Reglur um námsframvindu í grunnnámi (BA/BS) og mat á fyrra námi

Framvinda 1. ár

Nemandi þarf að ljúka a.m.k. 42 ECTS áður en hann flyst á annað ár.

Framvinda 2. ár

Nemandi þarf að ljúka a.m.k. 90 ECTS áður en hann flyst á þriðja ár og hafa lokið öllum skyldunámskeiðum fyrsta árs.

Hámark námstíma

Hámarks námstími er tvö ár ofan á eðlilega framvindu í námi skv. skipulagi námsbrautar.

Námshlé

Námshlé er eingöngu veitt af sérstökum ástæðum s.s. vegna veikinda, barneigna eða slysa. Hámarkslengd er eitt ár á öllum námsbrautum.

Mat á fyrra námi

Nemandi skal sækja um mat á námi á þar tilgerðu eyðublaði og senda inn staðfestingu á fyrra námi. Námsráð deildar sér um að meta nám nemanda í samráði við kennara deildar. Einungis eru metin námskeið á háskólastigi.

Fyrra nám sem nemandi hefur lokið meira en 9 árum áður en hann er innritaður í nám í HR er ekki metið til eininga.

Í þeim námskeiðum sem metin eru skal einkunn vera 6,0 eða hærri nema ef um er að ræða mat á einingum úr loknum gráðum frá HR, þá skal miðað við lágmarkseinkunnina 5,0.

Nemandi skal verja að lágmarki 50% námstíma við HR.

Við mat á fyrra námi sem ekki er hluti af lokinni námsgráðu gildir að heimilt er að meta fyrra nám á móti allt að 50% náms í HR ef um er að ræða samfellt nám sem telst sambærilegt að mati námsráðs deildar. Ef hins vegar nám var ekki samfellt má aðeins meta allt að 45 ECTS en allt að 60 ECTS ef um er að ræða aukagrein.

Við mat á námskeiðum úr lokinni námsgráðu gildir að nemandi skal ljúka að lágmarki 90 ECTS í nýrri gráðu við HR. Heimilt er þó að meta allt að 120 ECTS úr loknum gráðum frá HR, t.d. þegar um er að ræða skilgreindar aðal- og aukagreinar, auk þess sem þá er aðeins gerð krafa um 5,0 í lágmarkseinkunn. Krefjist nýja gráðan lokaverkefnis eða lokaritgerðar, skal nemandi skila nýju lokaverkefni eða ritgerð.

Undanþágur

Nemandi getur sótt um undanþágu þegar það á við til námsráðs/námsmatsnefndar deildar.

Samþykkt í framkvæmdastjórn HR 9. apríl 2015Var efnið hjálplegt? Nei