Lestrartækni


SQ4R
Til eru ýmsar aðferðir við lestur.  Lestrarferlinu er oft skipt í nokkra þætti og algengt er að skipta því í þrennt:  Skimun, lestur og upprifjun.  Hér verður gerð grein fyrir amerískri aðferð sem kallast SQ4R (survey, question, read, recite, record og review).

Skimun : Survey (skoða)
Áður en byrjað er að lesa kaflann er mikilvægt að lesa inngang, skoða fyrirsagnir og lesa samantekt (summary) sem oft er í lok kafla.  Einnig er gott að skoða myndir, kort og gröf.
Þetta er gott að gera fyrir fyrirlestur og lesa svo ítarlega að honum loknum.

Lestur : Question (spyrja)
Eftir að kaflinn hefur verið skimaður er hann lesinn ítarlega og er þá gott að breyta fyrirsögnum í spurningar til þess að skerpa á athygli og einbeitingu.

Read (lesa), recite (endursegja) og record (skrá)
Gott er að skipta kaflanum í smærri hluta þegar lesið er og hafa í huga spurningarnar sem búnar voru til út frá fyrirsögnum.  Þegar hver partur hefur verið lesinn er gott að endursegja efnið með eigin orðum til að kanna skilning.  Mikilvægt er að vera virkur við lesturinn t.d. með því að glósa um leið og lesið er, nota yfirstrikunarpenna eða skrifa á spássíur.

Upprifjun : Review (endurskoða)
Upprifjun er einn mikilvægasti þátturinn í allri námstækni.  Að loknum lestri er nauðsynlegt að rifja upp og best er að gera það innan 24 tíma.   Með upprifjun er átt við að fara lauslega yfir efnið, lesa fyrirsagnir, glósur og athuga þannig hvort efnið situr eftir í megindráttum.

                 


Var efnið hjálplegt? Nei