Hvað er prófkvíði?

Prófkvíði er tilfinning sem fylgir hræðslu við að mistakast þar sem próf eða mat fer fram.  Prófkvíðinn hamlar skynjun, árangri og getur heft próflestur og próftöku. Einstaklingurinn verður hræddur við að gera mistök og prófaðstæður verða ógnandi í huga hans.  Prófkvíði getur bæði komið fram í hegðun og hugsun einstaklingsins.

Hvað einkennir prófkvíða?

Einkenni prófkvíða geta bæði verið líkamleg og hugræn. Líkamleg einkenni geta til dæmis verið hraður hjartsláttur, sviti, óþægindi í maga, vöðvaspenna og svefntruflanir. Hugræn einkenni felast í því að hugsun einstaklingsins bjagast og veldur skekkjum í ályktunarferlinu. Hugsunin einkennist af niðurrifsshugsunum (ég er fallinn, hinir eru betri en ég, aðrir sjá vankunnáttu mína) í stað uppbyggjandi hugsana (ég er ágætlega undirbúinn, ég get þetta eins og aðrir, ég get náð þessu prófi).

Hvað get ég gert til að stjórna kvíðanum?

Öll hreyfing og gott skipulag vinnur á kvíða. Slökun og rétt öndun eru mikilvægir þættir og einnig er vert að huga að hugsuninni sem gjarnan vill bjagast við prófkvíða. Ef þú finnur að prófkvíði hamlar þér í námi þá er mikilvægt að bregðast strax við og leita eftir aðstoð. 

Hvert á að leita?

Hægt er að leita til náms- og starfsráðgjafa skólans og þeir geta tekið stöðuna með nemandanum, skoðað hversu hamlandi prófkvíðin er.  Sálfræðingar hafa flestir þjálfun í meðferð á kvíða svo og geðlæknar og geðhjúkrunarfræðingar. Einnig hafa yogastöðvar verið með námskeið gegn kvíða.


Var efnið hjálplegt? Nei