Kaup á flugmiða er samningsgerð
5.5.2020
Lög hvaða lands gilda?
„Almennt vita nemendur ekki mikið um þessa fræðigrein innan lögfræðinnar,“ segir Aníta Auðunsdóttir, meistaranemi við lagadeild, sem vinnur að rannsókn á sviði alþjóðlegs einkamálaréttar en það réttarsvið gengur einnig undir nafninu lagaskilaréttur. Í rannsókninni skoðar hún samninga sem einstaklingar gera við flugfélög, lögsöguna, og lög hvaða lands eiga við ef ekki er staðið við þessa samninga. Lögsaga og lagaval í tengslum við farmflutningssamninga í lagaskilarétti hefur ekki verið rannsakað áður og því má segja að um tímamótarannsókn sé að ræða.
Tímaspursmál hvenær reynir fyrst á
„Þegar einstaklingar kaupa sér flugmiða gera þeir samning við flugfélagið um að koma sér og farangri sínum á áfangastað. Það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir þessu,“ segir Aníta. Í slíkum samningi eru að minnsta kosti tengsl við tvö lönd, það er, landið þar sem farþeginn fer um borð í vélina og svo áætlaður áfangastaður.
Í mörgum tilvikum er farþeginn erlendur ríkisborgari eða með heimilisfesti erlendis, samningur um kaup á flugmiða fer fram erlendis og jafnvel í gegnum fjarskiptabúnað en allt framangreint leiðir til tengsla við enn fleiri lönd. Svo ef flug fellur niður eða taska skemmist eða týnist þá er um að ræða vanefnd á þessum samningi. Í þessum tilvikum er lykilatriði að heimfærsla til réttarsviðs sé rétt.
Taka þarf afstöðu til lagavals vegna vanefnda á samningi. Umfjöllunin lýtur að því hvort fullnægjandi sé fyrir flugfélag að fella inn í flugmiðakaup tilvísun í ákvæði hins alþjóðlega Montreal samnings sem ákvarðar hlutlægar skaðabætur eins og þegar taska týnist. Það er því álitamál hvort búið sé að semja um lagavalið í samningnum.
„Rannsóknin hefur mikla þýðingu fyrir íslensk flugfélög enda tímaspursmál hvenær reynir fyrst á þessi álitaefni,“ segir Aníta. „Réttarreglur um álitaefnin eru mismunandi eftir löndum og því mikilvægt fyrir aðila að búið sé að semja um lög hvaða lands eigi að gilda. Einnig skiptir miklu máli að skoða hvort dómstólar kynnu að líta svo á að réttarsamband fari eftir reglum skaðabótaréttar þannig að lög nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar eigi ekki við.“