APME verkefnastjórnun

Applied Project Management Expert

Námskeiðslýsing

APME verkefnastjórnun er nám samhliða vinnu, kennt í fjarnámi. Námið er unnið í samstarfi við tækni- og verkfræðideild og veitir ígildi 24 ECTS eininga í grunnnámi.

Maður situr á skrifborði með krosslagða handleggi„Í náminu hef ég lært góðar aðferðir við að skipuleggja og halda utan um verkefni. Þekkingin úr náminu hefur líka nýst mér þegar ég þarf að taka erfiðar ákvarðanir sem gerir mér auðveldara að leysa úr margs konar vandamálum sem upp geta komið.“

Óttar Kristinn Bjarnason, sérfræðingur á skipulags- og þróunarsviði hjá ISS

Um námið

Nemendur læra að útbúa heildstæða verkefnisáætlun og framkvæma árangursmælingar. Farið verður meðal annars yfir gerð verkáætlana og kostnaðarútreikninga í forritinu MS Project. Farið verður í greiningu framleiðsluferla og uppbyggingu stefnumiðaðra gæðakerfa ásamt því sem nemendur læra tölfræði, notkun og greiningu líkana og aðferðir til að taka ákvarðanir þegar óvissa ríkir um niðurstöður.

Við lok námsbrautar fá nemendur afhent prófskírteini og staðfestingu á námsárangri. Nemendur þurfa að hafa lokið öllum námskeiðum með lágmarkseinkunn.

IPMA vottun

Í lok náms þreyta nemendur próf sem veitir þeim alþjóðlega IPMA vottun samkvæmt stigi D sem er staðfesting á þekkingu á sviði aðferðafræði verkefnastjórnunar.

Vinnuframlag

Á bakvið hvert námskeið liggja u.þ.b. 120-180 klukkustundir í vinnuframlagi. Við mat á vinnuframlagi er áætluð tímasókn í staðarlotum, undirbúningur fyrir heimavinnu, hlustun á hljóðglærur, próftaka, prófundirbúningur og verkefnavinna. 

Lokað fyrir umsóknir kennsluárið 2018-2019

Skipulag

Fjarnám og staðarlotur

Kennsla fer fram í fjarnámi, en staðarlotur verða haldnar í Reykjavík að jafnaði tvisvar sinnum fyrir hvert námskeið. Hljóðfyrirlestrar eru settir inn á sameiginlegt vefsvæði nemenda á þriðjudögum og fimmtudögum.

Kennsla hefst í september 2018 og lýkur með alþjóðlegu IPMA vottunarprófi í maí 2019. Námið samanstendur af fimm námskeiðum. Kennt er í sex vikna lotum þar sem hverju námskeiði lýkur með prófi eða verkefni. 

Námslotur: 


Kennsluáætlun:

Inntökuskilyrði:

Stúdentspróf, sambærileg menntun og haldbær reynsla af vinnumarkaði. Þeir sem hafa lokið háskólaprófi njóta forgangs í námið. Lágmarksaldur nemenda eru 25 ár.

Eftirfarandi gögn þurfa að fylgja með umsókn:

  • Staðfest afrit prófskírteina verða að fylgja umsókn svo að hún sé tekin gild.
  • Meðmælabréf (kostur en ekki skylda).
  • Á rafrænu umsóknareyðublaði þarf jafnframt að tilgreina hvers vegna umsækjandi óskar eftir inngöngu.

Fylgigögnum umsókna er hægt að skila rafrænt með umsókn eða beint til verkefnastjóra námsins.

Leiðbeinendur

Eðvarð Möller

Eðvald Möller

Aðjúnkt við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Eðvald er með PhD gráðu í verkfræði frá Imperial College London, með
MSc-gráðu í iðnaðar- og rekstarverkfræði frá KTH Royal Institute of Technology, Svíþjóð og MBA gráðu með áherslu á stjórnun, rekstur og fjármál fyrirtækja frá Management School of Edinburgh. Sérsvið hans eru á sviði aðgerðarannsókna, rekstrar- og vörustjórnunar, tölfræði, líkana- og áætlanagerða, arðsemismats og verkefnastjórnunar. Ásamt því að stunda fræðilegar rannsóknir hefur Eðvald unnið sem ráðgjafi með íslenskum og erlendum fyrirtækjum og komið að verkefnum á sviði verkefnastjórnunar, vörustjórnunar, áætlunargerðar og hönnun rekstrar- og bestunarlíkana fyrir fyrirtæki og stofnanir. Eðvald hefur skrifað nokkrar bækur eins og Handbók viðskiptamannsins og Verkefnastjórnun.
Hlynur Stefánsson

Hlynur Stefánsson

Lektor í rekstrarverkfræði við tækni og verkfræðideild

Hlynur er með MSc-gráðu í verkfræði frá Technical University of Denmark og PhD gráðu í verkfræði frá Imperial College London. Sérsvið hans eru ákvarðanatökuaðferðir og hagnýting aðgerðarannsókna og reiknilíkana við greiningu og úrlausn flókinna verkefna. Ásamt því að stunda fræðilegar rannsóknir hefur Hlynur unnið náið með íslenskum og erlendum fyrirtækjum og komið að verkefnum á sviði vörustjórnunar, áætlunargerðar, áhættustýringar, orkumála, samgangna, iðnaðar og sjálfbærni.  

Sigurður Ragnarsson

Sigurður Ragnarsson

MBA og nemi í PhD í leiðtogafræðum, stundakennari við viðskiptadeild HR,

lektor og forseti viðskiptafræðideildar Háskólans á Bifröst.

Hann kennir m.a. forystufræði og samningatækni. Hann hefur víðtæka stjórnunarreynslu og þ.á.m. reynslu af eigin fyrirtækjarekstri. Sigurður gaf út bókina Forysta og samskipti - Leiðtogafræði í lok árs 2011.
Páll Jensson

Páll Jensson

Prófessor í rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík og sviðsstjóri á fjármála- og rekstrarverkfræðisviði.

Páll er með M.Sc. í Iðnaðarverkfræði frá Danmarks Tekniske Höjskole 1972 og PhD gráðu í aðgerðarannsóknum frá sama skóla 1975. Sérsvið hans er reiknilíkanagerð m.a. á sviði áætlanagerðar, rekstrarstjórnunar, arðsemimats, spálíkana, tölfræði, bestunar og hermunar. Páll hefur um langt árabil kennt endurmenntunarnámskeið m.a. á sviði áætlanagerðar, rekstrarstjórnunar, arðsemimats og gerð viðskiptaáætlana.

Verð

Verð: 560.000 kr.

Innifalið í verði eru námskeiðsgögn frá leiðbeinendum (hljóðglærur og annað efni), léttur hádegisverður í staðarlotum og alþjóðlegt vottunarpróf á vegum IPMA (International Project management association). Bækur sem stuðst við í náminu eru ekki innifaldar í verði námsins.

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika.

Hafðu samband

Ingibjörg Sandholt

Ingibjörg Sandholt

Verkefnastjóri