Innsæi stjórnandans

Námskeiðslýsing

Í þeirri óvissu og hraða sem einkennir samtímann hefur mikilvægi ígrundaðs innsæis sjaldan verið meira. Stjórnendur þekkja það vel að taka ákvörðun út frá innsæi og reynslu. Við notum innsæið meira en við gerum okkur almennt grein fyrir, en hversu vel vitum við hvernig það raunverulega virkar? Og hvernig getum við virkjað það ennþá betur?

Námskeiðið er fyrir stjórnendur sem vilja þekkja betur innsæið og beita því á skilvirkari hátt í lífi og starfi.  Fjallað verður um breytingar sem eru að eiga sér stað í heiminum og lögð sérstök áhersla á mikilvægi skapandi og gagnrýninnar hugsunar í bland við rökhugsun og eflingu innsæis með það að markmiði að efla „innri áttavita“ þátttakenda.

Áhersla verður á hagnýta nálgun í bland við innblástur til að frjóvga hugann.

Í lok námskeiðsins er stefnt að því að þátttakendur:

  • Þekki betur innsæið og geti beitt því skilvirkar í lífi og starfi.
  • Viti hvernig rökhugsun og innsæi vinna best saman.
  • Þekki helstu tæki og tól til að efla innsæi, skapandi og gagnrýna hugsun hjá sjálfum sér og öðrum.
  • Hafi betri innsýn inn í þær breytingar sem felast í Fjórðu iðnbyltingunni og hvers vegna innsæi er sérstaklega mikilvægt á okkar tímum.

  

,,Við notum innsæið miklu meira en við almennt gerum okkur grein fyrir.”

Daniel Kahneman, Nóbelsverðlaunhafi í hagfræði.

 

,,Þegar við blöndum saman innsæi og rökhugsun náum við að virkja heilbúið hvað best.”

Intuition Is The Highest Form Of Intelligence, Forbes.

Skipulag

Tími: Kennsla fer fram miðvikudaginn 11. apríl frá kl. 13:00 - 17:00.   

Lengd: 1x4 klst.

Staðsetning: Opni háskólinn í HR, Menntavegi 1, 101 Reykjavík, Mars-álma, 2. hæð.  

Vinsamlegast athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um að lágmarksþátttaka náist á námskeiðið.

Leiðbeinandi

Myndaniðurstaða fyrir hrund gunnsteinsdóttir

Hrund Gunnsteinsdóttir

Hrund Gunnsteinsdóttir er þróunarfræðingur, frumkvöðull og ráðgjafi. Hún er stjórnarformaður Tækniþróunarsjóðs. Hrund er handritshöfundur og einn af tveimur leikstjórum heimildarmyndarinnar InnSæi – the Sea within (2016), sem kannar hulinn heim innsæis og skapandi hugsunar í síbreytilegum heimi og er nú sýnd víða um heim. 

Hrund er í hópi sérfræðinga Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) á sviði nýsköpunar, lista og menningar og framtíð menntunar og hæfni á vinnumarkaði. Hún hefur starfað sem verkefnastjóri, ráðgjafi og opinber starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í málefnum sem snúa að kynjajafnrétti, efnahagslegri þróun og friðaruppbyggingu eftir stríð.

Eftir bankahrunið hannaði Hrund og stýrði Prisma-diplómanáminu, í samvinnu við Listaháskólann, Háskólann á Bifröst og ReykjavíkurAkademíuna. Prisma var þverfaglegt háskólanám, byggt á gagnrýninni og skapandi hugsun og viðurkennt af Norðurlandaráði fyrir að bregðast við breyttum þörfum vinnumarkaðarins. Hún hefur einnig starfað á sviði lista sem ljóðskáld, leikritahöfundur og leikstjóri stuttmynda. 

Hrund situr í Fagráði félags kvenna í sjávarútvegi og hefur einnig setið í stjórnum á sviði lista, mannréttinda og menntunar. Hrund sat í sérfræðingahópi á Norðurlöndunum sem fjallar um frumkvöðlastarf og fullorðinsfræðslu. Hún var valin Young Global Leader af World Economic Forum árið 2011 sem viðurkenning fyrir störf sín og var Yale Greenberg World Fellow árið 2016. 

Hrund er með BA gráðu frá HÍ, MSc frá London School of Economics, Diploma í leiðtoga-og stjórnendanámi frá Harvard háskóla, og sat leiðtoganámskeið um áskoranir 21. aldarinnar í Oxford Said Business School og Yale háskóla. 


Verð

Verð: 45.000 kr.

Innifalið í verði eru námskeiðsgögn og létt kaffihressing.

Opni háskólinn hvetur umsækjendur til þess að kynna sér greiðsluskilmála Opna háskólans áður en sótt er um í námið. Sjá greiðsluskilmála.

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika. 

Hafðu samband

Sandra-Kr.-Olafsdottir---RU

Sandra Kr. Ólafsdóttir

Verkefnastjóri