Tímastjórnun
Tíminn er langdýrmætasta auðlind sem þú átt og því mikilvægt að þú gerir þér grein fyrir hvernig þú notar hann og stjórnar þínum eigin tíma.
Í einum sólarhring eru 24 klukkustundir. Ef þú skiptir þessum tíma niður í 3x8 klukkustundir má reikna með að þú notir 8 klukkustundir til að sofa, 8 klukkustundir í nám eða í vinnu og þá hefur þú 8 klukkustundir á dag til eigin afnota.
Mikilvægt er að skipuleggja tímann vel. Einn liður í skipulagningu námsins er að gera tímaáætlun. Einnig er Google Calendar hentugur kostur. Til að sú áætlun sé raunhæf er gott að byrja á dagbókarskráningu, þ.e. að skrá í lok hvers dags í hvað tímanum var varið. Mælt er með að skrá dagbók í eina til tvær vikur og að þeim tíma liðnum er gerð tímaáætlun út frá dagbókarskráningu. Mánaðardagatal getur hjálpað til með yfirsýnina.
Þumalputtaregla – gera má ráð fyrir að nemandi í fullu námi þurfi að verja 45-50 klukkustundum á viku í námið (skólasókn og heimavinna). Það getur þó verið breytilegt eftir álagi í náminu.