Vinnsla og greining gagna

Námskeiðslýsing

Árangur skipulagsheilda í síbreytilegum heimi byggir í auknum mæli á greiningu gagna til stuðnings ákvörðunartöku. Það er því sífellt mikilvægara að átta sig á þeim verðmætum sem felast í gögnum, svo og að hafa kunnáttu á þeim aðferðum og verkfærum sem hægt er að nota við greiningu og framsetningu þeirra.

Kona stillir sér upp við skrifborð og horfir í myndavélina

„Námið veitir innsýn í helstu verkfæri sem í boði eru við greiningu og framsetningu gagna. Starf mitt felst að miklu leyti í spágerð og opnuðu námsloturnar, s.s. R-tölfræðiúrvinnsla, forritun og SQL-gagnagrunnar, augu mín á möguleikum til frekari gagnaúrvinnslu við gerð spáa. Helstu styrkleikar námsins felast í fjölbreytileika þess og áherslu á verkefnavinnu sem auka skilning á námsefninu.“

Svava Jóhanna Haraldsdóttir, sérfræðingur í rannsóknar- og spádeild á Hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabankans

Um námið

Nám fyrir þá sem vilja dýpka skilning sinn á aðferðum við vinnslu og greiningu gagna. Námið tekur á öllu greiningarferlinu, allt frá því að nálgast og vinna gögn í gagnasöfnum, undirstöðuatriði forritunar, greiningu með mismunandi verkfærum, svo og framsetningu þeirra. Námið byggir á fjölbreyttum kennsluaðferðum, raunhæfum verkefnum og þjálfum í notkun mismunandi verkfæra og aðferða.

Skipulag

Tími: Kennsla fer fram á þriðjudögum frá klukkan 9:00 - 15:00. 

Lengd:  Samtals132 klst. 
             Haustönn hefst 19. september og lýkur 28. nóvember 2017.
             Vorönn hefst 9. janúar og lýkur 20. mars 2018. 

Staður: Opni háskólinn í HR, Menntavegi 1, 101 Reykjavík, Mars-álma, 2. hæð. 
Nemendur þurfa ekki að taka tölvu með sér þar sem kennsla fer fram í tölvustofu Ú201.

Sjá nánari upplýsingar um kennsluáætlun 2017-2018  - Birt með fyrirvara um breytingar.

Kennsluáætlun

Viðskiptagreinarkerfi - val kerfa, 19. september 2017

Business Intelligence og Business Analytics, sem á íslensku nefnist viðskiptagreindarkerfi - val kerfa, tekur yfir vélbúnað, hugbúnað og aðferðafræði til greiningar á gögnum til stuðnings ákvarðanatöku. Námskeiðið kynnir ýmis hugtök, verkfæri og aðferðafræði  tengt viðskiptagreind.

 • Yfirlit yfir helstu hugök eins og viðskiptagreind, big data, greiningar, gagnasöfn og gagnagrunna
 • Upphaf og núverandi stöðu viðskiptagreindar sem og hvert stefnir.
 • Yfirlit yfir helstu hugbúnaðartegundir og markaðinn fyrir viðskiptagreins. 
 • Aðferðafræði og verkfæri við val og innleiðingu á viðskiptagreindarkerfum

Fyrirlestrar, umræður og lausn á verkefnum

Pivot töflur og gröf - Excel, 26. september 2017

Námskeiðið er fyrir þá sem notað hafa Excel en vilja færa kunnáttuna á næsta stig. Eins hentar það vel fyrir þá sem vilja ná meiru út úr OLAP / BI teningunum sínum. Námskeiðið er tvískipt: 

 • Fyrri hlutinn snýst um að greina töluleg gögn í pivot töflum. Það verður farið ítarlega yfir þá möguleika sem þar eru til staðar.
 • Seinni hlutinn snýst um birtingu gagna á myndrænu formi og yfirferð yfir helstu tegundir grafa og dæmi um hvar og hvenær þau eiga við.

Þekkingin er notuð til að búa til mælaborð í Excel.

Námskeiðið byggir á virkri þátttöku nemenda.

 Vöruhús gagna, 3. október 2017

Á námskeiðinu verður farið yfir helstu þætti vöruhúsa gagna og þær aðferðir sem hægt er að beita við undirbúning, uppbyggingu og rekstur þeirra svo sem:

 • Gagnalíkön
 • Samþættingu
 • Gagnaöryggi
 • Gæði gagna
 • Stjórnun stofngagna
 • Gagnamarkaðir
 • OLAP o.fl.

Fyrir hverja
Námskeiðið hentar sérstaklega upplýsingatæknistjórum, framkvæmdastjórum rekstrar- og tæknisviða, deildar-, verkefna-, vöru-, og þjónustustjórum, greinendum og öðrum sem eiga sitt starf undir skilvirkri upplýsingatækniþjónustu.

R- tölfræðiúrvinnsla, 10., 17. og 24. október 2017

R er opinn tölfræðihugbúnaður sem má setja upp á öllum stýrikerfum. Forritið er í örum vexti og er nú orðinn leiðandi tölfræðihugbúnaður í tölfræðirannsóknum bæði á Íslandi og víða erlendis.

Á námskeiðinu munu nemendur kynnast helstu kostum og sérstöðu R í samanburði við önnur þekkt forrit eins og Matlab, Excel, SAS og SPSS. Unnið verður í ritlinum Rstudio og í honum munu nemendur lesa inn og meðhöndla gögn fyrir frekari tölfræðilega úrvinnslu. Nemendur munu vinna gröf og töflur úr gögnunum, framkvæma helstu tölfræðipróf og smíða einföld líkön og herma frá þeim. Einnig verður farið í meðhöndlun tímaraða í R sem og almenna forritun og gerð falla í R.

Mikil áhersla er lögð á að tryggja að nemendur öðlist færni í beitingu þeirra aðferða sem kynntar eru. Ætlast er til þess að nemendur mæti með fartölvu í námskeiðið og munu þeir framkvæma tölfræðiúrvinnslu og skrifa eigin forrit jafnóðum og námsefnið er kynnt.

Að námskeiðinu loknu ættu þátttakendur að vera færir um að skrifa einföld forrit og framkvæma algengustu gerðir tölfræðiúrvinnslu í R.

Þetta meginviðmið má brjóta niður í eftirfarandi undirviðmið:

 • Innlestur gagna og gagnameðhöndlun í R.
 • Myndræn framsetning og töflugerð í R.
 • Framkvæmd helstu tilgátuprófa.
 • Grunnþekking á líkanagerð og hermunum.
 • Meðhöndlun tímaraða.
 • Forritun og gerð falla í R.

Power BI - Skýrslur og mæliborð, 31. október, 7. nóvember og 14. nóvember 2017

Power BI er verkfæri frá Microsoft til að búa til skýrslur og mælaborð með nútímalegu útliti og mikilli gagnvirkni. Forritið er bæði til sem skýjalausn og desktop lausn.

Á námskeiðinu verður farið yfir margvíslegar aðferðir til að setja fram gögn á myndrænan hátt og jafnframt útskýrt hvaða aðferðir eiga við hvaða gögn.

Námskeiðið nýtist öllum þeim sem vilja setja fram gögn með myndrænum hætti og með nútímalegum aðferðum.

Námskeiðið byggir á virkri þátttöku nemenda og er mikilvægt að allir mæti með Power BI desktop uppsett en það má nálgast án endurgjalds.

Að breyta gögnum í verðmætar upplýsingar, 21. og 28. nóvember 2017

Mikil verðmæti eru oft falin í þeim gögnum sem fyrirtæki hafa yfir að ráða um hegðunarmynstur viðskiptavina sinna. Þegar um mikið gagnamagn er að ræða getur hinsvegar reynst bæði flókið og tímafrekt verk að greina gögnin eftir hefðbundnum leiðum til að vinna úr þeim gagnlegar upplýsingar.

Markmiðið með þessu námskeiði er að kynna þátttakendum ýmiskonar aðferðir, tól og tæki til sjálfvirkrar tölvugreiningar á gögnum (e. data mining), og verður útskýrt hvernig slíkar aðferðir nýtast til að finna gagnleg mynstur í gögnum sem svo aftur nýtast til bættrar ákvörðunartöku.

Að námskeiði loknu ættu þátttakendur að skilja helstu undirstöðuatriði sjálfvirkrar gagnagreiningar og vera færir um að nota opinn hugbúnað til að framkvæma slíkar greiningar, m.a. til að:

 • búa til spálíkön út frá sögulegum gögnum (e. classification).
 • greina hegðun neytenda/ notenda, t.d. með tilliti til hvaða vörur eru keyptar saman (e. affinity analysis).
 • greina hópa og mynstur í félagslegum netum (e. social network analysis).
Vorönn:

SQL Gagnagrunnur, 9., 16., 23., 30. janúar og 6. febrúar 2018

Farið er yfir helstu atriðin við notkun á SQL gagnagrunni. Kennt verður að búa til töflur og view. Farið verður yfir fyrirspurnir og uppfærslur á gögnum. Aðaláhersla verður á fyrirspurnir.

Meðal annars verður farið yfir eftirfarandi atriði:·

 • Hvernig sækja á gögn bæði úr einni töflu og eins hvernig töflur eru tengdar saman í fyrirspurnum
 • Samantektar fyrirspurnir
 • Hlutfyrirspurnir
 • Hvernig á að bæta við gögnum, uppfæra og eyða
 • Farið í gegnum gagnatög sem Oracle býður upp á
 • Hvernig búa á til töflur og view
 • Farið yfir læsingar

Gert er ráð fyrir að nemendur hafi einhverja reynslu af því að vinna með gögn í tölvu, en ekki gert ráð fyrir neinni kunnáttu í SQL. 

Forritun,  13. 20. og 27. febrúar og 6. mars 2018

Notast verður við forritunarmálið Python til að kenna grunnatriði forritunar.

Meðal annars verður farið yfir eftirfarandi atriði:

 • Uppsetning Python þróunarumhverfisins;
 • Grunnatriði forritunar, þ.m.t. inntak/úttak, breytur, stýriskipanir og föll;
 • Grunngagnatög í Python, sér í lagi listar og færslur.
 • Gagnavinnsla í Python, þ.m.t. skráarvinnsla og tenging við gagnasöfn.

Ekki er gert ráð fyrir að þátttakendur hafi fyrri reynslu af forritun.

Verkefnastjórnun, 13. og 20. mars 2017

Verkefni eru orðin stór hluti af daglegri vinnu flestra nútíma fyrirtækja og stofnanna. Val á réttum verkefnum og stjórnun þeirra er því mikilvæg þekking fyrir millistjórnendur og stjórnendur. 

Markmið námskeiðsins er að kenna aðferðafræði verkefnisstjórnunar og byggist á fyrirlestrum sem fjalla m.a. um:

 • Hvert er hlutverk og áskoranir verkefnastjórans.
 • Val og forgangsröðun verkefna
 • Upphaf verkefnis, skilgreining og skipulag
 • Stjórnun verkefna
 • Lúkning verkefna

Þá verða ýmis tæki og tól kynnt. 

Stefnt er að því að nemendur:

 • Skilji hlutverk verkefna og verkefnisstjórnunar í nútíma rekstarumhverfi
 • Skilji samband tíma, umfangs og kostnaðar 
 • Geti forgangsraðað verkefnum
 • Geti undirbúið og afmarkað verkefni

Leiðbeinendur

Anna Helga Jónsdóttir

Anna Helga Jónsdóttir

Aðjúnkt í tölfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands

Hún lauk BS prófi í vélaverkfræði frá HÍ vorið 2003, meistarprófi í hagnýttri stærðfræði frá DTU haustið 2005 og doktorsprófi í tölfræði frá Háskóla Íslands 2015. Hún hefur kennt tölfræði við DTU og HÍ síðan vorið 2006 og komið að námsefnisgerð í báðum skólum. Sérsvið hennar er tölfræðikennsla og þróun kennsluhugbúnaðar.

Grímur Sæmundsson

Grímur Sæmundsson

Ráðgjafi hjá Deloitte

Kerfisfræðingur frá HR og MBA. Hann hefur starfað sem ráðgjafi í viðskiptagreind undanfarin 15 ár, m.a. hjá Annata, Applicon og Umoe Consulting í Osló. Grímur hefur langa reynslu af kennslu og þjálfun, bæði í tengslum við innleiðingar á viðskiptagreind og sjálfstæð námskeið.

Hera Grímsdóttir

Aðjúnkt og sviðstjóri byggingasviðs tækni- og verkfræðideildar við Háskólann í Reykjavík

Kjartan R Gu[mundsson

Kjartan R Guðmundsson

B.Sc. í tölvunarfræði, tölvunarfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu 

Oracle Certified DBA. 27 ára starfsreynsla við hugbúnaðargerð, þar af vinna við Oracle gagnagrunna frá 1991.

Sigrún Helga

Sigrún Helga Lund

Lektor í líftölfræði við miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands

Hún lauk BS prófi í stærðfræði frá HÍ vorið 2004 og doktorsprófi í tölfræði vorið 2014 við sama skóla. Hún hefur kennt stærðfræði og tölfræði við HÍ síðan haustið 2001. Sérsvið hennar er líftölfræði, lifunargreining og tölfræðiúrvinnsla í læknavísindum.
Páll Ríkharðsson

Páll Ríkharðsson

Forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík

Hann lauk doktorsprófi í viðskiptafræði árið 1997 frá Aarhus School of Business i Árósum í Danmörku og starfaði sem ráðgjafi hjá PwC á árunum 1994 til 2000. Þá tók hann við stöðu dósents í reikningshaldi og upplýsingatækni við Aarhus School of Business. Frá 2007 starfaði Páll sem ráðgjafi hjá tölvufyrirtækinu SAS Institute, PwC og Herbert Nathan & Co í Kaupmannahöfn. Frá 2012 tók Páll við stöðu dósents við Háskóla Reykjavíkur og er í dag forstöðumaður námsbrauta í upplýsingastjórnun (MIM), stjórnunarreikningsskilum (MABI), endurskoðun (MACC) og fjármálum (MCF). Páll hefur birt fjölda greina um m.a. viðskiptagreind, stjórnunarreikningsskil og innra eftirlit.

yngvi

Yngvi Björnsson

Deildarforseti við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR) og meðstjórnandi Gervigreindarseturs HR.

Hann er með PhD gráðu í tölvunarfræði frá University of Alberta, Kanada með gervigreind sem sérsvið. Hann hefur kennt fjölda námskeiða á sviði gervigreindar og sjálfvirkrar gagnagreiningar.


Verð

Verð: 475.000 kr.

Flest stéttarfélög niðurgreiða hluta námskeiðsgjalda fyrir sína félagsmenn. Opni háskólinn hvetur þig til að kynna þér þína möguleika.

Hafðu samband

Ingibjörg Sandholt

Ingibjörg Sandholt

VerkefnastjóriSækja um