Starfsráðgjöf og ferilskrár

Einstaklingsráðgjöf:

Sem nemandi eða fyrrum nemandi við HR gefst þér kostur á að hitta náms- og starfsráðgjafa. Þú getur m.a. fengið stuðning og leiðsögn varðandi:

 • Þróun starfsferils
 • Gerð ferilskrár og kynningarbréfa – Athugaðu að gott er að vera búin að sækja fyrirlestur um ferilskrár áður en þú biður um aðstoð.
 • Atvinnuviðtöl og aðra þætti umsóknarferlisins.

Náms- og starfsráðgjöf veitir einnig upplýsingar og ráðgjöf varðandi áhugasviðsgreiningar. Þá getum við að einhverju marki veitt upplýsingar um möguleika á framhaldsnámi og hverju það getur skilað í starfsframa.

Ferilskrárgerð:

Góður undirbúningur er lykillinn að velgengni, bæði við gerð ferilskráar og í atvinnuviðtali.

Leggðu vinnu í útlit og uppsetningu:

Það eykur líkurnar á að ferilskráin þín verði skoðuð nánar. Þú getur fundið mörg ferilskrárform í Word. Gott er að hafa sinn stíl og þora að standa með sjálfum sér. Myndin af þér verður að vera góð því það sést hverjir hafa lagt vinnu í ferilskrána sína. Berðu hugmyndir þínar undir aðra þótt sjálfsþekking skipti einnig miklu máli.

Leitið svara við spurningunum:

 • Hver er ég?
 • Hvaða eiginleikum og hæfileikum bý ég yfir?
 • Þekking og hæfni úr námi og fyrri störfum eða verkefnum.
 • Hverju hef ég áhuga á?
 • Hvert stefni ég eftir nám?
 • Framtíðarsýn.
 • Markmið.
 • Hvað hef ég fram að færa?

Ferilskráin á að vera áhugaverð og sönn lýsing á þér.

Gerðu þér grein fyrir væntingum fyrirtækja:
Draumastarfsmaðurinn er jákvæður, sveigjanlegur, með samskiptahæfni, vinnur vel í hópi, er fróðleiksfús, orkumikill. Sýnir snerpu er snyrtilegur, samviskusamur og hefur starfsreynslu og býr yfir þeirri menntun og þekkingu sem leitað er eftir. 

Þú þarft að hitta strax í upphafi og inngangstexti skiptir mjög miklu máli. Nýttu tækifærið vel.

Staðreyndirnar tala sínu máli, en það er gott að rökstyðja með dæmum, Það er því þitt að koma með eitthvað meira.

Hvað hefur þú fram að færa og hvernig getur þú rökstutt það? Hvað hefur þú fram yfir einhvern annan með sömu menntun? Hver er þinn „X-FACTOR"? Hvert er þitt rothögg?

Ferilskrá er ætlað að vera handhægt yfirlit yfir umsækjandann og þá þekkingu, færni og reynslu sem hann býr yfir og leiða í ljós hvað umsækjandi getur og hvað hann hefur gert, koma umsækjandanum í viðtal. Segðu alltaf satt og rétt frá. Ferilskráin er alltaf útgangspunktur í viðtali, þess vegna þarft þú að geta rökstutt og tekið dæmi. Þú þarft að vita hvert þú ert að stefna. Hvað skiptir máli og hvað ekki? Lagaðu ferilskrána þína að hverju fyrirtæki.

Ferilskráin er lifandi plagg, fer eftir starfi, fer eftir einstaklingnum og er í stöðugri vinnslu. Ef ferilskráin skilar þér ekki viðtölum, þá þarftu að bregðast við því.

Hámarkaðu upplýsingar og lágmarkaðu texta:

 • Nafn og upplýsingar
 • Inngangur
 • Menntun
 • Starfsreynsla
 • Tölvu- og tungumálakunnátta
 • Hæfni og önnur kunnátta
 • Annað
 • Umsagnaraðilar

Ferilskráin má ekki vera lengri en tvær blaðsíður. Vandaðu málfar og allan frágang. Hún á að vera vel upp sett, kjörnuð, villulaus, á góðu máli, persónuleg og alls ekki of löng. Láttu lesa hana yfir því ein villa er einni villu of mikið. Þú þarft að geta staðið við allt sem sett er fram. Ferilskráin þarf að vekja eftirtekt, á að vekja viðbrögð og kalla á framkvæmd.

Gagnlegir vefir:


Var efnið hjálplegt? Nei