki birt í útskriftargögnum.  Beiðni um slíka breytingu skal berast eigi síðar en níu dögum fyrir útskrift.

Ljúki nemandi námskeiði sem efnislega skarast verulega við námskeið sem nemandi hefur þegar lokið telst það ekki til viðkomandi prófgráðu.

1.8 Um námsframvindu og mat á fyrra námi

Til eru samræmdar reglur í HR, annars vegar fyrir grunnnám og hins vegar fyrir meistaranám, þar sem m.a. er fjallað um framvindu, hámarksnámstíma, mat á fyrra námi og námshlé. Þær reglur má finna á vef skólans:

Samræmdar reglur fyrir grunnnám

Samræmdar reglur um nám á meistarastigi

2. Um lokapróf og einkunnir

2.1 Framkvæmd lokaprófa

Skrifleg og munnleg lokapróf eru haldin í lok námskeiða á hverri önn og skal próftafla liggja fyrir sex vikum fyrir fyrsta lokapróf. Prófstjórn áskilur sér rétt til breytinga á próftöflu innan 7 virkra daga frá birtingu. Ef lokapróf eru haldin í einstökum námskeiðum utan hefðbundins prófatímabils skal fylgja reglum um framkvæmd prófa að svo miklu leyti sem því verður við komið. Framkvæmd er þá alfarið í höndum viðkomandi kennara og deildar/sviðs, í samráði við prófstjóra. Sjá nánar í 6. grein.

2.2 Prófstjóri og prófstjórn

Prófstjóri hefur samráð við viðkomandi forseta deilda og forstöðumann frumgreinadeildar HR um tilhögun prófa. Prófstjórn skipa prófstjóri og forstöðumaður kennslusviðs.

2.3 Próftími

Próftími í skriflegum lokaprófum skal aldrei vera styttri en tvær klukkustundir og ekki lengri en fjórar klukkustundir. Forseti deildar, í samráði við prófstjóra, getur þó leyft frávik í einstökum námsgreinum. Kennara eða staðgengli ber að koma a.m.k. einu sinni inn í prófstofu á meðan próf stendur yfir til þess að svara spurningum um vafaatriði eða önnur atriði á prófi. Nemandi, sem tekur fleiri en eitt próf er falla á sama tíma, skal koma upplýsingum um það til prófstjóra svo hægt sé að gera ráðstafanir til að taka megi prófin hvert á fætur öðru.

2.4 Skil einkunna úr lokaprófum og lokaritgerðum

Einkunnir úr lokaprófi námskeiðs (munnlegt og skriflegt lokapróf) eiga að liggja fyrir eigi síðar en sjö virkum dögum eftir að prófinu lýkur. Einkunnir úr sjúkra- og endurtektarprófum skulu liggja fyrir eigi síðar en fimm virkum dögum eftir prófdag. Ef fjöldi nemenda sem þreytir próf er óvenju mikill getur kennari sótt um frest á skilum einkunna til kennslusviðs. Kennari tilkynnir um slíkan frest á heimasíðu námskeiðs sé hann veittur. Um skil einkunna í frumgreinadeild sjá grein 3.1.

Einkunnir lokaritgerða (lokaritgerðir á bakkalár- og meistarastigi) þurfa að liggja fyrir eigi síðar en tíu virkum dögum fyrir útskriftardag viðkomandi annar. Sjá nánar um skil á lokaritgerðum í reglum skólans þar að lútandi.

Reglur um skil á lokaverkefnum

2.5 Skráning lokaeinkunna

Kennari skráir lokaeinkunnir inn á kennsluvef námskeiðs þar sem þær eru vistaðar og námskeiði er lokað. Kennslusvið birtir lokaeinkunnir eftir að kennari hefur lokað námskeiði.

2.6 Birting einkunna

Kennslusvið áskilur sér rétt til að fresta birtingu lokaeinkunna þar til síðasta próf hefur verið þreytt á viðkomandi námsbraut/námsári/deild.

3. Um próf í frumgreinadeild

3.1 Próf

Próftími í skriflegu lokaprófi skal að jafnaði ekki vera lengri en þrjár klukkustundir. Lokaeinkunnir áfanga skulu liggja fyrir eigi síðar en sjö virkum dögum eftir próftöku. Lokaeinkunnir úr síðustu lokaprófum hvers próftímabils skulu liggja fyrir áður en prófsýning frumgreinadeildar fer fram. Nemandi á rétt á að sjá mat úrlausnar sinnar á skriflegu prófi og fá útskýringar kennara á prófsýningu deildarinnar sem haldin er innan þriggja daga frá birtingu allra einkunna og auglýst er á vef skólans.

3.2 Einkunnir í frumgreinanámi

Til að standast áfanga þarf lágmarkseinkunn á lokaprófi að vera 4,0 og lokaeinkunn áfanga að lágmarki 5,0. Aðrir þættir námsmats en lokapróf eru ekki hluti af lokaeinkunn nema lokaprófseinkunn sé að lágmarki 4,0. Allir þættir námsmats og hlutfall þeirra í hverjum áfanga er tilgreint í áfangalýsingum og á vef námskeiðsins.

Að öðru leyti gilda almennar reglur HR um nám- og námsmat um nemendur frumgreinadeildar HR.

4. Námsmat, einkunnagjöf og próftaka

4.1 Samsetning námsmats

HR leggur áherslu á fjölbreytt námsmat. Matið getur t.d. byggst á mætingu í tíma, þátttöku í kennslustundum, ritgerðum, framsögn, verkefnum, raunhæfum verkefnum, skyndiprófum, lokaprófi, vinnubókum, jafningjamati eða umræðum á vef.

Aðalkennari (eða kennarar) í námskeiði er ábyrgur fyrir gerð þeirra prófa og verkefna sem lögð eru fyrir í námskeiðinu og samsetningu lokaeinkunnar. Gefin er ein lokaeinkunn fyrir hvert námskeið sem nemandi er skráður í.

4.2 Tengsl námsmats og lærdómsviðmiða

Allir þættir námsmats þ.m.t. lokapróf eiga að hafa skýr tengsl við lærdómsviðmið (nefnt hæfniviðmið í kennslukerfi skólans) námskeiðsins.

4.3 Vægi einstakra þátta í námsmati

Vægi einstakra þátta í námsmati skal koma fram á námskeiðsvef í upphafi námskeiðs.

Ef einkunn í verklegu prófi er samsett úr fleiri en einum hluta skal gera grein fyrir vægi hvers hluta áður en prófið er þreytt.

4.4 Próftökuréttur og lágmarksskilyrði       

Heimilt er að setja það skilyrði fyrir rétti til töku lokaprófs að nemandi hafi náð tilskildum árangri í verklegum þætti, ástundun og/eða verkefnum.

Heimilt er að krefjast þess að tilteknir liðir í námskeiði séu leystir af hendi á fullnægjandi hátt til þess að nemandi teljist hafa lokið námskeiði. Slíkar kröfur verður að tilkynna í upphafi námskeiðs (sjá nánar grein 5.1).

4.5 Einkunnagjöf

Lokaeinkunnir eru gefnar í heilum og hálfum tölum á kvarðanum 0-10. Lokaeinkunn námskeiða lægri en 5,0 í grunnnámi og lægri en 6,0 í námi á meistarastigi er falleinkunn og fást þá ekki einingar fyrir viðkomandi námskeið. Deildir geta ákveðið hærri lágmarkseinkunn fyrir einstök námskeið (sjá reglur deilda).

Nemandi í grunnnámi þarf að fá að lágmarki 5,0 (gildir ekki um frumgreinadeild, sjá grein 3.2) í einkunn á lokaprófi námskeiðs. Þetta á við hvort svo sem námskeið telst til grunnnáms eða meistaranáms.

Á meistarastigi þarf nemandi að fá að lágmarki 6,0 í einkunn á lokaprófi námskeiðs. Þetta á við hvort sem námskeið telst til meistaranáms eða grunnnáms.

Ef lokapróf hefur minna vægi en 20% af lokaeinkunn hefur kennari heimild til að víkja frá lágmarkseinkunn í lokaprófi.

Deild getur ákveðið að gefa staðið eða fall í stað tölueinkunnar í einstökum námskeiðum.

4.6 Um próftöku, verkefnavinnu og heiðarleg vinnubrögð

Kennari gerir grein fyrir uppbyggingu og vægi einstakra þátta í skriflegu prófi á prófblaði. Kennari gerir einnig grein fyrir því hvaða hjálpargögn eru heimil í prófi.

Nemanda ber að vinna einn að lausn verkefna í áfanga- og lokaprófum. Nemanda er óheimilt að veita aðstoð eða þiggja aðstoð frá öðrum og öll afritun er óheimil.

HR leggur mikla áherslu á vönduð akademísk vinnubrögð og heilindi í framkomu starfsmanna og nemenda. Mikilvægur þáttur í vönduðum akademískum vinnubrögðum er að höfundarréttur sé virtur og að allir nemendur leggi sitt af mörkum í hópstarfi.

Til að skýra betur væntingar HR á þessu sviði hefur skólinn sett eftirfarandi reglur um heilindi í verkefnavinnu:

a. Hugverk nemanda

HR gerir þá kröfu til nemanda að öll verkefni sem hann skilar séu hans eigið hugverk. Í því felst meðal annars að hann vinni verkefnið sjálfur frá grunni, án aðstoðar annarra, og taki aldrei upp texta annarra eða vinnu annarra og setji fram sem sitt eigið verk. Ávallt skal geta heimilda og reglur um heimildanotkun gilda einnig um afritun eigin verka.

Hvert verkefni sem skilað er, skal vera einstakt. Öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan námskeiðs, milli námskeiða eða milli námsbrauta er óheimil, nema annað sé tekið fram.

Kennara er heimilt að gera undantekningu frá þeirri meginreglu að nemendur megi ekki vinna saman að verkefnum, og gerir hann þá skriflega grein fyrir því í verkefnislýsingu. Sama á við í hópverkefnum; verkefnið skal vera unnið af hópnum frá grunni, án aðstoðar annarra, og er allur hópurinn ábyrgur fyrir því að rétt vinnubrögð séu viðhöfð.

b. Framlag nemanda

HR gerir þá kröfu að nemandi leggi sig ávallt fram í hópstarfi og gæti þess að framlag hans sé sambærilegt á við hina í hópnum. Kennari hefur heimild til að gefa einstaklingum í hópi mismunandi einkunn ef ljóst þykir að framlag þeirra hefur verið verulega ójafnt.

c. Einstaklings- og hópverkefni

Í einstaklingsverkefnum er gerð krafa um að hver nemandi vinni sjálfur og án aðstoðar alla þætti verkefnisins, en í hópverkefnum hefur hópurinn möguleika á að skipta með sér verkum, þó þannig að vinnuframlag einstakra hópmeðlima til verkefnisins sé sambærilegt. Allur hópurinn er þó eftir sem áður ábyrgur fyrir heildarverkinu.

Viðurlög við broti á ofangreindum reglum um verkefnavinnu geta verið 0 fyrir verkefnið, 0 í námskeiði, áminning og jafnvel brottrekstur úr skóla. Sjá nánar grein 7.3 og Siðareglur HR.

Nemendum sem þreyta munnlegt próf er óheimilt að ræða sín á milli eða á annan hátt skiptast á upplýsingum um efni prófs á meðan á því stendur. Verði nemandi uppvís að slíku skal vísa málinu til forseta deildar til ákvörðunar samkvæmt 7. gr. reglna þessara.

Brot á þessum reglum varða viðurlögum samkvæmt grein 7.3. Um meðferð slíkra mála vísast til 7. greinar reglna þessara.

4.7 Um skil á verkefnum

Í námskeiði setur kennari reglur um skilafrest verkefna í upphafi annar og ber nemanda að skila verkefni áður en frestur er útrunninn. Skili nemandi verkefni eftir að skilafrestur er liðinn hefur kennari heimild til þess að lækka einkunn hans fyrir hvern dag sem dregst að skila verkefninu. Slík lækkun þarf að vera tilkynnt við upphaf námskeiðs.

Kennari skilar einkunnum verkefna og áfangaprófa og hvers konar öðru námsmati sem fram fer á kennslutímabili innan tíu virkra daga frá skiladegi/prófdegi. Telji kennari umfang verkefnis þess eðlis að yfirferð muni taka lengri tíma skal hann upplýsa nemendur um það á vef námskeiðsins svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en á skiladegi verkefnisins.

4.8 Um próftöku á tölvur

Nemanda sem þreytir próf á tölvu er aðeins heimilt að nota þann hugbúnað/forrit sem er tilgreindur af umsjónarmanni prófs/kennara. Nemanda er óheimilt með öllu að nota samskiptaforrit, samskiptatæki eða annan hugbúnað/forrit nema þann sem er tilgreindur meðan á próftöku stendur. Aðeins er leyfilegt að vista prófgögn á það svæði sem umsjónarmaður prófs tilgreinir.

Yfirgefi nemandi tölvu meðan á prófi stendur, t.d. vegna ferðar á salerni, ber honum að ganga þannig frá tölvu að prófúrlausn sé ekki sýnileg öðrum á skjánum.

Nemandi ber alfarið ábyrgð á að vista gögn reglulega og skila inn tímanlega við lok prófs. Noti nemandi eigin tölvu við úrlausn prófs áskilur umsjónarmaður prófs eða prófstjóri sér rétt til að skoða þau gögn og forrit/hugbúnað sem eru á tölvunni og eru notuð við úrlausn prófs. Einnig áskilur umsjónarmaður prófs sér rétt til að skoða annan hugbúnað á tölvunni og notkun hans. Nemendum, sem þreyta próf á tölvur, er hleypt inn í prófstofu 15 mínútum áður en próf hefst.

5. Endurtekin próf og áfrýjunarréttur nemanda

5.1 Sjúkrapróf og skil á vottorðum

Nemandi, sem ekki mætir til prófs vegna veikinda, skal tilkynna forföll til nemendabókhalds sama dag og próf fer fram. Læknisvottorð þarf að berast afgreiðslu skólans eigi síðar en þremur virkum dögum eftir að próf var haldið, annars telst nemandi hafa fyrirgert rétti sínum til próftöku (prófdagur telst ekki til þessara þriggja virku daga).

Vottorð þurfa að fela í sér staðfestingu læknis á því að nemandi hafi verið veikur sama dag og próf fór fram. Á vottorði skal enn fremur koma fram nafn námskeiðs og/eða prófs sem nemandi boðar forföll í. Sama gildir ef um veikindi barns nemanda er að ræða. Vottorð er einungis tekið gilt sé það afhent á afgreiðslutíma skrifstofu innan framangreinds frests. Vottorð sem ekki er rétt dagsett er ekki tekið gilt.

Forföll vegna heimaprófs þarf að tilkynna með tölvupósti á nemendabokhald@ru.is og til kennara áður en próf byrjar. Ekki er tekið við tilkynningu sem berst eftir að heimapróf hefur verið lagt fyrir.

Nemandi sem skilar vottorði vegna lokaprófs innan framangreinds frests er sjálfkrafa skráður í sjúkrapróf. Honum ber að tilkynna nemendabókhaldi áður en sjúkrapróf er haldið kjósi hann ekki að þreyta sjúkrapróf.

Kennari ber ábyrgð á útfærslu og framkvæmd áfangaprófa og verkefna. Upplýsingar um fyrirkomulag þeirra skulu liggja fyrir í upphafi námskeiðs, þ.á.m. hvort um sjúkra- og endurtektarpróf (-skil) verði að ræða og ef ekki, hvernig brugðist verði við veikindum í heildarnámsmati í námskeiði.

5.2 Sjúkra- og endurtektarpróf

Sjúkra- og endurtektarpróf eru að jafnaði haldin eftir lokapróf hverrar annar. Sjúkra- og endurtektarpróf kemur í stað lokaprófs en einkunnir fyrir verkefni, áfangapróf eða annað námsmat til lokaeinkunnar stendur óbreytt. Aðeins nemandi sem mætir í lokapróf eða tilkynnir veikindi og skilar vottorði (sbr. gr. 5.1) á rétt á sjúkra- eða endurtektarprófi. Nemandi, sem er veikur í aðalprófi og mætir í sjúkrapróf og nær ekki lágmarkseinkunn eða er veikur í báðum prófum, hefur ekki frekari próftökurétt. Nemandanum ber því að sitja námskeiðið aftur til þess að öðlast próftökurétt.

5.3 Próftökustaður

Nemandi sem á lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins getur sótt um hjá prófstjóra að þreyta sjúkra- og endurtektarpróf á ákveðnum prófstöðum á landsbyggðinni (Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri, Egilsstaðir, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjar). Þegar nemandi skráir sig í sjúkra- og endurtektarpróf þarf hann að senda beiðni um próftökustað á nemendabokhald@ru.is.

Próftaka á framangreindum stöðum er þó háð leyfi prófstjóra og kennara sem meta hvert tilfelli fyrir sig.

5.4 Prófsýning og kærur

Nemandi á rétt á að fá útskýringar kennara á mati prófúrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan fimm daga frá birtingu einkunnar. Kennari skal verða við beiðni nemanda áður en sjúkra- og endurtektarpróf eru haldin, eða innan sjö virkra daga, hvort sem á undan kemur (um prófsýningu í frumgreinadeild sjá grein 3.1).

Nemandi sem hefur ekki staðist lokapróf og unir ekki mati kennara á skriflegri prófúrlausn getur kært matið til prófstjóra. Það er háð því skilyrði að viðkomandi hafi skoðað úrlausn sína með kennara áður en kæra er send inn. Sama á við um áfangapróf og verkefni sem nemandi hefur ekki staðist þegar gerð er krafa um tiltekna einkunn til að standast námskeið. Skal kæran lögð fram skriflega innan þriggja virkra daga frá prófsýningu eða skilum á verkefni frá kennara þar sem við á.

5.5 Prófdómarar

Ef nemandi kærir mat á skriflegu prófi er prófdómari skipaður í samráði við forseta deildar. Skal prófdómari leggja sjálfstætt mat á úrlausn nemandans og samræmi í yfirferð og einkunnagjöf. Séu prófdómari og kennari ekki sammála um lokaeinkunn þá gildir einkunn prófdómara. Endurskoðuð einkunn skal liggja fyrir innan tveggja vikna frá því að kæra berst.

Í munnlegu lokaprófi skal prófdómari ávallt vera viðstaddur og ákveður kennari/kennarar og prófdómari lokaeinkunn sameiginlega og er niðurstaða ekki kæranleg. Í lokaritgerð þar sem prófdómari og leiðbeinandi gefa einkunn sameiginlega er niðurstaða ekki kæranleg.

5.6 Varðveisla prófúrlausna

Þegar kærufrestur nemenda er liðinn og allri yfirferð prófúrlausna lokið skulu þær afhentar prófstjóra til varðveislu. Prófúrlausnir skulu varðveittar í eitt ár.

5.7 Varðveisla lokaprófa

Skólinn varðveitir rafrænt afrit af öllum lokaprófum. Lokapróf skulu gerð aðgengileg nemendum í kennslukerfi skólans að loknum sjúkra- og endurtektarprófum hverrar annar. Þannig ber að setja lokapróf á vef námskeiðsins strax að loknu sjúkra- og endurtektarprófi. Skólinn áskilur sér rétt til að birta ekki krossapróf og sjúkra- og endurtektarpróf.

5.8 Leiðrétting einkunna

Kennslusvið getur, í samráði við kennara, leiðrétt bersýnilegar villur í útreikningi eða skráningu einkunna. Á það m.a. við þegar birt lokaeinkunn í námskeiði er ekki í samræmi við samanlagðar einkunnir allra þátta námsmats eða tekur ekki tillit til þess að nemandi þarf að fá lágmarkseinkunn í lokaprófi til þess að standast námskeið, sbr. grein 4.3.

6. Framkvæmd prófa

6.1 Prófstofur

Prófstofur eru að jafnaði opnaðar 10 mínútum áður en próf hefst. Mæti nemandi meira en einni klukkustund eftir að próf hefst fær hann ekki að þreyta prófið.

6.2 Persónuskilríki

Meðan próf stendur yfir skal nemandi hafa gild persónuskilríki aðgengileg fyrir prófgæslufólk. Nemandi getur misst próftökurétt ef hann sýnir ekki persónuskilríki.

6.3 Prófgæsla

Prófgæslufólk gefur merki um hvenær hefjast má handa við úrlausn og hvenær próftími er liðinn. Skulu þá allir nemendur í viðkomandi prófi skila úrlausnum sínum sem hafa ekki gert það þegar.

6.4 Leiðrétting á prófi

Ef koma þarf á framfæri leiðréttingu eða upplýsingum til nemenda í prófi er það gert með munnlegri tilkynningu frá kennara, með því að skrifa þær á töflu eða dreifa þeim á prenti til viðkomandi nemenda í samráði við prófstjóra.

6.5 Skil prófúrlausna

Ekki má skila prófúrlausn fyrr en ein klukkustund er liðin af próftíma. Að loknum próftíma ber öllum að skila úrlausn þegar í stað. Nemandi hefur þó tíma til að ganga frá prófúrlausn sinni og merkja hana eftir að próftíma lýkur, en ekki breyta eða bæta úrlausnina.

Verði nemandi uppvís að því að vinna að prófúrlausn eftir að próftíma lýkur skal prófgæslufólk stöðva háttsemina og gera prófstjóra viðvart sem tekur ákvörðun um frekari aðgerðir.

6.6 Skil gagna

Að loknu skriflegu prófi á nemandi að skila prófspurningum, úrlausnum og rissblöðum til prófgæslufólks.

6.7 Hjálpargögn

Nemanda er óheimilt að nota önnur hjálpargögn í prófi en tilgreind eru á forsíðu prófs. Er þar meðal annars átt við fartölvu, reiknivél og önnur tæki. Nemandi má ekki hafa yfirhöfn, tösku eða annan búnað sem ekki tilheyrir leyfilegum hjálpargögnum við prófborðið. Óheimilt er að valda truflun í prófstofu. Heimilt er að ganga úr skugga um að nemandi noti aðeins þau hjálpargögn á prófi sem tilgreind eru á forsíðu prófs.

6.8 Samskiptatæki

Varsla og notkun farsíma er bönnuð á meðan próf stendur yfir. Hafi nemandi farsíma meðferðis ber honum að slökkva á símanum, setja hann í tösku eða afhenda prófgæslufólki til varðveislu meðan próf stendur yfir. Öll samskipti eru óheimil á meðan á prófi stendur, þar með talin samskipti með búnaði sem kennari kann að hafa heimilað samkvæmt grein 6.7.

6.9 Óheiðarleiki við próftöku

Verði nemandi uppvís að því að hafa rangt við í prófi skal prófgæslufólk stöðva háttsemi og kalla til prófstjóra sem tekur ákvörðun um frekari viðbrögð. Prófstjóra er heimilt að vísa nemanda úr prófi. Máli viðkomandi nemanda er síðan vísað til forseta deildar samkvæmt 7. grein um málsmeðferð og kæruleiðir.

6.10 Prófhlé

Nemanda er óheimilt að fara frá prófborði áður en hann hefur lokið prófi nema til þess að fara á snyrtingu og þá aðeins undir eftirliti fylgdarmanns.

6.11 Merking prófúrlausna

Nemanda er skylt að skila úrlausnarblaði með annað hvort nafni sínu og kennitölu eða prófnúmeri.

6.12 Próflok

Nemandi, sem lýkur prófi áður en tilskildum próftíma lýkur, skal yfirgefa prófstofu og prófsvæði. Honum ber að gæta þess að trufla ekki þá sem enn eru í prófi.

6.13 Prófnúmer

Deild getur ákveðið í samráði við prófstjóra að nota prófnúmer.

6.14 Staðsetning prófa

Ef nemandi æskir þess við prófstjóra að þreyta próf annars staðar en í HR er prófstjóra heimilt, ef brýnar ástæður eru til, að heimila nemanda að taka prófið í annarri háskóla- eða menntastofnun, enda hafi verið samið fyrirfram við stofnunina um slíkt fyrirkomulag. Um sjúkra- og endurtektarpróf í slíkum tilvikum, sjá grein 5.3.

6.15 Sérúrræði

Nemanda, sem óskar sérúrræða í prófi, ber að skila umsókn til sérúrræðanefndar HR. Nefndina skipa forstöðumaður kennslusviðs, prófstjóri HR, fulltrúi akademískra deilda, trúnaðarlæknir HR, sérfræðingur í læsi og náms- og starfsráðgjafi sem situr í nefndinni sem fulltrúi nemandans sem sækir um sérúrræði. Nánari upplýsingar um sérúrræði í námi má finna á vef skólans.

7. Málsmeðferð og kæruleiðir

7.1 Almennt ákvæði

Við ákvarðanir sem varða réttindi og skyldur nemenda skal eftir því sem við á gæta meginreglna stjórnsýsluréttar og góðra stjórnsýsluhátta.

7.2 Kæruleiðir

Mat á prófúrlausn er kæranlegt til prófstjóra samkvæmt reglum 5. greinar.

Telji nemandi að aðrar ákvarðanir, sem snúa að kennslu eða prófum, brjóti gegn rétti hans getur hann innan 10 daga frá viðkomandi ákvörðun óskað skriflega og með rökstuddum hætti eftir endurskoðun þeirra. Uni nemandi ekki niðurstöðu endurskoðunar getur hann vísað málinu til forstöðumanns kennslusviðs sem tekur rökstudda afstöðu til málsins og vísar því í framhaldi til forseta viðkomandi deildar. Forseti deildar hefur endanlegt ákvörðunarvald í slíkum málum.

7.3 Viðurlög vegna brota á reglum

Forseti deildar eða forstöðumaður frumgreinadeildar tekur ákvörðun um viðurlög vegna brota á þessum almennu reglum um nám og námsmat. Brot geta varðað:

a)   Einkunn 0 fyrir námsþátt.

b)   Einkunn 0 fyrir námsþátt og áminning.

c)   Einkunn 0 fyrir námskeið og áminning.

d)   Tímabundin brottvísun úr skóla með möguleika á endurinnritun og áminning.

e)   Brottvísun úr skóla án möguleika á endurinnritun.

Aðalkennari eða umsjónarkennari námskeiðs getur tekið ákvörðun um viðurlög samkvæmt a-lið hér að ofan án samráðs við forseta deildar. Þetta á einungis við ef viðkomandi hlutapróf eða verkefni gildir 10% eða minna af heildarnámsmati námskeiðs. Beiti kennari þessu úrræði ber honum að upplýsa nemanda skriflega um að hann geti skotið málinu til deildarforseta eða forstöðumanns frumgreinadeildar.  

Nemandi sem gerst hefur brotlegur við þessar almennu reglur um nám og námsmat fyrirgerir að jafnaði rétti til valkvæðs starfsnáms, skiptináms sem og tækifæra til að koma fram fyrir hönd skólans.

Forseti deildar getur í undantekningartilvikum ákveðið að veita nemanda áminningu vegna brots á náms- og námsmatsreglum án annarra viðurlaga. Nemandi getur þó aðeins fengið slíka áminningu án annarra viðurlaga einu sinni á námsferlinum.

Endurtekið brot á þessum almennu reglum um nám og námsmat varðar ávallt þyngri viðurlögum en fyrsta brot. Endurtekið brot varðar almennt ekki vægari viðurlögum en brottvísun í eina önn ásamt áminningu eða brottvísun úr skóla. Við sérstakar aðstæður má ljúka máli sem er endurtekið brot með ákvörðun samkvæmt b lið hér að framan. Við ákvörðun á viðurlögum skal taka tillit til vægis verkefnis og alvarleika brots.

Komi upplýsingar fram um að nemandi hafi haft rangt við á prófi eða viðhaft óheiðarleg vinnubrögð í verkefnavinnu eftir að einkunn hefur verið gefin fyrir námsþátt, eða námskeiði/námi er lokið, er forseta deildar heimilt að ógilda einkunn fyrir námsþátt eða námskeið. Forseta deildar er jafnframt heimilt að beita öðrum viðurlögum eftir því sem við á. Sé um lokaverkefni eða lokaritgerð að ræða og nemandi hafi þegar útskrifast er forseta deildar heimilt að óska eftir því að rektor afturkalli prófgráðu.

7.4 Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema

Nemandi getur skotið máli sínu til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, skv. 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Áður en hægt er að skjóta máli til nefndarinnar verður endanleg niðurstaða viðkomandi háskóla að liggja fyrir, þ.e. að kæruleiðir innan skólans hafi verið tæmdar. Hlutverk nefndarinnar skv. reglum nr. 1152/2006 er að úrskurða í málum þar sem námsmenn í ríkisháskólum og öðrum háskólum telja brotið á rétti sínum um:

1.   framkvæmd prófa og námsmats, þ.m.t. fyrirlögn prófa, tilhögun einkunnagjafar, skipun prófdómara og birtingu einkunna,

2.   mat á námsframvindu, þ.m.t. rétt til endurtökuprófs,

3.   afgreiðslu umsókna um skólavist, þ.m.t. tilhögun mats á námi á milli skóla,

4.    brottvikningu nemanda úr skóla og beitingu annarra agaviðurlaga.

Nánari upplýsingar um áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema má finna á vef menntamálaráðuneytisins.


Var efnið hjálplegt? Nei