Í fókus

Umfjöllun um vísindafólk í HR

Á lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims kemur fram að á mælikvarða sem metur áhrif rannsókna, skorar Háskólinn í Reykjavík hæst, ásamt sex öðrum háskólum. Rannsóknarbirtingar starfsmanna HR hafa haft mikil áhrif í heimi vísindanna og langar okkur að kynna ykkur betur fyrir þessu fólki og þeim viðfangsefnum sem það er að fást við.


Nota grunnlögmál hegðunar til að bæta lífsgæði

18.1.2021

„Við skoðum samspil hegðunar og umhverfis og vinnum þannig að því að bæta lífsgæði fólks“ segir Hanna Steinunn Steingrímsdóttir, dósent í hagnýtri atferlisgreiningu við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík. „Það er örstutta lýsingin!“

Veturinn 2019-2020 reið sálfræðideild HR á vaðið og varð fyrsta sálfræðideild hér á landi til að bjóða upp á framhaldsmenntun í hagnýtri atferlisgreiningu (Applied Behavior Analysis). En hvað er atferlisgreining og í hverju felst hagnýting hennar?

Hanna Steinunn segir atferlisgreiningu, vísindi hegðunar, vera tiltölulega ungt fag miðað við mörg önnur. „Einn helsti frumkvöðullinn á þessu sviði er B. F. Skinner, prófessor við Harvard-háskóla. Hann gerði fjölmargar rannsóknir og fann þannig ákveðin grunnlögmál hegðunar.“ 

Hanna-Steinunn-2-

Síðan þá hafi mikið vatn runnið til sjávar og skilningur okkar á samspili hegðunar og umhverfis hefur aukist til muna. Hingað til hefur þurft að sækja framhaldsmenntun á þessu sérsviði utan landsteinana og sjálf fór Hanna Steinunn til náms í Noregi árið 2007 að loknu grunnnnámi í sálfræði.

Í dag eru atferlisfræðingar starfandi á ýmsum sviðum, meðal annars innan menntakerfisins, heilbrigðiskerfisins og í mannauðsmálum. „Við nýtum gagnreyndar aðferðir með það að leiðarljósi að auka lífsgæði, sjálfstæði og sjálfræði einstaklinga í samvinnu við einstaklingana sem um ræðir eða þeirra nánustu þegar það á við. Þetta er hagnýting þessara vísinda, þessarar þekkingar á grunnlögmálum hegðunar.“


Út frá einstaklingnum sjálfum

Í þessu fagi, rétt eins og í almennri klinískri sálfræði, eru strangar siðareglur. Til að mynda geta atferlisfræðingar unnið með einstaklingum sem eiga erfitt með að tjá sig og þá skiptir öllu máli að fyrsta skrefið sé að skilja þarfir einstaklingsins og óskir. „Útgangspunkturinn er því ávallt einstaklingurinn og hans þarfir og svo skiptir máli að þær aðferðir sem eru notaðar séu bæði viðeigandi og gagnreyndar,“ segir Hanna Steinunn.

Mikil eftirspurn eftir atferlisfræðingum

Námskeið á meistarastigi í hagnýtri atferlisgreiningu hafa verið kennd í meistaranáminu í klínískri sálfræði frá því það nám var stofnsett við sálfræðideild. Vonir stóðu þó alltaf til þess að stofna námsbraut til sérhæfingar á þessi sérsviði enda er gríðarleg eftirspurn eftir fólki með þessa menntun á mörgum sviðum þjóðfélagsins.

Efling rannsókna var og er eitt af leiðarljósunum við þróun námsins ásamt því að mæta ströngustu alþjóðlegum kröfum. Sjálf hefur Hanna Steinunn mikinn áhuga á grunnrannsóknum innan atferlisgreiningar sem tengjast áreitisstjórnun (stimulus control) og áreitisjöfnun (stimulus equivalence). Hún hefur meðal annars gert rannsóknir með einstaklingum með heilabilun. „Í þessum rannsóknum höfum við til dæmis skoðað möguleikann á að hjálpa einstaklingum sem þess óska að muna nöfn sinna nánustu.“

Einnig hefur hún mikinn áhuga á nýtingu hagnýtrar atferlisgreiningar í vinnu með öldruðum en rannsóknir sýna að jafnvel einfaldar áherslubreytingar í umhverfi einstaklinganna geti haft mikil og jákvæð áhrif.

Byggja upp öflugt rannsóknastarf

Stefnan er að bjóða nemendum HR að gera rannsóknir á mörgum sviðum atferlisgreiningar svo þeir geti öðlast góða þekkingu á grunnlögmálum hegðunar og hagnýtingu þeirra. „Í mörgum tilvikum er þetta spennandi frumkvöðlastarf hérlendis hjá bæði kennurum og nemendum. Við viljum efla meistaranema í að taka þátt í rannsóknarverkefnum kennaranna en jafnframt fjölmörgum öðrum rannsóknum sem verið er að sinna eða koma með hugmyndir sjálfir. Meistaranemarnir eru mikilvægur hluti í öflun nýrrar þekkingar á þessu fræðasviði á Íslandi.“