Í fókus

Umfjöllun um vísindafólk í HR

Á lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims kemur fram að á mælikvarða sem metur áhrif rannsókna, skorar Háskólinn í Reykjavík hæst, ásamt sex öðrum háskólum. Rannsóknarbirtingar starfsmanna HR hafa haft mikil áhrif í heimi vísindanna og langar okkur að kynna ykkur betur fyrir þessu fólki og þeim viðfangsefnum sem það er að fást við.


Aðferðin skiptir öllu máli

23.10.2020

Dr. Slawomir Koziel er prófessor við verkfræðideild HR. Slawomir kennir námskeið í rafmagnsverkfræði, þar á meðal rásagreiningu, hönnun rása og rafeindatækni og verkfræðilega bestun. 

Rannsóknarsvið hans eru töluleg líkanagerð og bestun, tölvustudd hönnun, sem og staðgöngumiðuð bestun reiknifrekra hermunarlíkana með hagnýtingu í hönnun örbylgjukerfa og loftneta, flugvélaverkfræði, vökvaaflfræði og öðrum greinum.

Slawomir Koziel er prófessor við verkfræðideild HR

Mætir eldsnemma

Slawomir beitir öguðum vinnubrögðum í rannsóknum sínum sem eiga samhljóm í daglegu lífi hans. Hann sýnir í öllum sínum daglegu verkefnum mikinn aga, hann nýtir tíma sinn vel og er einn öflugasti og afkastamesti vísindamaður háskólans. Með hans eigin orðum: „Það var blanda eðlisfræði og stærðfræði sem kom mér á þennan stað. Mér finnst samt rannsóknasviðið ekki skipta öllu máli heldur aðferðirnar.“

Bergmálslaust herbergi

Hann stundar meðal annars rannsóknir á rafsegulbylgjum í herbergi í kjallara háskólabyggingarinnar. Þetta er bergmálslaust rými (e. anechoic chamber) sem hefur verið sérhannað fyrir þarfir verkfræðideildar. Inni í bergmálslausa herberginu er hægt að bæla algjörlega endurvarp rafsegulbylgja inni í rýminu og þannig mæla eiginleika loftneta. Inni í klefanum eru tveir stöplar, einn með viðmiðunarloftneti og hinn með því loftneti sem á að prófa. Snúningi þessara turna er hægt að stjórna utan frá svo að hægt sé að skanna bæði tvívítt og þrívítt geislunarmynstur á fullkominn hátt. 

Slawomir Koziel að sinna rannsóknum í bergmálslausu rými í kjallara skólans.

Rannsóknir sem nýtast mörgum

Alls hefur verið vísað í rannsóknir Slawomirs í yfir 11 þúsund öðrum rannsóknum út um allan heim. Hann lauk MSc- og PhD-gráðu í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskólanum í Gdansk, Póllandi árin 1995 og 2000. Hann lauk jafnframt MSc-gráðum í kennilegri eðlisfræði og í stærðfræði árin 2000 and 2002 ásamt PhD-gráðu í stærðfræði árið 2003 frá Háskólanum í Gdansk. Stór hluti rannsóknarstarfs Slawomirs fer fram innan EOMC-rannsóknarsetursins (Engineering Optimization & Modeling Center) í verkfræðideild.