Á lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims kemur fram að á mælikvarða sem metur áhrif rannsókna, skorar Háskólinn í Reykjavík hæst, ásamt sex öðrum háskólum. Rannsóknarbirtingar starfsmanna HR hafa haft mikil áhrif í heimi vísindanna og langar okkur að kynna ykkur betur fyrir þessu fólki og þeim viðfangsefnum sem það er að fást við.
Mannlegur sýndarveruleiki í svartholi
27.3.2020
Við tengjum tölvunarfræði oftast við vélbúnað, hugbúnað og kóða. Vissulega er þetta það sem fagið snýst að miklu leyti um en það eru miklu fleiri hliðar á tölvunarfræði.
Til dæmis er verið að rannsaka mannlega hegðun og áhrif umhverfis á manneskjur innan HR í rannsóknarstofu sem heitir Svartholið.
Hannes Högni Vilhjálmsson er dósent við tölvunarfræðideild HR og hefur leitt mörg spennandi verkefni á sviði gervigreindar og sýndaveruleika, oftar en ekki í samvinnu við nemendur.
Eitt af því sem er sérstakt við tölvunarfræðina er að hún tengist nánast öllum öðrum greinum á einhvern hátt. Tæknin er allstaðar og það þarf að vinna hana út frá forsendum þeirra sem nýta hana. Tölvunarfræði getur því allt eins snúist um fólk eins og tölvur.
Sýndarnemandi fyrir kennsluþjálfun
Hannes Högni stundar rannsóknir við Gervigreindarsetur HR (CADIA). Þar er rannsóknarrýmið Svartholið mikið notað en þar hefur verið sett upp fullkomin rannsóknarstofa í sýndarveruleika.
Flest rannsóknarverkefni mín við eru þverfagleg og ég vinn með vísindamönnum úr sálfræði og öðrum greinum.
Hann tekur sem dæmi hvernig sýndarveruleiki og sýndarnemandi eru notuð til að þjálfa kennara í kennsluaðferðum sem hentar krökkum með einhverfu eins og til dæmis Discrete Trial Training (aðskildum kennsluæfingum). „Kennararnir fara inn í sýndarkennslustofu þar sem þeir sitja á móti sýndarnemandanum. Þeir þurfa að sýna hluti í ákveðinni röð á borði og biðja nemandann um að bera kennsl á þá. Kennarinn þarf síðan að veita ákveðna endurgjöf og skrá hjá sér árangur jafn óðum. Þetta getur verið flókið og því er gott að geta æft sig á nemanda sem þreytist aldrei.“
Kennararnir fara inn í sýndarkennslustofu þar sem þeir sitja á móti sýndarnemandanum.
Samskipti bætt með félagshermi
Það má segja að náms- og rannsóknaferill Hannesar hafi frá upphafi snúist um manneskjuna og félagsfræði í bland við nýjustu tækni. Með grunn í tölvunarfræði fór hann í framhaldsnám til Bandaríkjanna í miðlunarlistum og -vísindum. „Bakgrunnur leiðbeinanda míns í doktorsnáminu var sálfræði og málvísindi og við vorum að búa til sýndarmanneskjur. Eftir doktorsnámið gerðist ég tæknilegur verkefnastjóri í stóru verkefni sem gekk út á að búa til félagshermi þar sem sýndarmanneskjur voru notaðar til að þjálfa fólk í samskiptum á framandi tungumáli og í framandi menningarumhverfi.“
Byggja nýjan miðbæ í sýndarveruleika
Í verkefninu „Sjálfbærar borgir framtíðarinnar“ er sýndarveruleikinn notaður til að mæla sálræn áhrif borgarumhverfis á fólk áður en farið er út í framkvæmdir. „Þannig er hægt að taka ákvarðanir um skipulag og arkitektúr út frá beinhörðum mælingum á væntanlegum áhrifum á líðan og heilsu.“ Þegar sýndarveruleikagleraugun eru sett upp er þátttakandinn staddur í miðjum bænum og getur ferðast um umhverfið, umkringdur nýjum byggingum.
Hluti af verkefninu Sjálfbærum borgum var að búa til nýjan miðbæ á Djúpavogi í sýndarveruleika en nýtt deiliskipulag hefur verið í vinnslu fyrir bæinn undanfarin ár. „Tilgangurinn er að safna gögnum. Þannig getum við komið sálfræðilegum þáttum með auðveldari hætti inn í hönnunarferlið.“
Eitt af því sem er sérstakt við tölvunarfræðina er að hún tengist nánast öllum öðrum greinum á einhvern hátt.