Stjórnendur í iðnaði

í samstarfi við Samtök iðnaðarins (SI)

Námskeiðslýsing

Um námið

Opni háskólinn í HR býður upp á nýja námslínu í samstarfi við Samtök iðnaðarins sem er ætluð stjórnendum sem starfa í iðnaði. Áherslan verður á hagnýta þekkingu og að gefa nemendum tækifæri til að efla færni sína í starfi. Kennt verður með raunhæfum verkefnum til að tengja námið vinnuumhverfi og verkefnum þátttakenda.

 • Forysta og stjórnun
 • Rekstur og fjármál
 • Verkefnastjórnun
 • Samningatækni
 • Straumlínustjórnun

Námslínan samanstendur af fimm grunnefnisþáttum:  

Innifalið í námskeiðinu er eitt af eftirfarandi námskeiðum sem þátttakendur geta valið um:

 • Framleiðslu- og gæðastýring
 • Design Thinking – stefnumótun með aðferðarfræði hönnunar
 • Þjónustustjórnun

Námslínan hefst í september og lýkur í byrjun desember. Kennsla fer fram milli kl. 9.00-17.00

Skipulag

Tími: Kennsla fer fram frá kl. 09.00 - 17.00. Hefst fimmtudaginn 28. september 2017.

Lengd: 48 klst.

Staður: Opni háskólinn í HR, Menntavegi 1, 101 Reykjavík. 2. hæð í Mars-álmu.

Sjá nánari upplýsingar um kennsluáætlun

Vinsamlegast athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um að lágmarksþátttaka náist.

Nánari upplýsingar um hvern efnisþátt hér:

Forysta og stjórnun í iðnaði

Forysta er ekki sjálfgefinn hluti af starfsheiti eða formlegri stöðu. Forysta er meðvitað val um að vinna með fólki þannig að það upplifi eigin styrkleika og hafi kjarkinn og þrautseigjuna til að þjóna markmiðum heildarinnar. 

Á námskeiðinu verður fjallað um lykilatriði árangursríkrar forystu.  Meðal viðfangsefna verða mikilvægi verkefna- og valddreifingar, góðrar samvinnu, virkrar hlustunar, góðs liðsanda og starfsánægju og hvernig leiðtoginn fær starfsfólk með sér í lið.

Ávinningur 

 • Efling leiðtogahæfileika
 • Betri þekking á styrkleikum og tækifærum til umbóta
 • Verkefna- og valddreifing
 • Uppbygging trausts og starfsánægju

Námskeiðið mun m.a. byggja á efni metsölubókarinnar 7 venjur til árangurs og innifelur persónulegt stjórnendamat, snjallforrit (APP) og vandaða íslenska vinnubók.

Leiðbeinandi: Guðrún Högnadóttir, Managing Partner hjá FranklinCovey á Íslandi.

Rekstur og fjármál

Hvað þarf að gera þegar hefja á rekstur og hvað ber að varast. Farið verður í gegnum helstu þætti sem hafa þarf í huga við rekstur lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Meðal þess sem tekið verður til umfjöllunar er samband markaðsmála og fjármagns, gerð kostnaðargreininga og fjárhagslegs eftirlits. Kenndir verða grunnþættir rekstrarstjórnunar og birgðastjórnunar ofl.  

Ávinningur:

 • Betri þekking á rekstri og fjármálum fyrirtækja

 • Betri skilningur á rekstrarreikningi og tengslum hans við dagleg störf

 • Þekking á kostnaðarverði seldra vara, þekktrar og óþekktrar rýrnunar og annarra þátta sem hafa áhrif á  rekstrarafkomu.

 • Þekking á ferli áætlanagerðar

 • Þekking á grunnþáttum innkaupa- og birgðastjórnunar

 • Skilji samhengi allra þeirra þátta sem mynda rekstur

Leiðbeinandi: Jón Hreinsson, fjármálastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Verkefnastjórnun

Þátttakendur læra að áætla verkefni og setja fram tölusett markmið um áfanga og árangur, bæði hvað varðar tíma og kostnað og hvernig þessar áætlanir eru tengdar saman í heildstæða verkefnaáætlun.

Fjallað verður sérstaklega um óvissuþætti og áhættumat í verkefnum og hvernig gera skuli áætlanir þegar áhætta er fyrir hendi. Kennd verður notkun á mati við tímalengd verkþátta sem og  kostnaðarþátta, og farið í aðferðir við áhættumat.

Þá verður fjallað um eftirlitskerfi til að mæla mismun á raunverulegum tölum og áætluðum tölum. Loks munu nemendur læra að ljúka verkefnum og gera þau upp þannig að læra megi af mistökum og festa góðan árangur í sessi.

Að loknu námskeiðinu verður nemandinn með vandaða grundvallarþekkingu á beitingu aðferðum verkefnastjórnunar við að undirbúa, skipuleggja, framkvæma og ljúka meðalstóru eða stóru verkefni/framkvæmd.

Leiðbeinandi: Hera Grímsdóttir, aðjúnkt og sviðstjóri byggingasviðs Tækni- og verkfræðideildar við Háskólann í Reykjavík

Straumlínustjórnun - Lean management

Farið verður yfir grunnhugsun lean aðferðafræðinnar og hvernig hún er frábrugðin hefðbundnum stjórnunaraðferðum. Straumlínustjórnun hentar sérstaklega sérfræðingum og stjórnendum framleiðslu- og þjónustufyrirtækja sem hafa hug á því að efla umbótastarf og straumlínulaga ferli í fyrirtækjum sínum með þarfir viðskiptavina að leiðarljósi.

Megininntök aðferðanna verða kynnt og nokkur dæmi tekin um tæki og tól sem notuð eru í straumlínustjórnun.

„Hættulegasta sóunin er sú sem við sjáum ekki.“ -Shigeo Shingo (Toyota)

Leiðbeinandi: Pétur Arason, rekstrarverkfræðingur og Chief challenger of status quo hjá Manino.

Samningatækni

Fagmennska í samningatækni hjálpar fólki að ná hámarksárangri, bæði í einkalífi og í starfi. Í námskeiðinu er fjallað um lykilatriði árangursríkrar samningamennsku og samvinnu til að komast að góðu samkomulagi.

Með fyrirlestrum, umræðum, æfingum o.fl. munu nemendur afla sér þekkingar og færni í samningatækni.

Á námskeiðinu er lögð sérstök áhersla á gagnlega hluti sem nýtast í raunverulegum samningaviðræðum. Þ.á.m. er skoðað hvernig best er að haga undirbúningi og hvaða aðferðir stuðla að „win-win“ lausn.

Leiðbeinandi: Kristján Vigfússon, aðjúnkt við viðskiptadeild HR og fyrrverandi forstöðumaður MBA-náms við HR.

Valkvæð námskeið:

Framleiðslu- og gæðastýring

Í námskeiðinu verður farið í grunnatriði framleiðslustjórnunar og helstu líkön skoðuð. Fjallað verður um aðfangastjórnun, birgðastýringu, framleiðsluspár og framleiðslubestun. Uppbygging gæðakerfa verður skoðuð og hvernig gæðastjórnun nýtist framleiðslustjórnendum. Nemendur læra að semja verklagsreglur og að gera flæðirit.
Námskeiðið byggir á fræðilegum grunni  en verður lögð áhersla á að gera efnið hagnýtt.

Leiðbeinandi:  Katrín Auðunardóttir, ráðgjafi í framleiðslu- og gæðastjórnun hjá Kaffitári.  

Design Thinking – stefnumótun með aðferðarfræði hönnunar

Í Design Thinking eru skapandi og stefnumótandi aðferðir notaðar til að auka samkeppnishæfni, ýta undir nýsköpun og viðhalda sífelldri þróun fyrirtækja. Áhersla Design Thinking stefnumótunar er á samkennd með viðskiptavini eða notendur þjónustu þar sem ýmsar aðferðir, svo sem greining ferðalags viðskiptavina (e. Customer Journey Map), eru notaðar til að finna áskoranir og bæta þjónustu. Lagt er upp með að stefnumótun sé fyrst og fremst unnin með þarfir þeirra sem reksturinn á að þjóna í huga.

Sífellt fleiri fyrirtæki bætast í hóp þeirra sem tileinka sér Design Thinking en nýlega birtist umfjöllun í hinu virta tímariti Harvard Business Review þar sem vakin var athygli á Design Thinking vakningu meðal bandarískra fyrirtækja. Þar mátti m.a. finna viðtal við Indiru Noori, forstjóra Pepsi, en hún þakkar aðferðafræði Design Thinking gott gengi fyrirtækisins. 

Í lok námskeiðsins er stefnt að því að þátttakendur:

 • Þekki aðferðafræði Design Thinking

 • Viti hverjir nota aðferðafræði Design Thinking og hvers vegna

 • Þekki helstu tæki og tól sem notuð eru í Design Thinking

 • Hafi beitt þekktum aðferðum Design Thinking í hópstarfi

Leiðbeinendur: Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent og Hlín Helga Guðlaugsdóttir, hönnuður.

Þjónustustjórnun

Fjallað verður um mikilvægi þjónustu og áhrif hennar á viðskiptatryggð viðskiptavina sem og afkomu og rekstur fyrirtækja. Farið verður yfir helstu einkenni afburðaþjónustu og hvernig á að veita hana. Tekið er fyrir hvað þjónustuvilji er og hvernig hægt er að efla hann og virkja í daglegu starfi. 

Þátttakendur öðlast skilning á mikilvægi góðrar framkomu og viðmóts gagnvart viðskiptavininum. Auk þess verður fjallað um einkenni góðra sölumanna, söluhringinn og sölutækni ásamt því hvernig byggja eigi upp viðskiptatengsl með langtíma viðskiptasamband í huga.

Notast er við aðferðarfræði markþjálfunar á námskeiðinu en hún markast m.a. af því að draga fram þekkingu þátttakenda á viðfangsefninu og fá þá til að deila henni sín á milli.  

Leiðbeinandi: Lára Óskarsdóttir, ACC stjórnendamarkþjálfi og fyrirlesari.

Leiðbeinendur

Gudrun-Hogna_mynd

Guðrún Högnadóttir

Managing Partner hjá FranklinCovey á Íslandi

Guðrún er Managing Partner hjá FranklinCovey á Íslandi. Auk stjórnunarstarfa og kennslu við HR hefur hún unnið síðastliðin ár sem leiðbeinandi og markþjálfi (executive coach) í íslensku atvinnulífi og leitt fjölda vinnustofa um árangur liðsheilda og vinnustaða. Guðrún er viðurkenndur þjálfari í efni FranklinCovey um 7 venjur til árangurs, Leadership og 7 Habits of Highly Effective Managers auk Coaching Clinic CCUI.

JonHreinsson_mynd

Jón Hreinsson

MBA

Jón er fjármálastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hefur unnið með fyrirtækjum og frumkvöðlum við þróun viðskiptahugmynda og uppbyggingu rekstrar í yfir 15 ár. Hann kennir einnig við nám í Hótelstjórnun og veitingahúsarekstri, Rekstrar og fjármálanámi við Opna háskólann í HR auk annarra námskeiða. Jón er stjórnarmaður í Búseta hsf. Hann er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, Iðnrekstrarfræði og viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Hera Grímsdóttir

Hera Grímsdóttir

Aðjúnkt og sviðstjóri byggingarsviðs Tækni- og verkfræðideildar við Háskólann í Reykjavík

Hera er með MSc í Byggingarverkfræði, Framkvæmdastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík 2013. Hún stefnir á útskrift úr MBA 2017. Hera er umsjónakennari í Verkefnastjórnun, Aðferðarfræði og Tölfræði í HR. Hera hefur margra ára reynslu af verkefnastjórnun og starfað hjá Línuhönnun, Eflu og Össuri.

Vef_DSC8776

Katrín Auðunardóttir

MSc

Katrín er iðnaðarverkfræðingur með sérhæfingu í framleiðslu- og gæðastjórnun. Hún starfar sem ráðgjafi hjá Kaffitári en auk þess hefur hún verið með stöðu stundakennara við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík síðan 2011. Áður var hún framleiðslustjóri hjá ullarframleiðslufyrirtækinu Glófa en lengst af starfaði hún hjá Össuri, eða frá útskrift úr verkfræðideild Háskóla Íslands árið 2002 til 2010.

Pétur Arason

Pétur Arason

MSc

Pétur er með MSc gráðu í rekstrarverkfræði frá háskólanum í Álaborg 2002. Pétur hefur starfað síðastliðin átta ár hjá Marel, nú sem Global Innovation Program Manager. Þar áður hefur hann starfað m.a. hjá Flextronics í Danmörku og sem viðskiptaráðgjafi hjá ParX. Sérsvið hans eru nýsköpun í stjórnun fyrirtækja (e. management innovation), stefnumótun og innleiðing stefnu, straumlínustjórnun (e. lean) og aðferðir tengdar fyrirtækjakerfum, ferlastjórnun, stöðugum umbótum. Pétur hefur í mörg ár verið prófdómari og leiðbeinandi í verkefnum háskólanema bæði á Íslandi og í Danmörku. Pétur hefur einnig kennt rekstrarstjórnun (e. Operational management).

Kristján Vigfússon

Kristján Vigfússon

MBA

Kristján er fyrrverandi forstöðumaður MBA námsins í Háskólanum í Reykjavík og hefur kennt stefnumótun bæði á grunn- og meistarastigi um árabil. Kristján hefur unnið með fjölda fyrirtækja, stofnana og hagsmunasamtaka í stefnmótun í gegnum árin samhliða störfum sínum í HR. Kristján er með MBA gráðu, MA gráðu í stjórnmálahagfræði og BA gráðu í stjórnmálafræði.

Mynd-af-leidbeinendum_Thoreyju-og-Hlin-Helgu

Þórey Vilhjálmsdóttir

Ráðgjafi hjá Capacent. MBA


Þórey (til hægri á mynd) er ráðgjafi í stefnumótun og stjórnun hjá Capacent. Hún býr yfir 20 ára reynslu af fyrirtækjarekstri, stjórnun, stefnumótun, viðskipta- og vöruþróun, nýsköpun og teymisvinnu. Þórey hefur einnig reynslu úr stjórnsýslu og stjórnmálum sem fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra og framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Þórey er einnig formaður ferðamálaráðs sem er iðnaðar- og viðskiptaráðherra til ráðgjafar í ferðaþjónustu. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands 2008-2009. Þórey er MBA frá HR og CEIBS viðskiptaháskóla Sjanghæ, Kína og BA í viðskiptafræði með áherslu á alþjóðaviðskipti frá Háskóla Íslands. Árið 2015 lauk hún vinnustofu í Design thinking stefnumótun við Harvard háskóla.

Mynd-af-leidbeinendum_Thoreyju-og-Hlin-Helgu

Hlín Helga Guðlaugsdóttir

Hönnuður


Hlín Helga (til vinstri á mynd) er sérhæfð í upplifunar- og þjónusthönnun og hefur frá árinu 2009 gegnt stöðum við meistaranám í Experience Design við Konstfack University of Arts, Crafts and Design í Stokkhólmi og við meistaranám í hönnun við Listaháskóla Íslands. Að auki hefur hún kennt framtíðarrýni og nýsköpun hjá Stockholm School of Entrepreneurship. Hlín starfar einnig sjálfstætt sem curator og er félagi hjá alþjóðlegu hugveitunni W.I.R.E. Hún hefur tileinkað sér svokallaða heildræna Human-Centred Design aðferðafræði og Design Thinking til lausnar flókinna og fjölbreyttra áskorana samfélagsins og þverfaglegs samstarfs. Hún leiddi nýafstaðið verkefni af þessu tagi á Kvennadeild Landspítalans sem hlotið hefur talsverða athygli. Hlín er BA í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands og einnig í frönsku frá Háskóla Íslands. Auk þess er hún með diplómu í Evrópumálafræði frá Institut des Hautes Etudes Europeennes í Strasbourg.

Lara-Oskarsdottir_mynd

Lára Óskarsdóttir

ACC stjórnendamarkþjálfi


Lára lauk B.Ed. próf frá HÍ 2008 og diplomanámi í mannauðsstjórnun frá EHÍ.  Hún hefur einnig lokið námi í stjórnendamarkþjálfun (e. Executive coaching) frá Opna háskólanum í HR og Coach University. Lára er með ACC vottun frá International Coach Federation. Árið 2016 lauk hún námi í Straumlínustjórnun (Lean management) frá Opna háskólanum í HR. 

Lára rak sitt eigið fyrirtæki til ársins 1994 en söðlaði þá um. Um árabil starfaði hún sem kynningarstjóri fyrir Íþrótta- og Ólympíusambandið og Ungmennafélag Íslands. Hún starfaði sem Dale Carnegie þjálfari fram til ársins 2013. Lára hefur mikla reynslu af þjálfun og námskeiðahaldi og hefur m.a. starfað með stjórnendum og starfsmönnum fjölda fyrirtækja og stofnanna á Íslandi. Lára þýddi bókina Meira sjálfstraust eftir Paul McGee, 2010.  


Verð

Verð: kr. 330.000 kr. 

Opni háskólinn hvetur umsækjendur til þess að kynna sér greiðsluskilmála Opna háskólans áður en sótt er um í námið. Sjá greiðsluskilmála.

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika.

Hafðu samband

Sandra KR. Ólafsdóttir

Sandra Kr. Ólafsdóttir

Verkefnastjóri