• Karl Ægir Karlsson

Karl Ægir Karlsson - prófessor við verkfræðideild

Hvað ertu að rannsaka núna?

„Síðustu ár hef ég unnið að því að búa til líkön af miðtaugakerfis-sjúkdómum í sebrafiskum (Danio rerio) sem síðan eru nýttir í skipulegri leit að nýjum lyfjum við sjúkdómum. Fyrsta skrefið felst oft í því að herma í fiskum eftir stökkbreytingu sem tengist sjúkdómi í manni, þar næst að finna einhvern atferlismælikvarða sem með áreiðanlegum og fljótlegum hætti greinir á milli erfðabreyttra fiska og villigerðar og því næst að staðfesta að erfðabreytingin hafi raunverulega áhrif á þau ferli sem orsaka sjúkdóminn og atferlismælikvarðinn sé tengdur sama ferli. Ef allt þetta tekst, má nýta fiskinn til lyfjaleitar.“

Af hverju er mikilvægt að rannsaka þetta efni?

„Samfara auknum kostnaði við lyfjaþróun hefur nýjum lyfjum á markaði fækkað. Þessu má snúa við með hraðari og ódýrari mælingum. Með því að nota fiska í tilraunir (í stað til dæmis nagdýra) má lækka kostnaðinn og stytta tímann stórkostlega. Meðaltími sem líður frá því að einhver sameind fer í fyrstu prófanir og þar til hún kemur á markað er um 12 ár og meðalkostnaður um 1,2 milljarður dala. Stór hluti af þessum kostnaði er vegna lyfjaskimana og tilraunadýra. Þessum hluta kostnaðarins getum við náð niður. Reyndar svo mikið að möguleiki verður að skima mun fleiri lyf. Þannig að ef allt fer á besta veg koma fleiri og ódýrari lyf á markað.“

Hvað finnst þér skemmtilegt við að stunda þínar rannsóknir ?

„Það er ekkert eins skemmtilegt eins og að vera alltaf með áskoranir – þurfa að hugsa – og geta svo endrum og eins séð eitthvað nýtt, lýst einhverju eða skilið eitthvað sem engin hefur skilið áður. Eins og kennarinn minn, prófessorinn Blumberg sagði: „Science, the best game in town“.“