Þörf á að rannsaka svefn og svefnvandamál Íslendinga betur
27.3.2020
Erna Sif Arnardóttir, rannsóknasérfræðingur við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík fékk ásamt samstarfsaðilum nýlega styrk úr Innviðasjóði Rannís til uppbyggingar aðstöðu til svefnrannsókna. Hún segir ríkt tilefni til að rannsaka það betur hvernig við Íslendingar sofum. Niðurstöðurnar munu nýtast bæði á Íslandi og á heimsvísu.
Styrkurinn er til uppbyggingar svefnseturs við Háskólann í Reykjavík. Starfsemin verður þverfagleg og koma starfsmenn innan verkfræðideildar, sálfræðideildar, tölvunarfræðideildar og íþróttafræðideildar HR að stofnun setursins. Vísindamenn mismunandi deilda háskólans ásamt nemendum þeirra munu því nýta aðstöðuna auk utanaðkomandi aðila. „Já, þetta verður opin rannsóknaraðstaða þar sem vísindamenn munu safna gögnum um svefn og líkamsklukku einstaklinga og hópa og aðstaðan verður sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi,“ segir Erna.
Mótar heilsueflandi samfélag
„Nýi búnaðurinn gerir okkur kleift að skilja betur samspil heilans og líkamans, bæði í vöku og svefni.“ Erna segir rannsóknir á þessu sviði vera gríðarlega mikilvægar á þessum tímapunkti, við upphaf fjórðu iðnbyltingarinnar.
„Það að skilja betur hvernig starfsumhverfi, vinnutími og lífstílsþættir s.s. mikil koffínneysla, skjátækjanotkun og streita virka með dægursveiflum og svefni fólks er afar dýrmætt. Sú þekking er mikilvægt framlag til íslensk samfélags, því hún getur hjálpað okkur að móta samfélagið á heilsueflandi hátt. Það er alltaf að verða ljósara hversu mikilvægur góður svefn er fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu.“
Íslendingar búa við sérstök birtuskilyrði og eru jafnframt almennt viljugir til að taka þátt í vísindarannsóknum. Þetta segir Erna geta nýst til að gera mikilvægar rannsóknir á alþjóðavísu. „Það er líka frekar auðvelt að fylgja hópum eftir í langan tíma hér á landi og rafrænar sjúkraskrár eru mjög góðar. Það er mikilvægt að nýta það sem við höfum fram yfir aðrar þjóðir til að lyfta rannsóknum á hærra stig.“
Hrotur, súrefnismettun, hreyfingar og fleiri próf
Erna Sif fékk son sinn til að aðstoða sig á Vísindavöku Rannís í september síðastliðnum.
Byggður verður upp opinn gagnagrunnur með upplýsingum um margvíslega lífeðlisfræðilega þætti sem fást úr svefnmælingum. „Það verður hægt að tengja gögn um svefn frá mælum við svör við spurningalistum og nota þá m.a. vélnám (machine learning) til að sjá flóknari mynstur.“ Á rannsóknarstofunni verður hægt að mæla m.a. stig svefns, hreyfingar, svitavirkni, öndun, öndunarerfiði, hljóðupptöku á t.d. hrotum, súrefnismettun, púls og fleira. Hægt er að setja þennan búnað upp að degi til og leyfa fólki að leggja sig eða framkvæma ýmis próf í vöku til að mæla t.d. viðbrögð við streitu. „Við munum einnig senda þátttakendur heim með búnaðinn uppsettan til að sofa með heima.“
Einnig verða til taks hreyfiúr sem einstaklingar bera í lengri tíma á sér en þá er hægt að greina dægursveiflu líkamans yfir fleiri daga og mögulegt verður að hafa áhrif á líkamsklukkunni með sérstökum ljósgleraugum, til að hjálpa fólki sem á erfitt með að fara snemma að sofa og vakna snemma til að mæta í vinnu eða skóla.
Aðstaðan verður aðgengileg fagaðilum sem starfa við rannsóknir sem tengjast svefni eða líkamsklukku á Íslandi, m.a. áhugasama innan Landspítalans og Heilsugæslunnar ásamt vísindamönnum Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, Hjartavernd og Betri svefns sem veitir hugræna atferlismeðferð við svefnleysi á netinu. Nú fer spennandi uppbyggingartími í hönd en stefnt er á að setrið geti opnað eins fljótt og auðið er.