Reglur um verkefnavinnu

HR leggur mikla áherslu á vönduð akademísk vinnubrögð og heilindi í framkomu starfsmanna og nemenda. Mikilvægur þáttur í vönduðum akademískum vinnubrögðum er að höfundarréttur sé virtur og að allir nemendur leggi sitt af mörkum í hópstarfi.

Til að skýra betur væntingar HR á þessu sviði hefur skólinn sett eftirfarandi reglur um heilindi í verkefnavinnu:

a. Þitt hugverk

HR gerir þá kröfu til þín sem nemanda að öll verkefni sem þú skilar séu þitt eigið hugverk. Í því felst meðal annars að þú vinnur verkefnið sjálf(ur) frá grunni, án aðstoðar annarra, og tekur aldrei upp texta annarra eða vinnu annarra og setur fram sem þitt eigið verk. Ávallt skal geta heimilda og reglur um heimildanotkun gilda einnig um afritun eigin verka.

Hvert verkefni sem skilað er, skal vera einstakt. Öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan námskeiðs, milli námskeiða eða milli námsbrauta er óheimil, nema annað sé tekið fram.

Kennara er heimilt að gera undantekningu frá þeirri meginreglu að nemendur megi ekki vinna saman að verkefnum, og gerir hann þá skriflega grein fyrir því í verkefnislýsingu. Sama á við í hópverkefnum; verkefnið skal vera unnið af hópnum frá grunni, án aðstoðar annarra, og er allur hópurinn ábyrgur fyrir því að rétt vinnubrögð séu viðhöfð.

b. Þitt framlag

HR gerir þá kröfu til þín sem nemanda að þú leggir þig ávallt fram í hópstarfi og gætir þess að þitt framlag sé sambærilegt á við hina í hópnum. Kennari hefur heimild til að gefa einstaklingum í hópi mismunandi einkunn ef ljóst þykir að framlag þeirra hefur verið verulega ójafnt.

c. Einstaklings- og hópverkefni

Í einstaklingsverkefnum er gerð krafa um að hver nemandi vinni sjálfur og án aðstoðar alla þætti verkefnisins, en í hópverkefnum hefur hópurinn möguleika á að skipta með sér verkum, þó þannig að vinnuframlag einstakra hópmeðlima til verkefnisins sé sambærilegt. Allur hópurinn er þó eftir sem áður ábyrgur fyrir heildarverkinu.

Viðurlög við broti á ofangreindum reglum um verkefnavinnu geta verið 0 fyrir verkefnið, 0 í námskeiði, áminning og jafnvel brottrekstur úr skóla.

Sjá nánar siðareglur HR.

 


Var efnið hjálplegt? Nei