Stjórnendur í þriðja geiranum

- frjáls félagasamtök og sjálfseignastofnanir

Námskeiðslýsing

_dsf0421

Námskeiðið veitti mér faglega yfirsýn yfir viðfangsefni sem ég fæst við í mínu sjálfboðastarfi. Það hefur skilað sér í auknu sjálfstrausti og faglegri vinnubrögðum. Þess að auki hefur námið víkkað sjóndeildarhringinn þegar kemur að sjálfboðaliðamenningu. Eftir að námskeiðinu lauk vissi ég því mun betur hvar og hvernig ég gæti aflað mér nánari upplýsingar um faglega nálgun í störfum þriðja geirans.

Kennararnir höfðu mikla þekkingu á efninu og áhugi þeirra smitaði út frá sér. Þátttakendahópurinn samanstóð af fólki sem brennur fyrir fjölbreyttum málefnum og það var áhugavert að hlusta á innlegg þeirra um lausnir og vandamála í þriðja geiranum."

Marta Magnúsdóttir
Formaður hjá Bandalagi íslenskra skáta.

Hagnýt verkefni tengd atvinnulífi og alþjóðaumhverfi 

Námslínan er samstarfsverkefni Opna háskólans í HR og Almannaheilla, Samtaka þriðja geirans sem vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrir almannaheillasamtök og sjálfseignastofnanir sem starfa í almannaþágu.

Kennsla byggist að miklu leyti á hagnýtum verkefnum sem tengjast störfum innan þriðja geirans hér á landi og erlendis. Einnig er áhersla lögð á persónulega þróun þátttakenda með það að leiðarljósi að efla og styrkja stjórnendur til að takast á við áskoranir sem oft eru ólíkar þeim sem stjórnendur á almennum vinnumarkaði standa frammi fyrir.

Að námslínunni koma margir af færustu sérfræðingum Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, Háskólans á Bifröst auk samstarfsaðila úr íslensku atvinnulífi sem allir hafa mikla reynslu á sínu sviði.

Námslotur

Námskeiðið samanstendur af eftirfarandi námslotum sem hver um sig eru 7 klukkustundir:

 • Frjáls félagasamtök, stjórnarhættir og réttarumhverfi 
 • Siðfræði við stjórnun almannaheillasamtaka
 • Forysta og stjórnun í þriðja geiranum
 • Stefnumótun almannaheillasamtaka 
 • Mannauðsstjórnun og stjórnun sjálfboðaliða almannaheillasamtaka 
 • Fjármálastjórnun, fjáraflanir og samningatækni
 • Hagnýt verkefna- og viðburðastjórnun
 • Markaðssetning og samfélagsmiðlar

Umsagnir samstarfsaðila

PeturMagnusson_Hrafnista

Pétur Magnússon, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og forstjóri Hrafnistuheimilanna.

„Starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignastofnanna er einn af hornsteinum samfélagsins okkar. Það er meðal annars fyrir framgöngu þessara aðila sem gæði íslensk samfélags eru í fremstu röð á heimsvísu. Við þurfum því úrvalsfólk með markvissa menntun í framvarðasveit þriðja geirans á Íslandi.“
OBI_2

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands. 

„Mikilvægt er að frjáls félagasamtök þróist í takt við samfélagið, geti tekist á við ný og breytt verkefni og mætt auknum kröfum um fagleg vinnubrögð.

Starfsumhverfi frjálsra félagasamtaka er oft á tíðum ólíkt því sem gengur og gerist hjá fyrirtækjum í eigu ríkis eða í einkarekstri.
Því ber að fagna því að boðið sé upp á nám sem er sérstaklega ætlað stjórnendum í þriðja geiranum.
Með þátttöku stjórnenda í námi af þessu tagi má auka gæði í rekstri og starfsemi þeirra.“

Umfi_kvot

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands

„Starf ungmennafélaga og íþróttafélaga er gríðarlega umfangsmikið og víðtækt. Félögin og reyndar samfélagið allt er mjög metnaðarfullt og eðlilega eru gerðar miklar kröfur til stjórnenda um fagleg vinnubrögð. Það er mikilvægt að bjóða upp á nám sem stjórnendur og starfsmenn ungmenna- og íþróttafélaga geta nýtt sér. Þar eru þau verkfæri sem nýtast nútíma samfélaginu til heilla.“
Img_8867

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands

Aðstandandi


Logo-Almannaheilla

Samstarfsaðilar


Samstarfsadilar_thridjigeirinn_4logo

Skipulag

Tími: Auglýstur síðar. 

Lengd: 56 klst. (8x7 klst.)

Staður: Opni háskólinn í HR, Menntavegi 1, 101 Reykjavík, Mars-álma, 2. hæð. 

Vinsamlegast athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um breytingar og að lágmarksþátttaka náist.

Frjáls félagasamtök, stjórnarhættir og réttarumhverfi

Í námskeiðinu verða frjáls félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og sjóðir skilgreind og fjallað um sérstöðu þeirra. Fjallað verður um hlutverk, umfang og þróun þessa sviðs á Íslandi. Gerð verður grein fyrir íslenskum lögum og reglum sem gilda um félagasamtök. Einnig verður kynnt frumvarp til laga um almannaheillasamtök. Stjórnskipulag og skipulagsform félaga verða tekin til umfjöllunar. Sérstök áhersla verður á hlutverk og val stjórna í félögum, samstarf, verkaskiptingu milli stjórnar, framkvæmdastjóra og starfsfólks og fagleg vinnubrögð við skipulag stjórnarfunda.

Efnið verður tengt raunhæfum dæmum og verkefnavinnu.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi aukna þekkingu á umhverfi og sérstöðu frjálsra félagasamtaka og sjálfseignastofnana.
 • Hafi fengið umfjöllun um stjórnskipulag og skipulagsform félaga.
 • Hafi aukna þekkingu á hlutverki og val stjórna í félög.
 • Hafi betri yfirsýn yfir íslensk lög og reglur um félagasamtök 

Leiðbeinendur: Dr. Steinunn Hrafnsdóttir og Hildur Tryggvadóttir Flóvenz

Siðfræði við stjórnun almannaheillasamtaka 

Almannaheillasamtök hafa flest hver skýr samfélagsleg hlutverk. Þau hafa gjarnan sérfræðiþekkingu sem veitir þeim vægi og vald á sínu sviði og  byggja oft tilveru sína á trausti frá almenningi, félagsmönnum sínum, yfirvöldum og öðrum hagaðilum. Við það bætist að almannaheillasamtök eru rekin af hugsjón og markmiðum án hagnaðarsjónarmiða en eru þó oft að sýsla með fjármuni, gæði og hagsmuni sem eftirsóknarverðir eru. Slíku hlutverki fylgir mikil siðferðileg ábyrgð gagnvart hagaðilum. Siðferðileg álitamál geta komið upp hjá almannaheillasamtökum sem snerta hagsmunaárekstra, umboðsvandann og þegar verðugar hugsjónir blinda fólki sýn og tilgangurinn helgar meðalið. Í þessum hluta fjöllum við um siðferðilegan grundvöll almannaheillasamtaka, siðferðileg álitamál sem geta komið upp í starfi þeirra og mikilvægi þess að auk tæknilegrar fagþekkingar sé til staðar virk siðfræðileg menning og umræðuhefð um þau álitamál sem upp koma í starfinu. Sérstök áhersla verður á leiðir til að greina álitamál og hagnýt tól, eins og ákvarðanalíkön og siðareglur, til að almannaheillafélög geti leyst þau á farsælan máta.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi aukna þekkingu á siðfræðihugtökum og algengum siðferðilegum áskorunum í starfi almannaheillasamtaka.
 • Hafi öðlast leikni í að greina siðferðileg álitamál og leysa þau með aðferðum siðfræðinnar.
 • Hafi betri yfirsýn og færni til að móta sér heildstæða skoðun á siðferðilegu hlutverki almannaheillasamtaka og skapa menningu þar sem mikilvæg siðferðileg málefni eru rædd og leitast er við að finna lausnir á siðferðilegum áskorunum.

Leiðbeinandi: Ketill Berg Magnússon, MA og MBA

Forysta og stjórnun í þriðja geiranum

Forysta er ekki sjálfgefinn hluti af starfsheiti eða formlegri stöðu. Forysta er meðvitað val um að vinna með fólki þannig að það upplifi eigin styrkleika og hafi kjarkinn og þrautseigjuna til að þjóna markmiðum heildarinnar. 

Á námskeiðinu verður fjallað um lykilatriði árangursríkrar og þjónandi forystu.  Meðal viðfangsefna verða mikilvægi verkefna- og valddreifingar, góðrar samvinnu, virkrar hlustunar, góðs liðsanda og starfsánægju og hvernig leiðtoginn fær starfsfólk með sér í lið.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi eflt leiðtogahæfileika sína
 • Hafi betri þekkingu á eigin styrkleikum og tækifærum til umbóta
 • Geti betur dreift verkefnum og valdi
 • Hafi aukna þekkingu á því hvernig megi stuðla að góðum starfsanda

Leiðbeinendur: Sigurður Ragnarsson og Dr. Þóranna Jónsdóttir

Stefnumótun almannaheillasamtaka

Öllum starfseiningum, og þar á meðal félagasamtökum og almannaheillasamtökum, er nauðsynlegt að hafa skýra sýn á tilganginn fyrir tilvist sinni og hvernig nýta eigi og samþætta starfsemina þeim tilgangi til mestrar framþróunar. Kjarni námskeiðsins felst í því að kynnast af hverju stefnumótun er mikilvæg, hvað felst í stefnu og hvernig farið er að því að móta hana.  Áhersla verður á hagnýta nálgun og skýra tengingu við starfsumhverfi félagasamtaka. Nemendur fá tækifæri til að vinna að verkefnum fyrir sína starfsemi.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Skilji tilgang og mikilvægi stefnumótunar.
 • Skilji hvað felst í stefnumótun og þekki helstu hugtök því tengt.

 • Þekki til verklags við mótun stefnu.

 • Hafi spreytt sig á mótun stefnu.  

Leiðbeinandi: Hrönn Pétursdóttir, MBA

Mannauðsstjórnun og stjórnun sjálfboðaliða almannaheillasamtaka

Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök eru skipulögð og samsett af fólki. Skilningur á einstaklingum, hegðun þeirra og áhrifum sem fólk hefur á hvert annað er því einn af grundvöllum þess að ná skilvirkni og árangri í starfsemi. Í kröfuhörðu umhverfi nútímans hafa þeir vinnustaðir forskot og eru eftirsóttir þar sem fólk upplifir vellíðan og að það skipti máli, að störf þess hafi áhrif og hæfni þess sé vel nýtt. Á námskeiðinu verður fjallað um hvernig þekking á sviði mannauðsstjórnunar getur hjálpað stjórnendum að ná þessu forskoti. Fjallað verður um ýmsa þætti stjórnunar út frá sjónarhóli þessara fræða með áherslu á sérstöðu almannaheillasamtaka þar sem sjálfboðaliðar eru stór hluti mannauðs. 

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi öðlast innsýn í það hvernig stefna og skipulag hafa áhrif á árangur starfsfólks
 • Þekki til lykilþátta sem stuðla að starfsánægju, helgun og hollustu
 • Hafi kynnst því hvernig samskipti einstaklinga, viðhorf og hegðun hafa áhrif á það hvernig verkefni vinnast, ákvarðanir eru teknar og þær framkvæmdar

Leiðbeinandi: Hulda Dóra Styrmisdóttir, MBA

Fjármálastjórnun, fjáraflanir og samningatækni

Farið verður í gegnum helstu þætti sem hafa þarf í huga við rekstur lítilla og meðalstórra félaga.  Meðal þess sem tekið verður til umfjöllunar er samband markaðsmála og fjármagns, gerð kostnaðargreininga og fjárhagslegs eftirlits. Farið verður yfir lykilþætti fjármála- og rekstrarstjórnunar.  Á námskeiðinu verður jafnframt fjallað um stjórnun fjáraflana.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Betri þekking á rekstri og fjármálum.
 • Betri skilningur á rekstrarreikningi og tengslum hans við dagleg störf.
 • Þekking á kostnaðarverði seldra vara, þekktrar og óþekktrar rýrnunar og annarra þátta.
 • Þekki ferli áætlanagerðar.
 • Skilji samhengi allra þeirra þátta sem mynda rekstur.
 • Betri þekking á samningum og tengsl þeirra og fjármálastjórnunar.
 • Öðlist betri þekkingu á stjórnun fjáraflana.   

Leiðbeinandi: Jón Hreinsson, MBA

Hagnýt verkefna- og viðburðastjórnun

Á námskeiðinu verður lögð áhersla á skipulagningu viðburða, allt frá því að hugmynd kviknar þar til viðburði er lokið. Viðburðastjórnun verður einnig skoðuð útfrá sjónarhorni skipuleggjenda sem vilja þjónustu á framfæri með árangursríkum hætti.

Farið verður í gerð verkáætlunar sem grundvöll að góðri verkefnastjórnun. Skoðað verður að hverju þarf að huga við undirbúning og skipulag viðburðar, markaðssetningu, markmiðasetningu, framkvæmd, samantekt og mat á viðburði. Á námskeiðinu verður jafnframt fjallað um starf með sjálfboðaliðum og hvernig megi virkja sjálfboðastarf enn frekar í verkefnum á sviði félaga til almannaheilla.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Geti nýtt sér nauðsynleg verkfæri til skipulagningar viðburða, allt frá því að hugmynd kviknar þar til viðburði er lokið

 • Hafi öðlast aukna hæfni í verkefna- og viðburðastjórnun
 • Kynnist þeim fjölmörgu kynningarleiðum sem hafa ber í huga við markaðssetningu viðburða 
 • Öðlist aukna hæfni í að stýra og vinna með sjálfboðaliðum    

Leiðbeinandi: Hulda Bjarnadóttir, MBA

Markaðssetning og samfélagsmiðlar

Fjallað verður um þær hröðu og mikilvægu breytingar sem eiga sér stað í markaðssetningu með samfélagsmiðlum. Sérstök áhersla verður lögð á þá neytendamenningu sem samfélagsmiðlar hafa skapað og hvernig markaðssetning verður að taka mið af þessum breytingum. Samfélagsmiðlar eins og til dæmis Facebook, Twitter eða YouTube geta hentað vel bæði til að ná í þekkingu sem og til að miðla upplýsingum. En í raun má segja að flest vefsvæði í dag lúti sífellt meira lögmálum samfélagsmiðla þar sem mikilvægt er að eiga í samtali við alla hagsmunaaðila.

Í námskeiðinu verður skoðað nauðsyn þess að hanna sérstaka stefnumótun fyrir markaðssetningu með samfélagsmiðlum og að hún verði að vera partur af heildrænni hugsun í þessum efnum. Í þessu sambandi verður hugað að mælingum á árangri, aðferðafræði sem og ýmis tól verða stuttlega kynnt.

Tekin verða dæmi um árangursríka og mistæka notkun samfélagsmiðla í markaðssetningu bæði frá íslenskri markaðssetningu sem og erlendri. Allt snýst þetta um virði og þjónustu. Markaðsaðilar verða að þekkja bæði yrtar og óyrtar langanir neytenda/viðskiptavina/skjólstæðinga, og setja sér reglur um lágmarksþjónustu og skapa tækifæri til að fara fram úr væntingum. Í þessu sambandi að þá verða teknar stuttar æfingar og raundæmi, en kúrsinn verður kenndur í anda samfélagsmiðla þar sem að nemendur og kennari vinna saman að niðurstöðu.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi öðlast góðan skilning á mikilvægi tengslamyndunar, umtals, neytendasálfræði og upplifunarstjórnunar.
 • Geti rökstutt ákvarðanir hvað varðar markaðssetningu með samfélagsmiðlum á faglegum grunni.
 • Hafi vitneskju um nýjustu aðferðafræði á sviði markaðssetningar með samfélagsmiðlum.
 • Þekki bæði tækifæri og ógnanir sem fylgja því að nota samfélagsmiðla í markaðslegum tilgangi.     

Leiðbeinandi: Dr. Valdimar Sigurðsson

Leiðbeinendur

Portrett of Hildur Tryggvadottir Flovenz

Hildur Tryggvadóttir Flóvenz

Ráðgjafi hjá KPMG, MA

Hildur hefur yfir 20 ára reynslu af starfi fyrir félagasamtök bæði sem sjálfboðaliði og starfsmaður. Hún hefur m.a. unnið sem  framkvæmdastjóri Rauða krossins í Hafnarfirði og Garðabæ og framkvæmdastjóri Landssambands æskulýðsfélaga en hefur einnig starfað fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg og European Youth Forum. Hildur starfar nú sem ráðgjafi hjá KPMG og leggur áherslu á ráðgjöf um hlutverk og ábyrgð stjórna í félagasamtökum, uppbyggingu og innra starf félagasamtaka. Hildur er með MA próf í stjórnun og rekstri félagasamtaka frá Heidelberg háskóla í Þýskalandi.

Hronn-Petursdottir---Mynd

Hrönn Pétursdóttir

Stjórnunarráðgjafi, MBA

Hrönn hefur starfað sem milli- og yfirstjórnandi fyrirtækja og félagasamtaka, stjórnendaþjálfari og stundakennari við HÍ, ásamt stjórnarsetu.  Hún hefur starfað sjálfstætt sem stjórnunaráðgjafi frá árinu 2007, aðallega á sviði greiningar, breytingastjórnunar og stefnumótunar. Meðal þeirra félagasamtaka sem hún hefur starfað fyrir í slíku samhengi er Öryrkjabandalag Íslands, Barnaheill og Kvennaathvarfið.  Hrönn starfaði sem framkvæmdastjóri Menntar - samstarfsvettvangs atvinnulífs og skóla, framkvæmdastjóri European Youth Forum og verkefnastjóri Evrópuskrifstofu skáta. Sem sjálfboðaliði hefur hún setið í ýmsum vinnuhópum, nefndum og stjórn Bandalags íslenskra skáta, auk þess sem hún gegndi hlutverki mótsstjóra fyrir World Scout Moot - umfangsmesta alþjóðlega viðburðar sem haldinn hefur verið á landinu. Hún er núverandi formaður Rauða krossins í Mosfellsbæ.  Hrönn er með BA í samskiptafræði frá Duquesne University, MBA frá Háskóla Íslands og diplómu á mastersstigi í stjórnsýslufræðum fyrir stjórnendur.

Portrett of Hulda Bjarnadottir

Hulda Bjarnadóttir

Forstöðumaður viðskiptaþróunar Árvakurs, MBA

Hulda hefur komið að framkvæmd fjölbreyttra viðburða hérlendis og erlendis en í dag starfar hún sem forstöðumaður viðskiptaþróunar Árvakurs og einn þáttastjórnenda Magasínsins á K100. Áður var hún framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Viðskiptaráðs Íslands þar sem hún kom að framkvæmd viðburða á ólíkum mörkuðum. Einnig stýrði hún fjölda verkefna og viðburða sem framkvæmdastjóri FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu  og um tíma vann hún við verkefnastjórnun og ráðgjöf í almannatengslum hjá KOM ehf. Þriðja geiranum kynntist Hulda er hún stýrði Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem krabbamein og sat í stjórn Krabbameinsfélags Íslands. 
Hulda er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík 2008 og BSc í Viðskiptafræði 2004.

Portrett of Hulda Dóra Styrmisdóttir

Hulda Dóra Styrmisdóttir

Stjórnendaráðgjafi, MBA

Hulda Dóra starfar nú á Landspítala þar sem hún sinnir m.a. markþjálfun fyrir stjórnendur og starfsmenn. Áður hefur hún m.a. starfað sem forstöðumaður meistaranáms í viðskiptadeild HR, sem skrifstofustjóri á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og sem framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka. Hún hefur nær 20 ára reynslu af breytingavinnu og breytingastjórnun, sem stjórnandi, ráðgjafi, markþjálfi og þátttakandi bæði í einkageiranum og opinbera geiranum. Hulda, sem hefur verið stundakennari við HR frá 2006 er með MBA gráðu frá INSEAD viðskiptaháskólanum í Frakklandi og BA próf í hagfræði frá Brandeis University, Bandaríkjunum og hefur einnig lokið diploma í breytingastjórnun og vinnusálfræði frá INSEAD.

Portrett of Jon Hreinsson

Jón Hreinsson

Fjármálastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, MBA

Jón er fjármálastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og hefur unnið með fyrirtækjum og frumkvöðlum við þróun viðskiptahugmynda og uppbyggingu rekstrar í yfir 15 ár. Hann kennir einnig við nám í Hótelstjórnun og veitingahúsarekstri, Rekstrar og fjármálanámi við Opna háskólann í HR auk annarra námskeiða. Jón er stjórnarmaður í Búseta hsf. Hann er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík, Iðnrekstrarfræði og viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri.

Ketill Berg Magnússon

Formaður Almannaheilla og kennari við HR, MA og MBA

Ketill Berg Magnússon er framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja og kennari við Háskólann í Reykjavík. Ketill hefur starfað sem ráðgjafi á sviði mannauðsstjórnunar og stefnumótunar og hefur langa reynslu sem mannauðsstjóri. Ketill hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, s.s. stjórnarsetu í félagasamtökum, fagfélögum, og fyrirtækjum og er formaður Almannaheilla, samtaka þriðja geirans. Ketill er með meistaragráðu í stjórnun (MBA) og MA gráðu í heimspeki með sérhæfingu í viðskiptasiðfræði og samfélagsábyrgð og er ACC vottaður stjórnendamarkþjálfi.

Sigurður Ragnarsson

Sigurður Ragnarsson

Lektor og forseti viðskiptafræðideildar Háskólans á Bifröst, kennari við viðskiptadeild HR, MBA

Sigurður er lektor og forseti viðskiptafræðideildar Háskólans á Bifröst þar sem hann kennir meðal annars forystufræði og samningatækni. Hann hefur víðtæka stjórnunarreynslu og þar á meðal reynslu af eigin fyrirtækjarekstri. Sigurður gaf út bókina Forysta og samskipti - Leiðtogafræði í lok árs 2011. Sigurður er með BA í mannauðsstjórnun og MBA í stjórnun og markaðsfræðum frá Golden Gate University í San Francisco.

Portrett of Steinunn Hrafnsdottir

Dr. Steinunn Hrafnsdóttir

Dósent við félagsráðgjafadeild HÍ

Steinunn hefur áralanga reynslu af því að starfa í stjórnum félagasamtaka.
Steinunn er varadeildarforseti Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Hún var deildarforseti frá 2011 til 2014 við sömu deild. Steinunn er dósent í Háskóla Íslands og kennir í Félagsráðgjafardeild. Steinunn lauk doktorsvörn við University of Kent árið 2004 í félagsráðgjöf. Árið 1991 lauk hún Meistaraprófi í stjórnun við sama háskóla. Steinunn hefur sérhæft sig í stjórnun og rekstri félagasamtaka. 

Portrett of Dr. Valdimar Sigurdsson

Dr. Valdimar Sigurðsson

Prófessor við viðskiptadeild HR

Valdimar er prófessor í markaðsfræði og neytendasálfræði við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Valdimar lauk doktorsprófi sínu við Cardiff University. Hann hefur birt fjölda greina og bókakafla, unnið til rannsóknarstyrkja og situr í ritstjórn ameríska sálfræðiritsins The Psychological Record. Valdimar hefur unnið með fjölmörgum fyrirtækjum í markaðsmálum bæði á Íslandi sem og erlendis

dr. Þóranna Jónsdóttir

Dr. Þóranna Jónsdóttir

Ráðgjafi og lektor við viðskiptadeild HR

Þóranna hefur víðtæka reynslu af stjórnun og innleiðingu breytinga sem stjórnandi og ráðgjafi hjá stórum og smáum fyrirtækjum. Þóranna starfar í dag sem ráðgjafi og lektor við viðskiptadeild HR og er fyrrverandi forseti viðskiptadeildar HR. Þóranna var áður m.a. framkvæmdastjóri hjá Auði Capital og Vistor og hefur í meira en áratug sinnt kennslu á sviði markaðsmála, breytingastjórnunar, fyrirtækjamenningar, stjórnarhátta og gerð viðskiptaáætlana.  Þóranna er með MBA gráðu frá IESE í Barcelona og doktorsgráðu í stjórnun frá Cranfield University í Bretlandi.


Verð

Verð: 325.000

Innifalið í verði eru öll námskeiðsgögn, léttur hádegisverður og kaffiveitingar á námskeiðsdögum.

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika. 

Hafðu samband

Linda Vilhjalmsdottir

Linda Vilhjálmsdóttir

Verkefnastjóri