Að hefja nám

Velkomin í HR!

Háskólinn í Reykjavík leggur áherslu á að taka vel á móti nemendum sem hefja nám við skólann. Hér fyrir neðan eru tekin saman nokkur mikilvæg atriði fyrir nýnema. Ítarlegri upplýsingar eru að finna í nýnemahandbók HR.

Nemendur HR sýna nýnemum húsið

Helstu dagsetningar

Nýnemadagur

Nýnemadagur er haldinn í ágúst á hverju ári. Þá mæta nýir nemendur til að fræðast um nám í HR, fá leiðsögn um húsið, hitta formenn nemendafélaga o.fl. Það er mjög mikilvægt að nýnemar komi á nýnemadag til að vera undirbúnir þegar kennsla hefst. Nýnemadagur er hugsaður fyrir þá sem eru að hefja grunnnám, en að sjálfsögðu eru meistaranemar velkomnir að mæta líka. Nýnemadagur Háskólagrunns HR er jafnframt haldinn árlega en hann getur borið upp á annan dag en hinn almenna nýnemadag.

Nýnemadagur verður næst haldinn þann 14. ágúst 2018. Nýnemadagur Háskólagrunns HR verður haldinn 10. ágúst.

Hvenær byrjar skólinn?

Fyrsti kennsludagur haustannar er 15. ágúst. Nám í Háskólagrunni HR hefst fyrr.

Skóladagatal

Allar helstu dagsetningar skólaársins eru að finna í almanaki HR.

Fyrsta önnin

Kennslukerfið Canvas

Kennslukerfi HR er einfalt í notkun. Til að komast inn í kerfið er nóg að fara inn á vefslóðina canvas.ru.is og slá þar inn  notendanafn og lykilorð. Nemendur fá sent notendanafn og lykilorð með tölvupósti áður en kennsla hefst.

Námskeið og stundatöflur verða aðgengilegar föstudaginn 11. ágúst.

Canvas kennslukerfið færir upplifun af námi og kennslu inn í heim nútímasamskipta enda byggir það á því samskiptaumhverfi sem nemendur þekkja vel úr daglegu lífi. Hægt er að ná í Canvas-app fyrir alla snjallsíma með Android og Apple stýrikerfum. Nemendur eru hvattir til að sækja sér Canvas-appið, það getur gert lífið skemmtilegra!

Hér að neðan má finna krækjur í leiðbeiningarmyndbönd fyrir notkun kerfisins:

Námskeið

Nýnemar í grunnnámi eru skráðir sjálfkrafa í námskeið fyrstu önnina. Nemar þurfa þó strax á annarri önn að sjá um skráningu sjálfir. Þetta á einnig við um nemendur í frumgreinanámi. 

Nýnemar í meistaranámi eru að öllu jöfnu skráðir sjálfkrafa í námskeið á fyrstu önn, þó er góð regla að athuga sína skráningu hjá viðkomandi deild. 

Upplýsingar um skráningu og úrsögn úr námskeiðum, skráningu í endurtektar- og sjúkrapróf, flutning milli brauta og fleiri mikilvæg atriði eru í almennum náms- og námsmatsreglum.

Í kennsluskrá eru upplýsingar um öll námskeið.

Stundatöflur

Stundatöflur deilda er að finna á deildasíðum undir Um HR:

Hvert leita ég ef ég þarf þjónustu og upplýsingar? 

Náms- og starfsráðgjafar sinna ráðgjöf um námstækni, stuðning í náminu, upplýsingar um nám í HR, áhugasvið og persónuleg mál. Náms- og starfsráðgjafar eru við hliðina á móttökunni í Sólinni á 1. hæð. Opnir viðtalstímar eru í boði alla daga nema föstudaga kl. 13:30 – 15:30 og það þarf ekki að bóka tíma. 

Deildarskrifstofur annast ráðgjöf er varðar skipulag námsins, námsframvindu og val eða mat á námi innan viðkomandi deildar.

Kennslusvið/nemendabókhald tekur á móti skráningu og/eða úrsögn úr námskeiðum. 

Starfsfólk móttökunnar á 1. hæð er ávallt reiðubúið að aðstoða nemendur.

Skólagjöld og staðfestingargjald

Staðfestingargjald

Til að staðfesta skráningu í nám verður að greiða staðfestingargjald. Við greiðslu staðfestingargjalds er litið svo á að nemandi hyggist hefja nám í HR í haust. Staðfestingargjaldið dregst svo frá upphæð skólagjalda. Greiðsluseðill fyrir staðfestingargjald kemur inn á heimabankann og þá er jafnframt send tilkynning í tölvupósti.

Skólagjöld

Skólagjöld eru innheimt með greiðsluseðli sem fer inn á heimabankann og tilkynning um að greiðsluseðillinn sé kominn inn á heimabanka er send í tölvupósti. Ef ekkert tölvupóstfang er skráð hjá nemanda þá berst greiðsluseðill á pappírsformi í pósti á skráð heimilisfang viðkomandi. Nánari upplýsingar um upphæðir og reglur skólagjalda.

Námslán

Fullt nám við HR er í langflestum tilvikum lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hafið samband við LÍN til að fá nánari upplýsingar.

Nýnemastyrkir

HR veitir þeim nemendum nýnemastyrk sem ná afburðaárangri í framhaldsskóla. Styrkurinn nemur skólagjöldum á fyrstu önn námsins.

Húsnæði

Byggingafélag námsmanna (BN) annast útleigu herbergja og íbúða til námsmanna. BN rekur um 500 íbúðir víða í Reykjavík og Hafnarfirði. Nánari upplýsingar um íbúðirnar, leiguverð, úthlutunarreglur o.fl. er á vefsvæði BN.

Lífið í HR

Í HR er öflugt félagslíf og það er auðvelt að kynnast öðrum nemendum. Stúdentafélagið (SFHR) er hagsmunafélag stúdenta við HR. Allir nemendur eru meðlimir í SFHR og eru félagsgjöld engin.

Lesa meira um félagslífið í HR

HR á samfélagsmiðlum