Framtíð smásölu: hvaða lærdóm má draga af fyrirtækjunum Amazon og Google?

The Future of Retailing: Learning from Amazon and Google

Námskeiðslýsing

Á námskeiðinu verður bæði hugað að notkun nýjustu tækni og aðferðafræði í smásölu í dag og í nánustu framtíð. Námskeiðið kemur undir lok námsins og er ætlað að fræða nemendur og vekja þá til umhugsunar um þær breytingar sem eru að eiga sér stað í hefðbundinni smásölu. Hér verður því hugað að framtíðinni og hvernig stafræn markaðssetning nær út fyrir tölvur og síma. Þetta er ögrandi námskeið sem dýpkar skilning á nútíma markaðssetningu hvort sem að nemendur vinna í smásölu eða ekki. Nokkur áhersla er lögð á gögn, greiningar og framsetningu gagna á námskeiðinu.

Á námskeiðinu verður fjallað bæði um smásölu á netinu og í verslununum sjálfum. Hugað verður að skynsamlegri samþættingu, marg-miðla kauphegðun (hvernig neytendur hoppa á milli mismunandi miðla í kauphegðunarferlinum), umbreytingarhlutföllum (conversion rate), nýjustu mælingum á neytendahegðun, tilraunum og þeim tækifærum sem gefast í markaðssamskiptum.

Tekin verða ótal dæmi af fyrirtækjum sem eru að ná framúrskarandi árangri með því að þekkja neytendur sína betur en samkeppnin með notkun neytendakerfa og af þeim sem eru farin að sinna neytendum betur með stafrænum skjáum og öðrum miðlum inni í verslunum. Geta smásalar þekkt neytendur betur en þeir þekkja sig sjálfir?

Að námskeiðinu loknu er stefnt að því að nemendur:

  • Hafi öðlast skilning á því hvernig stafræn markaðssetning fer fram í hefðbundinni smásölu og hvernig verslun er að breytast

  • Geti metið tækifæri og ógnanir þeirra breytinga sem eru að gerast í nútíma markaðssetningu á gagnrýnan hátt

  • Hafi skilning á mikilvægi og jafnframt þeim áskorunum sem tengjast samþættum mælingum á marg-miðla kauphegðun með notkun vefgreininga, neytendakerfa verslana og annarra gagna.

Þetta námskeið er hluti af námslínunni Stafræn markaðssetning og viðskipti á netinu.

Skipulag

Tími: Kennsla fer fram föstudaginn 1. mars frá kl: 09:00 - 17:00

Lengd: Samtals 8. klst

Staðsetning: Opni háskólinn í HR, Menntavegi 1, 101 Reykjavík, Mars-álma, 2. hæð.

Vinsamlegast athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um að lágmarksþátttaka náist á námskeiðið.

Leiðbeinandi

Valdimar Sigurðsson

Dr. Valdimar Sigurðsson

Prófessor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík

Valdimar er með BSc í sálfræði, MSc í viðskiptafræði og með PhD í markaðsfræði með áherslu á neytendahegðun. Valdimar lauk doktorsprófi sínu við Cardiff University undir leiðsögn prófessors Gordon Foxall og leiðir nú fagsvið markaðsfræða innan viðskiptadeildar HR. Hann hefur birt fjölda greina og bókakafla, unnið til rannsóknarstyrkja og situr í ritstjórn ameríska sálfræðiritsins The Psychological Record. Valdimar hefur unnið með fjölmörgum fyrirtækjum í markaðsmálum bæði á Íslandi sem og erlendis.

Verð

Verð: 61.000 kr.

Innifalið í verði eru námskeiðsgögn og léttar veitingar

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika. 

Hafðu samband

Ásdís Erla Jónsdóttir

Ásdís Erla Jónsdóttir

Verkefnastjóri


Skráning