Í fókus

Umfjöllun um vísindafólk í HR

Á lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims kemur fram að á mælikvarða sem metur áhrif rannsókna, skorar Háskólinn í Reykjavík hæst, ásamt sex öðrum háskólum. Rannsóknarbirtingar starfsmanna HR hafa haft mikil áhrif í heimi vísindanna og langar okkur að kynna ykkur betur fyrir þessu fólki og þeim viðfangsefnum sem það er að fást við.


Getur símanotkun þín ákveðið greiðslugetu vegna íbúðakaupa?

27.3.2020

Þegar fólk vill ráðast í kaup á fasteign og sækja um lán fyrir henni er venjulega leiðin til að meta greiðsluhæfni þess að sjá yfirlit yfir reikninga og laun. Það eru þó um tveir milljarðar manna í heiminum sem hafa ekki bankareikninga og hafa því ekki aðgang að fjármagni.

„Þessi hefðbundna leið til að ákveða greiðslugetu virkar semsagt ekkert fyrir alla,“ segir dr. María Óskarsdóttir, lektor við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Hún hóf störf við HR í ágúst síðastliðnum eftir að hafa stundað doktorsnám og verið nýdoktor við háskólann KU Leuven í Belgíu undanfarin ár. „Til dæmis er ég nýflutt hingað aftur og hef ekki gögnin sem þarf til að fara í greiðslumat, þannig að það má líka segja að ég tali af eigin reynslu.“

Markmiðið að aðlaga þjónustu bankanna

Fjártækni

Í doktorsnámi sínu rannsakaði María nýtingu símagagna til að meta greiðslugetu fólks. Þetta eru svokölluð CDR-gögn (e. Call Detail Records) sem símafyrirtæki hafa aðgang að til að geta búið til reikninga fyrir notkuninni. „Þetta eru upplýsingar um hversu mikið þú hringir og slíkt. Það hvernig þú notar símann þinn segir mikið um hvernig manneskja þú ert.“ Rannsóknirnar miða því að því að aðlaga þjónustu banka og annarra fyrirtækja að öllum, sama í hvaða þjóðfélagshópi og sama hvar þeir eru staddir í heiminum.

Við notuðum gögnin til að sjá hvenær fólk er að hringja, hvenær vikunnar, í hversu marga mismunandi og hversu títt. Þetta eru breyturnar sem við notuðum til að spá fyrir um greiðsluhæfni og þetta er flókið samspil margra breyta. Við sáum að þær voru alveg jafngóðar og jafnvel betri en þessar dæmigerðu bankabreytur.

"Credit Scoring for Good"

Það má því segja að hegðun notandans segi til um greiðsluhæfni hans? „Já, eiginlega enda segir hegðun þín til um hversu líkleg þú ert til að borga reikningina þína. Það eru margir sem velta fyrir sér hvort þetta séu ekki eins og persónunjósnir! En fólk þarf að gefa samþykki sitt fyrir notkun gagnanna og gefa frjálsri hendi, það myndi alltaf vera þannig að þetta sé þitt val. Þetta kallast credit scoring for good, við erum að hjálpa fólki sem þarf á því að halda. Ef þetta væri notað í bönkunum hér hefði ég getað við flutninginn heim gefið símagögnin mín til vinnslu greiðslumats.“

_00A0822

Til dæmis væri hægt að nýta þessa aðferð þannig að einstaklingur myndi gefa samþykki fyrir notkun gagna úr sínum síma hjá bankanum, þriðji aðili myndi vinna úr þeim og selja upplýsingarnar til bankans. „Þetta er gert í dag, það eru til gagnafyrirtæki úti í heimi sem vinna gögn fyrir viðskiptavini, meðal annars banka.“ María segist hafa verið í viðræðum við fyrirtækið CreditInfo og myndi vilja þróa möguleika á gagnavinnslu með símagögnum í samstarfi við þau.

Samfélagsnet sýna gögnin

Sérsvið er Maríu eru gagnavísindi, gagnagreining og vélnám. „Ég sérhæfi mig í tengingunni á milli mjög háþróaðra aðferða í gagnavísindum og hvernig má nota þær til að bæta daglegt líf.“ María ætlar kenna þriggja vikna kúrs á vorönn 2020 um netavísindi. „Ég vann mikið með samfélagsnet (e. social network) í doktorsnáminu en það eru net sem hægt er að láta birtast myndrænt og nýta í hagfræði og læknisfræði til dæmis. Þá sér maður gögnin með skýrum hætti og hvað þau segja okkur varðandi tengsl milli landa í hagfræði og hvernig sjúkdómar berast manna á milli í læknisfræði.“