• Marcel Kyas

Marcel Kyas - lektor við tölvunarfræðideild

Hvað ertu að rannsaka núna?

Ég rannsaka snjallumhverfi og snjallvæðingu (Internet of Things) og þá helst út frá öryggi og hvernig hægt er að staðsetja sig og rata innan bygginga.

Af hverju er mikilvægt að rannsaka þetta?

Híbýli okkar verða sífellt meira tengd. Til dæmis eru ljósaperurnar sem eru notaðar hérna í háskólabyggingunni tengdar þráðlausu neti. Einnig má nefna vörur eins og Hue ljósin frá Philips og Traadfri frá Ikea sem er hægt að stjórna með appi. Við notum búnað eins og Alexu frá Amazon, sem er nokkurs konar stafræn heimilishjálp, til að stjórna þeim. Þessi tækni getur hjálpað okkur í daglegu lífi, til dæmis getur snjallumhverfi aðstoðað sjónskerta einstaklinga við að rata í ókunnu umhverfi. Einnig er hægt að nota þessa tækni á sjúkrahúsum við að fylgjast með hverju einasta tæki og hvaða lyfjaskammta það gefur.

Þessi tækni er þó líka hættuleg. Samsung hefur ráðlagt fólki að eiga ekki í trúnaðarsamtölum fyrir framan sumar tegundar snjallsjónvarpa frá fyrirtækinu og Alexa getur tekið upp og geymt allar samræður sem eiga sér stað nálægt tækinu. Það er hægt að eiga við þessi kerfi og þannig koma af stað flogaköstum hjá viðkvæmum eða skemma flutningskerfi rafmagns. 

Í dag heldur tölvunarfræði heiminum uppi. Internetið er afrakstur rannsókna í tölvunarfræði og þessi tækni er orðin mikilvægur innviður víða um heim. Hugbúnaður stýrir næstum öllum aðgerðum í nútíma þjóðfélagi, allt frá ísskápum og brauðristum til bifreiða og flugvéla sem ekki væri hægt að fljúga án tölvukerfa. Flestar uppfinningar síðari ára eru hugmyndir tölvunarfræðinga, eins og t.d. Facebook, Google og Amazon. Á sama tíma verðum við að skilja, vara við og koma í veg fyrir hætturnar sem upplýsingatækni og tölvunarfræði geta orsakað. Villur í hugbúnaði hafa ógnað lífi fólks (bilun í NEST-kerfinu sem lokaði fyrir ofna), tekið fyrirtæki í gíslingu (WannaCry) og valdið milljarðatapi (Ariane 501, hrun langlínukerfis AT&T).

Hvað finnst þér skemmtilegt við að stunda rannsóknir í tölvunarfræði?

Mér finnst ánægjulegt að hvert einasta framlag í rannsóknum eins og þeim sem ég stunda gerir tæknina aðeins öruggari fyrir notendur og hjálpar til við að setja fólkið við stjórnvölinn í þessari tæknivæddu framtíð okkar.