Aðferðin skiptir öllu máli
23.10.2020
Dr. Slawomir Koziel er prófessor við verkfræðideild HR. Slawomir kennir námskeið í rafmagnsverkfræði, þar á meðal rásagreiningu, hönnun rása og rafeindatækni og verkfræðilega bestun.
Rannsóknarsvið hans eru töluleg líkanagerð og bestun, tölvustudd hönnun, sem og staðgöngumiðuð bestun reiknifrekra hermunarlíkana með hagnýtingu í hönnun örbylgjukerfa og loftneta, flugvélaverkfræði, vökvaaflfræði og öðrum greinum.
Slawomir Koziel er prófessor við verkfræðideild HR
Mætir eldsnemma
Slawomir beitir öguðum vinnubrögðum í rannsóknum sínum sem eiga samhljóm í daglegu lífi hans. Hann sýnir í öllum sínum daglegu verkefnum mikinn aga, hann nýtir tíma sinn vel og er einn öflugasti og afkastamesti vísindamaður háskólans. Með hans eigin orðum: „Það var blanda eðlisfræði og stærðfræði sem kom mér á þennan stað. Mér finnst samt rannsóknasviðið ekki skipta öllu máli heldur aðferðirnar.“

Bergmálslaust herbergi
Hann stundar meðal annars rannsóknir á rafsegulbylgjum í herbergi í kjallara háskólabyggingarinnar. Þetta er bergmálslaust rými (e. anechoic chamber) sem hefur verið sérhannað fyrir þarfir verkfræðideildar. Inni í bergmálslausa herberginu er hægt að bæla algjörlega endurvarp rafsegulbylgja inni í rýminu og þannig mæla eiginleika loftneta. Inni í klefanum eru tveir stöplar, einn með viðmiðunarloftneti og hinn með því loftneti sem á að prófa. Snúningi þessara turna er hægt að stjórna utan frá svo að hægt sé að skanna bæði tvívítt og þrívítt geislunarmynstur á fullkominn hátt.

Rannsóknir sem nýtast mörgum
Alls hefur verið vísað í rannsóknir Slawomirs í yfir 11 þúsund öðrum rannsóknum út um allan heim. Hann lauk MSc- og PhD-gráðu í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskólanum í Gdansk, Póllandi árin 1995 og 2000. Hann lauk jafnframt MSc-gráðum í kennilegri eðlisfræði og í stærðfræði árin 2000 and 2002 ásamt PhD-gráðu í stærðfræði árið 2003 frá Háskólanum í Gdansk. Stór hluti rannsóknarstarfs Slawomirs fer fram innan EOMC-rannsóknarsetursins (Engineering Optimization & Modeling Center) í verkfræðideild.