Design Thinking

Stefnumótun með aðferðafræði hönnunar

Námskeiðslýsing

Í Design Thinking eru skapandi og stefnumótandi aðferðir notaðar til að auka samkeppnishæfni, ýta undir nýsköpun og viðhalda sífelldri þróun fyrirtækja. Áhersla Design Thinking stefnumótunar er á samkennd með viðskiptavinum eða notandum þjónustu þar sem ýmsar aðferðir, svo sem greining ferðalags viðskiptavina (e. Customer Journey Map), eru notaðar til að finna áskoranir og bæta þjónustu. Lagt er upp með að stefnumótun sé fyrst og fremst unnin með þarfir þeirra sem reksturinn á að þjóna í huga.

Sífellt fleiri fyrirtæki bætast í hóp þeirra sem tileinka sér Design Thinking en nýlega birtist umfjöllun í hinu virta tímariti Harvard Business Review þar sem vakin var athygli á Design Thinking vakningu meðal bandarískra fyrirtækja. Þar mátti m.a. finna viðtal við Indiru Noori, forstjóra Pepsi, en hún þakkar aðferðafræði Design Thinking gott gengi fyrirtækisins. 

Fjórir mikilvægir þættir einkenna aðferðafræðina:

  • Nýsköpun er samofin Design Thinking þar sem allt er hugsað upp á nýtt. Gríðarlega mikilvægur þáttur í því að fara fram úr væntingum viðskiptavina er að byggja ekki á því gamla, festast ekki í viðjum vanans, heldur finna hvaða leið er best út frá þörfum viðskiptavina eða notanda þjónustu.
  • Upplifun er farin að skipta neytendur gríðarlega miklu máli. Kröfur eru gerðar um það að fyrirtæki sjái fyrir og uppfylli þarfir, einfaldi líf viðskiptavina, séu samfélagslega ábyrg og skapi jákvæða upplifun meðal viðskiptavina og notenda.
  • Þverfagleg teymi eru kjarninn í aðferðafræði Design Thinking þar sem leitast er við að sprengja upp hið hefðbundna mengi í fyrirtækjum og stofnunum sem oft verður einsleitt.
  • Samkennd með notendum, viðskiptavinum og starfsfólki. Því miður er auðvelt að missa sjónar á því hverjum við viljum þjóna. Það að setja sig í spor viðskiptavina er eina leiðin til að lifa af í harðri samkeppni.


Í lok námskeiðsins er stefnt að því að þátttakendur:

  • Þekki aðferðafræði Design Thinking
  • Viti hverjir nota aðferðafræði Design Thinking og hvers vegna
  • Þekki helstu tæki og tól sem notuð eru í Design Thinking
  • Hafi beitt þekktum aðferðum Design Thinking í hópstarfi


Hér má finna viðtal við leiðbeinendur námskeiðsins, Þóreyju Vilhjálmsdóttur, ráðgjafa hjá Capacent, og Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, hönnuð, sem birtist í Frjálsri verslun þar sem ávinningi skapandi hugsunar við stefnumótun er lýst enn frekar. 

Skipulag

Tími: Auglýst síðar.

Lengd: 2x4 klst.

Staður: Opni háskólinn í HR, Menntavegi 1, 101 Reykjavík, Mars-álma, 2. hæð.

Vinsamlegast athugið að dagsetningar eru birtar með fyrirvara um að lágmarksþátttaka náist í námskeiðið.   

Leiðbeinendur

Mynd-af-leidbeinendum_Thoreyju-og-Hlin-Helgu

Þórey Vilhjálmsdóttir

Ráðgjafi hjá Capacent. MBA


Þórey (til hægri á mynd) er ráðgjafi í stefnumótun og stjórnun hjá Capacent. Hún býr yfir 20 ára reynslu af fyrirtækjarekstri, stjórnun, stefnumótun, viðskipta- og vöruþróun, nýsköpun og teymisvinnu. Þórey hefur einnig reynslu úr stjórnsýslu og stjórnmálum sem fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra og framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Þórey er einnig formaður ferðamálaráðs sem er iðnaðar- og viðskiptaráðherra til ráðgjafar í ferðaþjónustu. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands 2008-2009. Þórey er MBA frá HR og CEIBS viðskiptaháskóla Sjanghæ, Kína og BA í viðskiptafræði með áherslu á alþjóðaviðskipti frá Háskóla Íslands. Árið 2015 lauk hún vinnustofu í Design thinking stefnumótun við Harvard háskóla.

Hlín Helga Guðlaugsdóttir

Hönnuður og ráðgjafi hjá Capacent.


Hlín Helga (til vinstri á mynd) er hönnuður og ráðgjafi hjá Capacent. Hún er sérhæfð í upplifunar- og þjónusthönnun og hefur frá árinu 2009 gegnt stöðum við meistaranám í Experience Design við Konstfack University of Arts, Crafts and Design í Stokkhólmi og við meistaranám í hönnun við Listaháskóla Íslands. Að auki hefur hún kennt framtíðarrýni og nýsköpun hjá Stockholm School of Entrepreneurship. Hlín starfar einnig sjálfstætt sem curator og er félagi hjá alþjóðlegu hugveitunni W.I.R.E. Hún hefur tileinkað sér svokallaða heildræna Human-Centred Design aðferðafræði og Design Thinking til lausnar flókinna og fjölbreyttra áskorana samfélagsins og þverfaglegs samstarfs. Hún leiddi nýafstaðið verkefni af þessu tagi á Kvennadeild Landspítalans sem hlotið hefur talsverða athygli. Hlín er BA í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands og einnig í frönsku frá Háskóla Íslands. Auk þess er hún með diplómu í Evrópumálafræði frá Institut des Hautes Etudes Europeennes í Strasbourg.

 

Verð

Verð: 73.000 kr.

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika. 

Hafðu samband

Lýdía Huld Grímsdóttir

Lýdía Huld Grímsdóttir

Verkefnastjóri