Í fókus

Umfjöllun um vísindafólk í HR

Á lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims kemur fram að á mælikvarða sem metur áhrif rannsókna, skorar Háskólinn í Reykjavík hæst, ásamt sex öðrum háskólum. Rannsóknarbirtingar starfsmanna HR hafa haft mikil áhrif í heimi vísindanna og langar okkur að kynna ykkur betur fyrir þessu fólki og þeim viðfangsefnum sem það er að fást við.


Njóta verk gervigreindar lögverndar?

8.5.2020

Lara-Herborg-

Lára Herborg Ólafsdóttir, stundakennari við lagadeild HR, og Sindri M. Stephensen, lektor við sömu deild, skrifuðu nýlega grein í Tímarit lögfræðinga um höfundarétt á verkum sem sköpuð eru með gervigreind.

Lára lauk meistaranámi við Berkeley-háskóla í Kaliforníu árið 2018, en þar sérhæfði hún sig í hugverka- og tæknirétti. Það ár heimsótti Sindri háskólann sem gestafræðimaður og fékk að kynnast kennslu og rannsóknum sem þar eru stundaðar.

Kísildalurinn er fyrirmynd

Þau segja að starfsemi í norðanverðri Kaliforníu og í nánd við Kísildalinn sé leiðandi fyrir tækniþróun á heimsvísu. Háskólarnir á þessu svæði hafi tekið virkan þátt í þeim breytingum sem orðið hafa á okkar daglega lífi sökum tæknibyltingarinnar. Í lögfræðilegum rannsóknum í Bandaríkjunum sé fylgst vel með þróun hinna ýmsu tækninýjunga og leitast við að greina þau lögfræðilegu álitaefni sem tengjast tæknibyltingunni.

Okkar markmið með ritun greinarinnar um gervigreind og höfundarétt var að taka fyrir afmarkað álitaefni sem er í deiglunni um heim allan og rannsaka það út frá íslenskum rétti. Eflaust mun slíkum rannsóknum fjölga hér á landi á næstu misserum“, segja Lára og Sindri.

Nýtt námskeið í HR um tækni- og tölvurétt

Víða erlendis hefur samspil tæknigreina og lögfræðinnar færst í aukana. „Þessar greinar þurfa að geta talað saman. Það er eftirsóknarvert að einstök fræðasvið hafi meira samstarf sín í milli í HR hvað varðar rannsóknir af umræddum toga, enda hefur skólinn vísindamenn í fararbroddi í gervigreind og öfluga lagadeild,“ segir Lára. Búið er að taka fyrstu skrefin að því en Lára kennir meðal annars nýtt námskeið á meistarastigi um tækni- og tölvurétt.

Vélmenni spilar á hljómborð

Mynd eftir Franck V. á Unsplash.

Þarf að leita í grunnsjónarmið höfundaréttar

Í grein Láru og Sindra er fjallað um hvort og þá hvers konar réttarverndar verk, svo sem myndverk og tónlistarverk, sem að miklu leyti eru samin fyrir tilstilli gervigreindar, njóta samkvæmt íslenskri löggjöf. Höfundaréttur tryggir rétt þess sem skapar listaverk til þess að fá endurgjald fyrir notkun verksins. En hvernig er þetta með verk sem verða til með gervigreind - eru þau lögvernduð líkt og ef einstaklingur af holdi og blóði hefði búið þau til?

Hér á landi er höfundaréttur að mestu leyti skilgreindur með sams konar hætti og í flestum öðrum löndum í heiminum, en sú skilgreining á rætur að rekja til Bernarsáttmálans, sem er að stofni til frá 19. öld.

Í Bernarsáttmálanum sem og íslenskum lögum er tekið fram að höfundaréttur taki til verka manna. Þá vaknar sú spurning hvort menn eignist rétt yfir verkum gervigreindar ef þeir sáu ekki fyrir verkið sem gervigreindin útbýr. 

Þá þarf maður í raun að leita í grunnsjónarmið höfundaréttarins sem eru að vernda andlega sköpun. Þegar engir einstaklingar standa að baki þeirri afurð sem kemur frá gervigreind þá má segja að grunnsjónarmið höfundaréttarins styðji ekki lögvernd hennar“, segir Sindri.

Sindri-Stephensen

Er gervigreindin tækið eða skaparinn?

Það skiptir máli í þessu samhengi hvernig gervigreindin er notuð. Er hún tól til sköpunar eða skaparinn sjálfur? Af dæmum sem þau hafa rannsakað segja þau Lára og Sindri í greininni að til þess að afurðir gervigreindar njóti höfundaréttar verði að gera þær kröfur að fyrir hendi sé framlag einstaklings sem hefur átt ótvíræðan þátt í gerð verksins þannig að greina megi sjálfstætt framlag hans, höfundareinkenni og frumleika.

„Segjum sem svo að gervigreind búi til tónstef án aðkomu einstaklings og sá sem kemur að gerð og þjálfun gervigreindarinnar hafi ekki með nokkru móti getað séð fyrir hvernig verkið yrði. Þá er í raun enginn einstaklingur sem semur stefið heldur gervigreindin sjálf. Slíkt tónstef myndi vart njóta höfundaréttar í hefðbundnum skilningi. En ef ég breyti stefinu eða aðlaga það og sem texta? Þá er komið einstaklingsbundið framlag í verkið sem nýtur höfundaréttar“, segir Lára.

Aftur í grunninn

„Okkur langaði að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að vekja athygli á lagalegum álitaefnum er tengjast tækniþróun og skoða þau út frá íslenskum rétti. Það sem er skemmtilegt við rannsóknir af þessum toga er að fáar úrlausnir dómstóla lúta beinlínis að þessum álitaefnum en leita má í rótgróin grunnrök að baki hinum ýmsu réttarsviðum til þess að svara spurningum um ný lagaleg álitaefni“, segja þau Lára og Sindri að lokum.