• Rannveig Sigurvinsdóttir

Rannveig S. Sigurvinsdóttir - lektor við sálfræðideild

Hvað ertu að rannsaka núna?

„Rannsóknir mínar fjalla um áhrif áfalla á heilsu og líðan. Þessa dagana er ég meðal annars að vinna að verkefni með Bryndísi Björk Ásgeirsdóttur sem var styrkt af Rannís í janúar 2018. Í því munum við meta áföll og áfallastreituröskun (e. post-traumatic stress disorder), en meðal annars könnum við sérstaklega hvaða áhrif það hefur á líðan fólks að segja frá kynferðisofbeldi. Erlendar rannsóknir sýna að viðbrögð annarra geta haft mikil áhrif á líðan þolenda, til dæmis á þunglyndi og áfallastreitu. Rannsóknin okkar verður sú fyrsta sem skoðar þetta efni á Íslandi og ein af þeim fyrstu í heiminum sem skoðar sálfræðileg áhrif þess að segja frá reynslu af ofbeldi á netinu.“

Af hverju er mikilvægt að rannsaka þetta?

„Áföll hafa gríðarleg áhrif á heilsu og líðan en þau geta einnig verið rótin að ýmsum öðrum vandamálum. Nýlegar hreyfingar, eins og #metoo- byltingin, hafa sýnt að ofbeldi er mun algengara en fólk gerir sér grein fyrir og kemur okkur öllum við. Það er mikilvægt að geta brugðist rétt við frásögnum þolenda ofbeldis og stutt þá, því viðbrögð annarra geta bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á líðan þeirra.“

Hvað finnst þér skemmtilegt við að stunda rannsóknir í sálfræði?

„Sálfræði er mjög skemmtilegt og fjölbreytt fag og því í því geta flestir fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég mæli með sálfræði fyrir alla sem hafa áhuga á hegðun og líðan. Mér finnst mjög gott að vinna í HR, því ég vinn með frábæru fólki og við góðar aðstæður.“