Í fókus

Umfjöllun um vísindafólk í HR

Á lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims kemur fram að á mælikvarða sem metur áhrif rannsókna, skorar Háskólinn í Reykjavík hæst, ásamt sex öðrum háskólum. Rannsóknarbirtingar starfsmanna HR hafa haft mikil áhrif í heimi vísindanna og langar okkur að kynna ykkur betur fyrir þessu fólki og þeim viðfangsefnum sem það er að fást við.


Búa til bein úr afgangs eggjaskurn

9.8.2021

Hafið þið einhvern tímann vel fyrir ykkur hvað verður um alla eggjaskurnina sem fellur til á kjúklingabúum? Um fjórðungur allra eggja í Evrópu er brotinn til að framleiða vörur sem innihalda egg og hlutfallið er enn hærra í Bandaríkjunum.

Vísindafólk frá fjórum löndum freistar nú þess að nýta afgangs eggjaskurn sem fellur til á eggjabúum til þess að þróa úr henni lífstoðefni sem nota má í læknisfræðilegri meðferð t.d. við meðhöndlun á erfiðum beinbrotum og kjálkaviðgerðum.

Fyrstu niðurstöður eftir þrjú ár

Verkefnið er samstarf milli verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík, tannlæknadeildar Háskólans í Osló, Tækniháskólans í Riga og Tækniháskólans í Tallinn. Það hlaut nýlega milljón Evra styrk úr EEA-rannsóknaráætluninni og eiga grunnniðurstöður að liggja fyrir eftir þrjú ár. Í framhaldi af því verður kannað hvort hægt sé að fara með afurðina á markað og kanna not hennar í læknisfræðilegum tilraunum.

Ólafur Eysteinn Sigurjónsson (Óli), prófessor í vefjaverkfræði við verkfræðideild, er í stýrihóp verkefnisins og stýrir þeim hluta sem fer fram á Íslandi, en flestar lífvirknimælingarnar verða framkvæmdar af rannsóknarhópi hans í HR og Blóðbankanum.

Dr. Ólafur Eysteinn Sigurðsson

Ólafur segir þetta spennandi verkefni falla vel inn í nýjungar sem kynntar hafa verið inn í verkfræði með heilbrigðisverkfræði á undanförnum árum. „Hérna erum við að beita því sem við köllum vefjaverkfræði en það er fag sem fjallar um hvernig við getum hannað og smíðað líffæri í framtíðinni.“


Styrkja beinvefi

„Við munum reyna að nýta eggjaskurnina sem hráefni til að útbúa (Amorphous Calcium Phosphate, ACP) lífstoðefni úr kalsíum fosfati, en hugmyndin er sú að það efni geti komið í staðinn fyrir ólífræna hluta beinvefjar. Þetta verður gert með því að nota lífstoðefnið til að mynda burðarvirki sem beinvefurinn verður svo látinn vaxa utan á.“

Hann segir þetta ekki ólíkt því þegar byggt er hús. Byrjað er á grindinni sem heldur uppi húsinu og svo er bætt við lögnum, einangrun og öðrum þáttum, sem í þessu tilviki verði lifandi vefur myndaður af stofnfrumum.

„Til að endurvinna að fullu þetta afgangs efni verður prótein unnið úr himnunni sem er að finna innan á skurninni en hún inniheldur meðal annars lífvirk efni sem hafa bakeríudrepandi eiginleika og er hugmyndin að húða APC-burðavirkin með þeim til að draga úr líkunum á bakeríuvexti í burðarvirkjunum. Eitt af stærstu vandamálum við burðarvirki sem eru sett inn í líkamann er einmitt bakteríuvöxtur sem oft leiðir til þess að vefurinn skemmist með tíð og tíma.“

Lesa meira: