PMD stjórnendanám HR

Programme for Management Development

Námskeiðslýsing 

Sívaxandi kröfur eru gerðar til stjórnenda samtímans. Í þeim hröðu breytingum sem ríkja í nútímaþjóðfélagi er mikilvægt að stjórnendur séu meðvitaðir um persónulega þróun, og geti þannig orðið góðir leiðtogar.

Pmd-stjornendnam-hr-vigdis-jonsdottir_l_1534943182535

Markmið námsins

Námið er hannað að alþjóðlegri fyrirmynd og lagað að íslenskum aðstæðum til að efla faglega þekkingu stjórnenda og auka færni, frammistöðu og frumkvæði þeirra í dagsins önn. Nokkrir helstu sérfræðingar og samstarfsaðilar HR leiða kennslu með stuðningi PMD fagráðs.

Hagnýt verkefni

Lögð er áhersla á að þátttakendur séu ekki einungis að tileinka sér nýja þekkingu og færni á námskeiðunum sjálfum, heldur er skapað lærdómsumhverfi sem hvetur þátttakendur til að endurmeta og bæta stjórnunaraðferðir sínar á milli kennslulota. Kennslan byggir að miklu leyti á hagnýtum verkefnum tengdum atvinnulífi og alþjóðaumhverfi.

Fyrir hverja?

Námið er ætlað stjórnendum með minnst þriggja ára stjórnunarreynslu og haldbæra menntun. PMD-stjórnendanám HR er kjörinn vettvangur fyrir þá stjórnendur sem vilja bæta við menntun sína og hæfni samhliða vinnu, án þess að skuldbinda sig til langtímanáms.

Umsagnir fyrrum nemenda 

Skipulag

Námið samanstendur af sjö tveggja daga lotum sem kenndar eru með um það bil fjögurra vikna millibili á fimmtudögum og föstudögum frá kl. 09:00-16:00.

Tími: Hefst 13. september 2018.

Lengd: 98 klst.

Staður: Opni háskólinn í HR, Menntavegi 1, 101 Reykjavík, Mars-álma, 2. hæð. 

Námið samanstendur af eftirfarandi efnisþáttum:*

*Vinsamlegast athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um að lágmarksþátttaka náist í námið.

13. og 14. september 2018 - Stjórnun og forysta

Fjallað er um helstu þætti stjórnunar og hin mismunandi hlutverk stjórnandans. Rætt er um helstu viðfangsefni stjórnunar, mun á stjórnun og forystu sem og mismunandi forystu- og stjórnunarstíla. Einnig er fjallað um mikilvægi þess fyrir stjórnendur og leiðtoga í ábyrgðarstörfum að huga að eigin líðan. Í lotunni er áhersla á að efla sjálfsskilning og sjálfsþekkingu þátttakenda á eigin nálgun á stjórnun og forystu.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Þekki betur eigin styrkleika og tækifæri til áhrifa
 • Hafi sett sér markmið um framfarir og unnið að áætlun um árangur
 • Hafi styrkt eigin þekkingu á stjórnun og náð betri yfirsýn yfir rekstur
 • Hafi eflt eigin leiðtogahæfileika og hafi betri sýn á áskoranir og tækifæri

Leiðbeinandi: Dr. Auður Arna Arnardóttir, forstöðumaður MBA náms og lektor viðskiptadeild HR.


11. október 2018 - Persónuleg þróun I

Undanfarin ár hefur umræða um persónulega þróun orðið fyrirferðameiri en áður. Einnig mikilvægi þess að stjórnendur líti inn á við og þekki sjálfa sig vel, svo þeir megi verða betri stjórnendur fyrir aðra. Reyndar hefur því verið haldið fram að þetta sé algjört lykilatriði til að ná árangri og til að ná því að verða leiðtogi.

Það að þróa sig sem manneskju og sem fagmann er ævilangt ferli sem nálgast má með ýmsum hætti. Það getur krafist kjarks, því það er ekki nóg að sjá tækifæri til að bæta okkur og jafnvel að taka ákvörðun um það, ef því er svo ekki komið í raunverulega framkvæmd. Þetta er ögrandi og skemmtilegt verkefni sem auðveldara er um að tala en að gera, eins og sagt er.

Til að ná settum markmiðum hjálpar mikið að þekkja eigin styrkleika. Þegar við notum styrkleika okkar þá reynast verkefnin okkar auðveldari og skemmtilegri. Markmið námslotunnar er því að hver og einn finni hvar þeir liggja og þannig er hægt að byggja á þeim til að efla okkur og í leiðinni aðra, til að ná enn meiri árangri. Stærstu tækifærin í persónulegri þróun liggja einmitt þar.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi áttað sig á markmiðum sínum og hvar helstu tækifæri til persónulegrar þróunar liggja
 • Þekki eigin styrkleika og hvernig þá langar til að þróa sig áfram
 • Séu byrjaðir að vinna í breytingum á hegðun og vinnulagi og hafi kynnst aðferðum og verkfærum til þess

Leiðbeinandi: Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og markaðsstjórnar RB 

12. október 2018 - Samningatækni

Samningagerð og ákvörðunartaka kemur við sögu á hverjum degi í starfi allra stjórnenda – gagnvart samstarfsfólki, viðskiptavinum og fjölskyldunni. Hvernig til tekst skiptir miklu máli fyrir velgengni stjórnanda og viðkomandi fyrirtækis. Góð ákvörðunartaka krefst engra sérstakra persónueiginleika eða bellibragða heldur geta allir bætt árangur sinn umtalsvert með því að beita einföldum grundvallarreglum og vinnuaðferðum.

Færni lærist ekki af fyrirlestrum heldur með æfingu og heiðarlegri endurgjöf í afslöppuðu og opnu umhverfi. Í vinnustofunni takast þátttakendur á við hagnýtar æfingar í samningatækni sem kristalla þær grundvallaráskoranir sem samningamenn standa frammi fyrir – og fá endurgjöf úr æfingunni sjálfri, frá mótaðilum og frá leiðbeinanda. Þátttakendur fá lesefni og hagnýtar æfingar.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Fái skilning á undirliggjandi þáttum í samningaviðræðum og helstu hugtökum samningatækni
 • Auki hæfni sína til að leysa úr ágreiningi og snúa átökum í árangursríkt samstarf
 • Nýti hæfileika sína til að ná hagstæðri niðurstöðu og skapa traust fyrir langtíma viðskiptasambönd
 • Njóti aukins sjálfstrausts í samningaviðræðum og geti nýtt þekkingu sína til að stjórna gangi viðræðna og beina þeim til hagstæðrar niðurstöðu

Leiðbeinandi: Kristján Vigfússon, aðjúnkt við viðskiptadeild HR.  

8. og 9. nóvember 2018 - Rekstur og verðmætasköpun

Það er hlutverk stjórnenda að gæta hagsmuna hluthafa og leitast við að ná sem mestri arðsemi í rekstri. Í því felst m.a. að skilningur á grundvallaratriðum fjármálafræði verða að vera til staðar. Á það jafnt við atriði er varða samhengi rekstrar, efnahags og sjóðstreymis sem og þekkingu og skilning á verðmati fyrirtæki (e. Corporate valuation).

Stjórnandi verður að þekkja mismun á hagsmunum  lánardottna og hluthafa og vera í stakk búinn til að skoða verðmat og forsendur rekstraráætlana á gagnrýnin hátt. Farið verður í gegnum skráningu fyrirtækja á hlutabréfamarkað með hliðsjón af framangreindu.

Áhersla verður lögð á hagnýta beitingu aðferða í verkefnavinnu og fá nemendur tækifæri til að vinna að verkefnum tengt því fyrirtæki sem þeir starfa hjá. A.m.k. einn gestafyrirlesari mun deila reynslu sinni með nemendum.

Að námskeiðinu loknu er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi almennan skilning á ársreikningum og hvernig einstakir þættir þeirra tengjast verðmætasköpun fyrirtækja.
 • Hafi náð tökum á helstu hugtökum fjármála, einkum þeim sem lúta að verðmati.
 • Geti skoðað niðurstöður verðmats á gagnrýninn hátt og þekki helstu aðferðir.
 • Hafi almenna og hagnýta þekkingu á helstu þáttum í stjórnun fjármála.

Leiðbeinandi: Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Krítar fjármögnunarlausna.


6. desember 2018 - Straumlínustjórnun

Aðferðafræði straumlínustjórnunar (e. lean management) hefur nýst vel við að opna augu stjórnenda fyrir þeim gríðarlegu möguleikum til umbóta og framfara sem liggja falin í viðskiptaferlum ólíkra fyrirtækja. Í þessari lotu verður farið yfir grunnhugsun straumlínustjórnunar og skoðað hvernig hún er frábrugðin hefðbundnum stjórnunaraðferðum. Megininntak aðferðanna verður kynnt og dæmi um tæki og tól sem notuð eru í straumlínustjórnun tekin.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi öðlast almenna þekkingu á straumlínustjórnun og birtingarmyndum hennar
 • Hafi lært að koma auga á og bregðast við sóun og þekki mismunandi tegundir sóunar
 • Hafi kynnst aðferðum sem styðja við eflingu umbótastarfs og straumlínulögun ferla með þarfir viðskiptavina að leiðarljósi

Leiðbeinandi: Pétur Arason, Chief challenger of status quo hjá Manino

7. desember 2018 - Stefnumótun

Hlutverk stjórnenda er meðal annars að samþætta starfsemi ólíkra sviða og eininga og búa þannig heildina undir óvissa framtíð. Hlutverkið felur því í sér að hanna stefnu fyrir ólík svið með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Kjarni námskeiðsins felst í því að kynna aðferðarfræði stefnumótunar og verkfæri hennar til að auðvelda stjórnendum og sérfræðingum greiningarvinnu, gerð stefnu og innleiðingu hennar. Áhersla verður á hagnýta nálgun, bæði hvað fyrirlestra og verkefni varðar. Nemendur fá tækifæri til að vinna að verkefnum fyrir sinn rekstur/starfsemi.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi fengið kynningu á helstu hugtökum stefnumótunar.
 • Þekki til nokkurra mikilvægra greiningartækja við stefnumótun.
 • Geti beitt viðeigandi tækjum og tólum vegna slíkrar greiningarvinnu.
 • Hafi spreytt sig á nokkrum af þeim aðferðum sem kynntar verða.
 

Leiðbeinandi: Þröstur Olaf Sigurjónsson, dósent við viðskiptadeild HR.

10. og 11. janúar 2019 - Breytingastjórnun

Breytingar reyna oft meira á þolrifin en ætla má í fyrstu. Í þessum námskeiðshluta verða kynnt til sögunnar þættir sem tengjast bæði skipulagi og mannlegri hegðun. Til þess að breytingar megi verða farsælar er lykilatriði að skýr sýn sé til staðar, rétt sé að upplýsingagjöf staðið og áfangar breytinganna séu vel skilgreindir.

Mikilvægt er að leggja áherslu á stýringu væntinga og takast á við afleiðingar þess óvissuástand sem breytingar hafa gjarnan í för með sér. Ennfremur verður stuttlega komið inn á krísustjórnun.  

Yfirferðin mun einkennast af stuttum fyrirlestrum, umræðum, verkefnum og stuttum dæmisögum (e. case studies).

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Kunni skil á helstu þáttum er varða skipulag og mannlega þætti breytingarstjórnunar.
 • Hafi yfirsýn yfir helstu þætti breytingaferlisins og geti skilgreint krítíska þætti.
 • Hafi fengið æfingu í því að takast á við helstu áskoranir breytingastjórnunar.

Leiðbeinandi: Dr. Þóranna Jónsdóttir, ráðgjafi og lektor við viðskiptadeild HR.

7. febrúar 2019 - Samfélagsleg ábyrgð

Ákvarðanir stjórnenda í fyrirtækjum hafa áhrif á alla þá sem eiga samskipti við fyrirtækin og geta verið afar afdrifaríkar fyrir einstaklinga, önnur fyrirtæki og heilu samfélögin. Viðskipti og fyrirtæki eru hluti af samfélaginu og þeim þarf að stjórna af ábyrgð og í sátt við þá sem eiga hagsmuna að gæta.

Í þessu námskeiði verður samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja (e. Corporate Social Responsibility) kynnt og siðferðileg álitamál í viðskiptum kryfjuð. Þátttakendur fá þjálfun í að taka ákvarðanir um siðræn málefni í viðskiptum og kynnast því hvernig innleiða má ábyrga starfshætti í fyrirtækjum. Þetta er ekki eingöngu tæknilegt námskeið heldur fjallar það um lífssýn nemenda, gildi og hvernig orðspor þeir vilja eiga í viðskiptum. Stuðst verður við raundæmi úr íslensku og alþjóðlegu viðskiptalífi.

Að námskeiði loknu er stefnt að því að þátttakendur:

 • Geti beitt helstu aðferðum viðskiptasiðfræði og samfélagslegrar ábyrgðar
 • Hafi öðlast þjálfun í að greina álitaefni um samfélagsábyrgð og siðferði í viðskiptum
 • Geti betur komið auga á siðferðisleg álitaefni í viðskiptum og tekið rökstuddar ákvarðanir um þau

Leiðbeinandi: Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri Festu og stundakennari við HR. 


8. febrúar 2019 - Árangur á markaði

Lögð er áhersla á aðferðir til að auka virði viðskipta og koma því á framfæri til mismunandi markhópa. Farið er í mikilvægi þess að fyrirtæki skapi sér viðvarandi samkeppnisyfirburði með notkun markaðsgreininga og mælinga. Fjallað er um það hvernig markaðsmálum er háttað hjá árangursríkum fyrirtækjum og hvernig þau skapa og notfæra sér þekkingu á neytendahegðun í gagnamiðaðri markaðssetningu.

Meðal efnis er stefnumótun og áætlanagerð, vörumerkjastjórnun, neytendasálfræði og tækni til að greina og móta hegðun neytenda. Núverandi og framtíðar stjórnendum markaðsmála er kennt að horfa enn lengra en áður, ekki einungis á ánægju neytenda og starfsmanna, heldur á aðrar stærðir sem leiða til árangurs í markaðssetningu. 

Að námskeiðinu loknu er stefnt að því að þátttakendur:

 • Séu neytendamiðaðir og þekki mikilvæg atriði í neytendasálfræði
 • Þekki samþætt markaðssamskipti og helstu kennitölur markaðsfræðinnar
 • Hafi öðlast innsýn inn í stafræna markaðssetningu

Leiðbeinandi: Dr. Valdimar Sigurðsson, prófessor við viðskiptadeild HR.

7. mars 2019 - Innleiðing stefnumótunar: Að koma stefnu í framkvæmd

Stefnumótun er líklega einn mikilvægasti þátturinn í að fyrirtæki og stofnanir ná rekstrar- og samfélagslegum markmiðum sínum. Góðir stjórnendur eyða æ meiri tíma í stefnumótandi ákvarðanatöku þar sem tekið er tillit til samkeppnisaðstæðna og getu fyrirtækis til að breytast, þróast og takast á við nýjar aðstæður.

Stefnumótun og gerð hennar hefur fengið mikla athygli frá stjórnendum og starfsfólki fyrirtækja undanfarin ár, en minna hefur farið fyrir umræðu um framkvæmd stefnumótunar. Í þessari lotu verður lögð sérstök áhersla á framkvæmd stefnumótunar og tekist sérstaklega á við verklegar æfingar sem geta hjálpað stjórnendum og starfsfólki við að innleiða stefnumótandi breytingar.

Að námskeiði loknu er stefnt að því að þátttakendur:

 • Velti upp hverjir það eru sem eiga að koma að stefnumótandi ákvörðunum og hvers vegna
 • Þekki hverjar helstu hindranir við innleiðingu stefnumótunar eru
 • Hafi öðlast skilning á þeim þáttum sem auka líkurnar á farsælli innleiðingu
 • Hafi kynnst þeim verkfærum og vinnustofum sem hægt er að beita við innleiðingu

Leiðbeinandi: Kristján Vigfússon, aðjúnkt við viðskiptadeild HR.


8. mars 2019 - Persónuleg þróun II

Undanfarin ár hefur umræða um persónulega þróun orðið fyrirferðameiri en áður. Einnig mikilvægi þess að stjórnendur líti inn á við og þekki sjálfa sig vel, svo þeir megi verða betri stjórnendur fyrir aðra. Reyndar hefur því verið haldið fram að þetta sé algjört lykilatriði til að ná árangri og til að ná því að verða leiðtogi.

Það að þróa sig sem manneskju og sem fagmann er ævilangt ferli sem nálgast má með ýmsum hætti. Það getur krafist kjarks, því það er ekki nóg að sjá tækifæri til að bæta okkur og jafnvel að taka ákvörðun um það, ef því er svo ekki komið í raunverulega framkvæmd. Þetta er ögrandi og skemmtilegt verkefni sem auðveldara er um að tala en að gera, eins og sagt er.

Til að ná settum markmiðum hjálpar mikið að þekkja eigin styrkleika. Þegar við notum styrkleika okkar þá reynast verkefnin okkar auðveldari og skemmtilegri. Markmið námslotunnar er því að hver og einn finni hvar þeir liggja og þannig er hægt að byggja á þeim til að efla okkur og í leiðinni aðra, til að ná enn meiri árangri. Stærstu tækifærin í persónulegri þróun liggja einmitt þar.

Í lok námslotunnar er stefnt að því að þátttakendur:

 • Hafi áttað sig á markmiðum sínum og hvar helstu tækifæri til persónulegrar þróunar liggja
 • Þekki eigin styrkleika og hvernig þá langar til að þróa sig áfram
 • Séu byrjaðir að vinna í breytingum á hegðun og vinnulagi og hafi kynnst aðferðum og verkfærum til þess


Leiðbeinandi: 
Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og markaðsstjórnar RB


Leiðbeinendur

Auður Arna Arnardóttir

Auður Arna Arnardóttir

Forstöðumaður MBA náms og lektor við viðskiptadeild HR. PhD

Dr. Auður Arna er forstöðumaður MBA náms og lektor við viðskiptadeild HR. Hún er með BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands, og meistaragráðu og síðar doktorsgráðu í ráðgjafasálfræði frá Virginia Commonwealth University. Auður hefur einnig lokið sérnámi í hugrænni atferlismeðferð frá Háskóla Íslands. Hún sérhæfir sig meðal annars í mannauðsstjórnun, eðli hópa og hópa dýnamík. Auður hefur kennt við viðskiptadeild HR frá árinu 2001.
Herdis-Pala-Palsdottir

Herdís Pála Pálsdóttir

Framkvæmdastjóri Mannauðs- og markaðsstjórnar hjá RB

Herdís Pála er framkvæmdastjóri Mannauðs- og markaðsstjórnar hjá RB. Samhliða því sinnir hún kennslu, fyrirlestra- og ráðstefnuhaldi, ráðgjöf og markþjálfun, auk þess sem hún birtir reglulega greinar um stjórnun, mannauðsstjórnun, leiðtogafræði og Self-Leadership. Herdís Pála hefur um 18 ára reynslu á sviði mannauðsstjórnunar. Hún starfaði áður hjá Byr hf. (áður Byr sparisjóður), Íslandsbanka og IMG (nú Capacent). Einnig hefur hún segið í ýmsum stjórnum fyrirtækja, góðgerðar- og félagasamtaka. Herdís Pála er með MBA gráðu frá UNH í Bandaríkjunum og B.Ed frá Kennaraháskóla Íslands, auk þess sem hún hefur lokið námi í markþjálfun frá HR. Hún er með gilda alþjóðlega vottun frá ICF sem markþjálfi og fékk nýlega vottun til að vinna með bandarísku áhugasviðskönnunina Self-Directed Search (SDS).
Kristján Vigfússon

Kristján Vigfússon

Aðjúnkt við viðskiptadeild HR. MBA

Kristján Vigfússon er aðjúnkt við viðskiptadeild HR og fyrrum forstöðumaður MBA náms við HR. Kristján hefur sérhæft sig í stefnumótun, alþjóðaviðskiptum, samningatækni og Evrópumálum. Kristján lauk MA í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MBA prófi frá HR.

Almar Guðmundsson

Almar Guðmundsson

MBA

Almar Guðmundsson starfar sem framkvæmdastjóri Krítar fjármögnunarlausna. Áður gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins og Félags atvinnurekenda. Hann er einnig stundakennari við HR. Almar er með BSc í hagfræði frá HÍ og MBA frá London Business School með áherslu á fjármál. Almar hefur kennt fjölmörg námskeið á sviði fjármála og rekstrar við HR frá stofnun skólans. Hann starfaði á fjármálamarkaði í 12 ár og hefur reynslu af ýmsum þáttum fjármálaumhverfis. 

Petur-Arason--1591

Pétur Arason

Chief challenger of status quo hjá Manino. MSc

Pétur Arason er Chief challenger of status quo hjá Manino. Hann lauk MSc í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg. Pétur starfaði í 9 ár hjá Marel, síðast sem Global Innovation Program Manager. Þar áður starfaði hann m.a. hjá Flextronics í Danmörku og sem viðskiptaráðgjafi hjá ParX. Sérsvið hans eru nýsköpun í stjórnun fyrirtækja (e. management innovation), stefnumótun og innleiðing stefnu, straumlínustjórnun (e. lean) og aðferðir tengdar fyrirtækjakerfum, ferlastjórnun og stöðugum umbótum.

Þröstur Olaf Sigurjónsson

Þröstur Olaf Sigurjónsson

Dósent við viðskiptadeild HR. PhD

Dr. Þröstur Olaf Sigurjónsson er dósent við viðskiptadeild HR. Þröstur hefur kennt stefnumótun á grunn- og meistarastigi við háskólann um árabil. Hann hefur unnið að stefnumótun fyrir fyrirtæki í flestum atvinnugreinum, sem sjálfstæður ráðgjafi meðfram starfi sínu hjá HR og áður fyrir KPMG á Íslandi og PWC í Kaupmannahöfn.

Thoranna_Jonsdottir_ny-mynd

Þóranna Jónsdóttir

Ráðgjafi og lektor við viðskiptadeild HR. PhD

Þóranna hefur víðtæka reynslu af stjórnun og innleiðingu breytinga sem stjórnandi og ráðgjafi hjá stórum og smáum fyrirtækjum. Þóranna starfar í dag sem ráðgjafi og lektor við viðskiptadeild HR og er fyrrverandi forseti viðskiptadeildar HR. Þóranna var áður m.a. framkvæmdastjóri hjá Auði Capital og Vistor og hefur í meira en áratug sinnt kennslu á sviði markaðsmála, breytingastjórnunar, fyrirtækjamenningar, stjórnarhátta og gerð viðskiptaáætlana. Þóranna er með MBA gráðu frá IESE í Barcelona og doktorsgráðu í stjórnun frá Cranfield University í Bretlandi.
Ketill Berg Magnússon

Ketill Berg Magnússon

Framkvæmdastjóri Festu og stundakennari við HR. MBA

Ketill Berg er framkvæmdastjóri Festu, félags um samfélagsábyrgð fyrirtækja, stjórnendamarkþjálfi, kennari í viðskiptasiðfræði og samfélagsábyrgð við HR. Hann hefur yfir 10 ára reynslu sem mannauðsstjóri og sem stjórnendaráðgjafi. Ketill hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, s.s. stjórnarsetu í félagasamtökum, fagfélögum og fyrirtækjum. Ketill er MBA frá ESADE í Barcelona 2008, MA í heimspeki með sérhæfingu í viðskiptasiðfræði frá University of Saskachewan í Kanada 1997 og BA frá Háskóla Íslands 1993.
Valdimar Sigurðsson

Valdimar Sigurðsson

Prófessor við viðskiptadeild HR. PhD

Dr. Valdimar Sigurðsson er prófessor í markaðsfræði og neytendasálfræði við viðskiptadeild HR. Valdimar lauk doktorsprófi sínu við Cardiff University undir leiðsögn prófessors Gordon Foxall. Hann hefur birt fjölda greina og bókakafla, unnið til rannsóknarstyrkja og situr í ritstjórn ameríska sálfræðiritsins The Psychological Record. Valdimar hefur unnið með fjölmörgum fyrirtækjum í markaðsmálum bæði á Íslandi sem og erlendis.

Verð

Verð: 730.000 kr

Innifalið í verði eru öll námsgögn og veitingar alla dagana auk tveggja tíma í stjórnendamarkþjálfun.

Fylgigögn umsóknar:

Hverri umsókn þarf að fylgja ferilskrá sem tiltekur:

 • Menntun
 • Starfsferil
 • Stjórnendaferil

Hafðu samband


Lýdía Huld Grímsdóttir

Verkefnastjóri