„Það eru allir að reyna að bæta heiminn“
27.3.2020
„Ég er bjartsýnismaður. Tæknin sem við höfum fundið upp hingað til hefur reynst okkur vel.“
Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við tölvunarfræðideild, er vanur því að viðmælendur hans séu uggandi yfir tali um fjórðu iðnbyltinguna enda segja sérfræðingar að við munum upplifa meiri breytingar næstu áratugi en við höfum síðastliðnar aldir.
Það er ef til vill ekki undarlegt að maður hugsi: Hvað þýðir þetta hugtak? Hvað verður um störfin okkar? Munum við láta stjórnast af tölvum?
Byltingar hver annarri líkar
Ólafur Andri er höfundur bókarinnar Fjórða iðnbyltingin sem kom út nýlega á vegum Almenna bókafélagsins. Þar fer hann yfir viðhorf til tækni í gegnum tíðina, möguleikana, gervigreindina, róbotana og sögu byltinga og margt fleira.
„Þ
að er nefnilega mikilvægt að horfa til baka um leið og við horfum til framtíðarinnar. Iðnbyltingar eiga svo margt sameiginlegt. Fyrst hræðist fólk breytingarnar, fer í vörn og telur þær hættulegar en sagan sýnir að þær hafa ávallt bætt líf okkar.“
Tæknin er til góða
Fólk hefur það betra í dag en nokkurn tímann áður. Ólafur Andri segir þetta óumdeilanlegt. „Gögn sýna þetta svart á hvítu, gögn sem allir hafa aðgang að. Hópur jarðarbúa sem býr í sárri fátækt hefur aldrei verið jafn fámennur, aldrei hafa jafn margir kunnað að lesa - og aldrei jafn margar stúlkur - og skapandi verkefni eins og tónsmíðar hafa aldrei verið á höndum fleiri og það sem skiptir gríðarlegu máli er að aðgangur að lyfjum og heilbrigðisþjónustu á heimsvísu hefur aldrei verið betri. Búið er að svo gott sem útrýma mannskæðum sjúkdómum eins og bólusótt og lömunarveiki.“
Slá á hendurnar á Facebook
Það má segja að það ríki ákveðin svartsýni í þjóðfélaginu þegar kemur að nýrri tækni sem lýsir sér meðal annars í áhyggjum yfir vaxandi notkun barna á snjalltækjum, netvæðingu allra hluta í kringum okkur og því sem líkist persónunjósnum á samfélagsmiðlum. „Tæknibreytingar kalla á viðbrögð. Núna er verið að banna Facebook að gera alls konar hluti sem fyrirtækið hefur fengið að gera óárétt í mörg ár eins og að afhenda fyrirtækjum persónuupplýsingar. Evrópusambandið og mörg fylki Bandaríkjanna hafa sagt hingað og ekki lengra. Börn og unglingar eru farin að sjá að mikill skjátími hefur ekki góð áhrif á líðan þeirra og kvarta undan því að foreldrarnir séu of mikið í símanum í stað þess að vera í beinum samskiptum við sig.“
Reykjavík orðin drónavæn

Ólafur Andri hefur kennt námskeið við tölvunarfræðideild HR um árabil sem heitir Ný tækni. Þar er markmiðið að nemendur skilji tækni sem áhrifavald í daglegu lífi fólks, rekstri fyrirtækja og þróun samfélaga, þekki tæknisöguna og skilji hvernig tækni þróast og þau lögmál sem gilda. „Mig langaði að skrifa bók og stuðla að umræðu um þessa nýju tækni á íslensku fyrir Íslendinga. Fjórða iðnbyltingin er komin til Íslands, dæmi um það er að Samgöngustofa er búin að skilgreina leyfilega farvegi fyrir dróna fyrir heimsendingar!“
Hann segir ekki annað hægt en að vera bjartsýnn. „Nýsköpun snýst um að bæta líf fólks, dýra eða vernda náttúruna. Það er sama hvert ég fer og við hvaða frumkvöðla ég tala, það eru allir að reyna að bæta heiminn.“
Fjórða iðnbyltingin fæst í öllum bókabúðum og í vefverslunum Forlagsins og Pennans.