• Ásrún Matthíasdóttir

Ásrún Matthíasdóttir - lektor við íþróttafræðideild

Hvað ertu að rannsaka núna?

Sem dæmi um rannsóknir dagsins í dag þá er ég að skoða kynbundna líðan og námsgengi nemenda í tækninámi, þar sem markmiðið er að kanna hvort tengsl séu á milli þess hvernig nemendum í tækninámi líður, náms og starfsumhverfis sem þeir lifa í og námsgengis. Einnig er ég að skoða tækifæri og hindranir í háskólanámi á Íslandi með hliðsjón af uppruna og kyni. Í breyttu, fjölþjóðlegu samfélagi þurfum við að beina sjónum að nemendum af erlendum uppruna, og skoða t.d. hvað hvetur og hamlar þeim í námi og hvort um kynjamun er að ræða í þeim efnum.

Af hverju er mikilvægt að rannsaka þetta efni?

Menntun er mikilvægur hluti af þátttöku í samfélaginu og til að þroska hæfileika einstaklinga. Hún hefur áhrif á lífsgæði því hún eykur möguleika til fjölbreyttra starfa að námi loknu og getur stuðlað að bættri líðan. Aukin tækninotkun hefur skapað nýja og spennandi möguleika í menntun sem áhugavert er að skoða.

Hvað finnst þér skemmtilegt við að stunda rannsóknir í menntunarfræðum?

Rannsóknir gera heiminn skemmtilegri, þær eru viðbót við hugmyndir okkar og hressa uppá hugsun okkar. Þær geta jafnvel lífgað upp á mannlífið og mjakað okkur áfram á þroskabrautinni. Áhersla mín hefur verið á rannsóknir tengdar námi og kennslu og ég hef haft sérstakan áhuga á nýjungum í kennsluháttum, svo sem fjarnámi, dreifnámi og vendinámi og hef þar lagt áherslu á viðhorf nemenda og kennara, sem og gæði náms. Einnig hef ég áhuga á velferð og líðan nemenda með kynjamun í huga og að breyta staðalímyndum finnst mér áhugavert verkefni.