Stjórnendur í sjávarútvegi

í samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS)

Námskeiðslýsing

Námslínan „Stjórnendur í sjávarútvegi“ mun hefja göngu sína í þriðja sinn í september 2016.

Námslínan er samstarfsverkefni Opna háskólans í HR og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og var hún kennd fyrst vorið 2014 við góðar undirtektir.

Kennsla byggist að miklu leyti á hagnýtum verkefnum tengdum atvinnulífi og alþjóðaumhverfi. Einnig er áhersla lögð á persónulega þróun þátttakenda með það að leiðarljósi að efla og styrkja stjórnendur til að takast á við áskoranir í síbreytilegu samkeppnisumhverfi. 

Að námslínunni koma margir af færustu sérfræðingum Háskólans í Reykjavík auk samstarfsaðila úr íslensku atvinnulífi sem allir hafa mikla reynslu á sínu sviði, bæði af framkvæmd og kennslu.

Umsagnir nemenda

Stjornendur-i-sjavarutvegi---Freyja-Onundardottir

Freyja Önundardóttir

Útgerðarstjóri Önundar ehf.

„Námið var gagnlegt, fjölbreytt og fræðandi og stóð fullkomlega undir væntingum. Það nýtist stjórnendum í sjávarútvegi vel þar sem það veitir þátttakendum tækifæri til að kynnast nýjum aðferðum og skerpa á þekkingu sinni. Tengslamyndunin innan hópsins var ómetanleg.“
Rósa Guðmundsdóttir, framleiðslustjóri G. Run í Grundarfirði

Rósa Guðmundsdóttir

Framleiðslustjóri G. Run í Grundarfirði

Mér fannst þetta spennandi tækifæri til að „dusta rykið“ af fyrri háskólamenntun minni í HR. Einnig var námið vel skipulagt þannig að það var heppilegt að koma því fyrir með vinnu. Gagnlegast fannst mér tengslanetið sem myndaðist. Þarna kynntist maður mun betur fólki sem vinnur í sömu stöðu og maður sjálfur. Þetta tengslanet er ómetanlegt.“
Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamar Seafood í Grindavík

Alda Agnes Gylfadóttir

Framkvæmdastjóri Einhamar Seafood í Grindavík

Alda segir tvær ástæður hafa ráðið því að hún kaus að fara í námið í fyrra. „Annars vegar voru kúrsarnir mjög áhugaverðir og „to the point“ og hins vegar var þetta frábær vettvangur til skoðanaskipta og vangavelta við kollega í greininni.“

„Námið var frábært og stóð undir væntingum. Það sem mér fannst gagnlegast og kom að mörgu leyti á óvart hversu öflugt það reyndist, voru einmitt skoðanaskipti og reynsla annara í greininni sem menn deildu gjarnan og ræddu um í náminu, bæði innan kennslustunda og utan. Hefði alls ekki viljað missa af þessu.“

Skipulag

Námið samanstendur af fjórum námslotum og fer kennsla fram á fimmtudögum og föstudögum.

Lengd: 64 klst. 

Staður: Opni háskólinn í HR, Menntavegi 1, 101 Reykjavík. 2. hæð í Mars-álmu.

Vinsamlegast athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um að lágmarksþátttaka náist á námskeiðið. 


Lota I

15. september – Forysta í sjávarútvegi 

Forysta er ekki sjálfgefinn hluti af starfsheiti eða formlegri stöðu. Forysta er meðvitað val um að vinna með fólki þannig að það upplifi eigin styrkleika og hafi kjarkinn og þrautseigjuna til að þjóna markmiðum heildarinnar. 

Á námskeiðinu verður fjallað um lykilatriði árangursríkrar forystu.  Meðal viðfangsefna verða mikilvægi verkefna- og valddreifingar, góðrar samvinnu, virkrar hlustunar, góðs liðsanda og starfsánægju og hvernig leiðtoginn fær starfsfólk með sér í lið.

Ávinningur 

 • Efling leiðtogahæfileika
 • Betri þekking á styrkleikum og tækifærum til umbóta
 • Markmiðasetning

Námskeiðið mun m.a. byggja á efni metsölubókarinnar 7 venjur til árangurs og innifelur persónulegt stjórnendamat, snjallforrit (APP) og vandaða íslenska vinnubók.

Leiðbeinandi: Guðrún Högnadóttir, Managing Partner hjá FranklinCovey á Íslandi.

16. september – Nýsköpun og þróun "spin-off" fyrirtækja

Fyrirtæki í Sjávarútvegi á Íslandi hefur náð góðum árangri í nýsköpun og með því náð að auka verðmæti sjávarafurða. Að skapa eða búa til eitthvað nýtt og/eða endurbæta það sem þegar er til staðar flokkast undir nýsköpun í sinni einföldustu mynd. Nýsköpun er því mikilvæg allri framþróun og getur ýtt undir hagvöxt þjóðfélaga þar sem henni fylgir framleiðsluaukning eða getur leitt af sér hagræðingur sem leiðir af sér meiri framleiðni. 

Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, heimsókn í Hús sjávarklasans og vinnustofu eða hugmyndasmiðju þar sem reynt verður að stofna til nýrra fyrirtækja eða verkefna í samvinnu.  Reynt verður að svara eftirfarandi spurningum:  

 • Hvernig verða ný fyrirtæki til í samstarfi fyrirtækja? 
 • Hvaða leiðum beita fyrirtæki til að koma nýsköpun í framkvæmd? 
 • Hver er reynsla frumkvöðlafyrirtækja? 
 • Hvernig gengur að fjármagna frumkvöðlaverkefni? 
 • Getur hópurinn okkar lært að vinna saman og er gagn í því?  

Ávinningur af námskeiðinu er að þátttakendur eiga að hafa meiri kunnáttu í því að stofna til nýrra verkefna og/eða fyrirtækja sem tengjast rekstri þeirra. Þátttakendur eiga að hafa meiri áhuga á samstarfi þvert á fyrirtæki og tengsl við frumkvöðla til að drífa áfram frekari nýsköpun í sínum fyrirtækjum. 

Leiðbeinandi: Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans.   

Lota II

27. október -  Verkefnastjórnun

Verkefni eru orðin stór hluti af daglegri vinnu flestra nútíma fyrirtækja og stofnanna. Val á réttum verkefnum og stjórnun þeirra er því mikilvæg þekking fyrir millistjórnendur og stjórnendur. 

Markmið námskeiðsins er að kenna aðferðafræði verkefnisstjórnunar og byggist á fyrirlestrum sem fjalla m.a. um:

 • Hvert er hlutverk og áskoranir verkefnastjórans.
 • Val og forgangsröðun verkefna
 • Upphaf verkefnis, skilgreining og skipulag
 • Stjórnun verkefna
 • Lúkning verkefna

Þá verða ýmis tæki og tól kynnt. 

Stefnt er að því að nemendur:

 • Skilji hlutverk verkefna og verkefnisstjórnunar í nútíma rekstarumhverfi
 • Skilji samband tíma, umfangs og kostnaðar 
 • Geti forgangsraðað verkefnum
 • Geti undirbúið og afmarkað verkefni

Leiðbeinandi: Hera Grímsdóttir, aðjúnkt og sviðstjóri byggingasvið Tækni- og verkfræðideildar við Háskólann í Reykjavík. 

28. október - Framsögn og ræðumennska

Þátttakendur eru þjálfaðir í að gera á skilmerkilegan hátt grein fyrir máli sínu, tala af öryggi fyrir framan hóp fólks, leggja áherslur á aðalatriði og auka þar með áhrifamátt sinn og útgeislun. Unnið er út frá verkefnum í lífi og starfi þátttakenda og þeir þjálfaðir í að gera grein fyrir þeim á sannfærandi og hnitmiðaðan hátt. Með æfingu og endurgjöf leiðbeinanda er unnið markvisst að því að fá þátttakendur til að blómstra sem málsvarar sinna verkefna og hópa.

Leiðbeinandi: María Ellingsen, leikkona og stjórnendaþjálfari.     

Lota III 

8. desember  - Sölutækni

Fjallað verður um mikilvægi þjónustu og áhrif hennar á viðskiptatryggð viðskiptavina sem og afkomu og rekstur fyrirtækja. Farið verður yfir helstu einkenni afburðaþjónustu og hvernig á að veita hana. Tekið er fyrir hvað þjónustuvilji er og hvernig hægt er að efla hann og virkja í daglegu starfi. 

Þátttakendur öðlast skilning á mikilvægi góðrar framkomu og viðmóts gagnvart viðskiptavininum. Auk þess verður fjallað um einkenni góðra sölumanna, söluhringinn og sölutækni ásamt því hvernig byggja eigi upp viðskiptatengsl með langtíma viðskiptasamband í huga.

Notast er við aðferðarfræði markþjálfunar á námskeiðinu en hún markast m.a. af því að draga fram þekkingu þátttakenda á viðfangsefninu og fá þá til að deila henni sín á milli.  

Leiðbeinandi: Lára Óskarsdóttir, ACC stjórnendamarkþjálfi og fyrirlesari.


9. desember - Straumlínustjórnun (Lean management)

Farið verður yfir grunnhugsun lean aðferðafræðinnar og hvernig hún er frábrugðin hefðbundnum stjórnunaraðferðum.

Megininntök aðferðanna verða kynnt og nokkur dæmi tekin um tæki og tól sem notuð eru í straumlínustjórnun.

„Hættulegasta sóunin er sú sem við sjáum ekki.“ -Shigeo Shingo (Toyota)

Leiðbeinandi: Pétur Arason, rekstrarverkfræðingur og Chif challenger of status quo hjá Manino.

Lota IV

19. janúar - Markaðssamskipti og árangur á markaði

Lögð er áhersla á aðferðir til að auka virði viðskipta og koma því virði á framfæri til mismunandi markhópa. Farið er í mikilvægi þess að fyrirtæki skapi sér viðvarandi samkeppnisyfirburði með notkun markaðsgreininga og mælinga. Fjallað er um það hvernig markaðsmálum er háttað hjá fyrirtækjum sem hafa náð góðum árangri og hvernig þau skapa og notfæra sér þekkingu á neytendahegðun í gagnamiðaðri markaðssetningu.

Leiðbeinandi: Dr. Valdimar Sigurðsson, dósent við viðskiptadeild HR

20. janúar - Samningatækni

Fagmennska í samningatækni hjálpar fólki að ná hámarksárangri, bæði í einkalífi og í starfi. Í námskeiðinu er fjallað um lykilatriði árangursríkrar samningamennsku og samvinnu til að komast að góðu samkomulagi. Með fyrirlestrum, umræðum, æfingum o.fl. munu nemendur afla sér þekkingar og færni í samningatækni. Á námskeiðinu er lögð sérstök áhersla á gagnlega hluti sem nýtast í raunverulegum samningaviðræðum. Þ.á.m. er skoðað hvernig best er að haga undirbúningi og hvaða aðferðir stuðla að „win-win“ lausn.

Leiðbeinandi: Kristján Vigfússon, forstöðumaður MBA-náms við HR og lektor við viðskiptadeild HR.


Leiðbeinendur

Gudrun-Hogna_mynd

Guðrún Högnadóttir

Managing Partner hjá FranklinCovey á Íslandi

Guðrún er Managing Partner hjá FranklinCovey á Íslandi. Auk stjórnunarstarfa og kennslu við HR hefur hún unnið síðastliðin ár sem leiðbeinandi og markþjálfi (executive coach) í íslensku atvinnulífi og leitt fjölda vinnustofa um árangur liðsheilda og vinnustaða. Guðrún er viðurkenndur þjálfari í efni FranklinCovey um 7 venjur til árangurs, Leadership og 7 Habits of Highly Effective Managers auk Coaching Clinic CCUI.
ThorSigfusson_mynd

Þór Sigfússon

PhD

Stofnandi Íslenska sjávarklasans og nokkurra annarra fyrirtækja sem tengjast fullnýtingu afurða og klasanum. Þór er fæddur í Vestmannaeyjum. Hann hefur skrifað bækur um viðskiptalíf, stjórnun og laxa. Hann hefur verið forstjóri Sjóvár, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Norræna fjárfestingarbankanum. Þór er með doktorspróf í viðskiptafræði sem fjallaði um tengslanet.
Hera Grímsdóttir

Hera Grímsdóttir

Aðjúnkt

Hera er aðjúnkt og sviðstjóri byggingasviðs Tækni- og verkfræðideildar við Háskólann í Reykjavík. Hera er með MSc í Byggingarverkfræði, Framkvæmdastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík 2013. Hún stefnir á útskrift úr MBA 2017. Hera er umsjónakennari í  Verkefnastjórnun, Aðferðarfræði og Tölfræði í HR. Hera hefur margra ára reynslu af verkefnastjórnun og starfað hjá Línuhönnun, Eflu og Össuri.
Pétur Arason

Pétur Arason

MSc

Pétur er með MSc gráðu í rekstrarverkfræði frá háskólanum í Álaborg 2002. Pétur hefur starfað síðastliðin átta ár hjá Marel, nú sem Global Innovation Program Manager. Þar áður hefur hann starfað m.a. hjá Flextronics í Danmörku og sem viðskiptaráðgjafi hjá ParX. Sérsvið hans eru nýsköpun í stjórnun fyrirtækja (e. management innovation), stefnumótun og innleiðing stefnu, straumlínustjórnun (e. lean) og aðferðir tengdar fyrirtækjakerfum, ferlastjórnun, stöðugum umbótum. Pétur hefur í mörg ár verið prófdómari og leiðbeinandi í verkefnum háskólanema bæði á Íslandi og í Danmörku. Pétur hefur einnig kennt rekstrarstjórnun (e. Operational management).
Kristján Vigfússon

Kristján Vigfússon

MBA

Kristján er forstöðumaður MBA námsins í Háskólanum í Reykjavík og hefur kennt stefnumótun bæði á grunn- og meistarastigi um árabil. Kristján hefur unnið með fjölda fyrirtækja, stofnana og hagsmunasamtaka í stefnmótun í gegnum árin samhliða störfum sínum í HR. Kristján er með MBA gráðu, MA gráðu í stjórnmálahagfræði og BA gráðu í stjórnmálafræði.
María Ellingsen

María Ellingsen

BA

María er með BA gráðu í leiklist frá New York University og starfar sem leikari, leikstjóri, höfundur og kennari. Hún er með margra ára reynslu sem stjórnendaþjálfari og fyrirlesari og hefur kennt á fjölda námskeiða í Opna háskólanum í HR og í akademískum deildum HR.
Valdimar Sigurðsson

Dr. Valdimar Sigurðsson

PhD

Valdimar er dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Hann er B.Sc. í sálfræði, M.Sc. í viðskiptafræði og með Ph.D. í markaðsfræði með áherslu á neytendahegðun. Valdimar lauk doktorsprófi sínu við Cardiff University undir leiðsögn prófessors Gordon Foxall og leiðir nú fagsvið markaðsfræða innan viðskiptadeildar HR. Hann hefur birt fjölda greina og bókakafla, unnið til rannsóknarstyrkja og situr í ritstjórn ameríska sálfræðiritsins The Psychological Record. Valdimar hefur unnið með fjölmörgum fyrirtækjum í markaðsmálum bæði á Íslandi sem og erlendis.
Lara-Oskarsdottir_mynd

Lára Óskarsdóttir

ACC stjórnendamarkþjálfi


Lára lauk B.Ed. próf frá HÍ 2008 og diplomanámi í mannauðsstjórnun frá EHÍ.  Hún hefur einnig lokið námi í stjórnendamarkþjálfun (e. Executive coaching) frá Opna háskólanum í HR og Coach University. Lára er með ACC vottun frá International Coach Federation. Árið 2016 lauk hún námi í Straumlínustjórnun (Lean management) frá Opna háskólanum í HR. 

Lára rak sitt eigið fyrirtæki til ársins 1994 en söðlaði þá um. Um árabil starfaði hún sem kynningarstjóri fyrir Íþrótta- og Ólympíusambandið og Ungmennafélag Íslands. Hún starfaði sem Dale Carnegie þjálfari fram til ársins 2013. Lára hefur mikla reynslu af þjálfun og námskeiðahaldi og hefur m.a. starfað með stjórnendum og starfsmönnum fjölda fyrirtækja og stofnanna á Íslandi. Lára þýddi bókina Meira sjálfstraust eftir Paul McGee, 2010.  


Verð

Verð: kr. 330.000 kr. 

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika.

Hafðu samband

Sandra KR. Ólafsdóttir

Sandra Kr. Ólafsdóttir

Verkefnastjóri