Reglur um doktorsnám við HR
Samþykktar af framkvæmdastjórn HR 11. mars 2014
1. Inngangur
Markmið doktorsnáms við Háskólann í Reykjavík er að koma samfélagi og atvinnulífi til góða með
- eflingu rannsókna og þekkingarsköpunar á fræðasviðum háskólans, og
- þjálfun ungs vísindafólks.
Þessar reglur taka mið af Bologna ferlinu um samstarf á sviði æðri menntunar í Evrópu og alþjóðlega viðurkenndum meginreglum um skipulag og gæði doktorsnáms. Reglurnar eru einnig í samræmi við reglur um doktorsnám í háskólum nr. 37/2007 samkvæmt 7. grein laga nr. 63/2006, settar af Menntamálaráðuneytinu 17. janúar 2006.
Með reglum þessum er kveðið á um doktorsnám við Háskólann í Reykjavík, bæði hvað varðar skipulagslegan ramma námsins og kröfur til gæða þess. Innan ramma reglna þessara hafa deildir skólans frelsi til þess að útfæra doktorsnám nánar í ljósi sérstöðu og hefða viðkomandi fræðasviðs.
2. Stjórnskipulag doktorsnáms
Rannsóknaráð deilda fara með málefni doktorsnáms við deildina. Skulu þau útfæra doktorsnámið á grundvelli reglna þessara og í nánari smáatriðum eins og viðeigandi er fyrir þeirra deild. Þá skulu rannsóknaráð gera tillögu til deildarforseta um inntöku nemenda í doktorsnám, sbr. 4. grein, og leggja fram tillögu um skipun leiðbeinenda og doktorsnefnda, sbr. 5. og 6. grein. Ráðin og leiðbeinendur skulu fylgjast með þróun doktorsnáms á alþjóðavettvangi og hafa eftirlit með gæðum námsins í ljósi hennar. Tryggt skal að gæði doktorsnáms við Háskólann í Reykjavík standist alþjóðlegan samanburð.
3. Inntak doktorsnáms
Kjarni doktorsnáms við Háskólann í Reykjavík eru vísindalegar rannsóknir doktorsnema sem fela í sér sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviði þeirra.
Doktorsnám við Háskólann í Reykjavík er 180 – 240 ECTS, sem að jafnaði skal ljúka á 4 árum eða skemmri tíma. Deildir ákveða leyfilegan hámarksnámstíma.
Við lok doktorsnáms eiga nemendur að hafa tileinkað sér eftirfarandi þekkingu, leikni og hæfni:
- Almenna þekkingu á grunnatriðum fræðasviðsins og sérfræðiþekkingu á þeirri sérgrein eða rannsóknasviði sem fengist er við.
- Þekkingu á aðferðafræði rannsókna á sínu fræðasviði og færni í beitingu vísindalegra vinnubragða.
- Móta, skipuleggja og framkvæma sjálfstæðar vísindalegar rannsóknir.
- Leggja af mörkum sjálfstætt frumlegt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviðinu.
- Framkvæma gagnrýna greiningu og mat á viðfangsefnum fræðasviðsins.
- Tjá niðurstöður rannsókna sinna og búa þær til birtingar á ritrýndum vettvangi.
- Gegna vísindastörfum og hagnýtum störfum á sérsviðum sínum.
- Öðlast reynslu við kennslu eða annars konar fræðslu sem tengist viðfangsefnum þeirra sviðs.
4. Umsóknir og inntökuskilyrði
Þeir einir geta hafið doktorsnám við Háskólann í Reykjavík sem hafa lokið meistaranámi á háskólastigi eða sambærilegu námi. Umsækjendur þurfa að hafa sýnt framúrskarandi árangur í námi og starfi og vera líklegir til að geta tekið frumkvæði í þekkingarsköpun á sviði vísinda. Deildum er heimilt að gera auknar kröfur til undirbúnings umsækjenda, s.s. um sérfræðiþekkingu og námskeiðasókn.
Með umsókn skulu að lágmarki fylgja afrit af prófskírteinum, feril- og ritaskrá ásamt greinargerð um námsmarkmið.
Allir umsækjendur verða að sýna fram á að þeir hafi tryggt sér nægilegt fjármagn til að greiða skólagjöld og uppihald út doktorsnám sitt. Við mat á umsóknum skal byggt á menntun og reynslu umsækjenda ásamt greinargerð þeirra um námsmarkmið. Einnig skal byggt á því hvort starfslið og rannsóknarumhverfi deildar, sbr. 5. og 7. grein reglna þessara, og fjárhagsstaða geri kleift að taka við doktorsnema á því sviði sem óskað er eftir. Gæta skal málefnalegra sjónarmiða og jafnréttis við val á umsækjendum til inngöngu í doktorsnám.
Umsókn um inngöngu í doktorsnám skal svarað innan tveggja mánaða frá því að hún var lögð fram. Sé umsókn um inngöngu í doktorsnám hafnað skal láta skriflegan rökstuðning fylgja ákvörðuninni.
Gerður skal samningur á milli deildar og hvers doktorsnema um framvindu námsins og réttindi og skyldur nemanda annars vegar og deildar hins vegar. Samningurinn skal vera árlegur og einungis endurnýjaður ef nemandi hefur sýnt ásættanlega námsframvindu árið á undan. Doktorsnemar verða að vera skráðir í nám á haust- og vorönn meðan þeir stunda doktorsnám.
5. Leiðbeinendur
Deild skal skipa hverjum doktorsnema aðalleiðbeinanda samkvæmt tilnefningu rannsóknaráðs deildar. Aðalleiðbeinandi skal vera í fastri stöðu lektors, dósents eða prófessors við Háskólann í Reykjavík. Í tilviki sameiginlegs doktorsnáms má aðalleiðbeinandi koma frá hinum háskólanum. Til viðbótar við aðalleiðbeinanda má skipa meðleiðbeinendur sem starfa innan eða utan háskólans. Hlutverk leiðbeinenda er að leiðbeina doktorsnema í rannsóknarvinnunni, fylgjast með framvindu námsins og hafa eftirlit með gæðum rannsóknarvinnunnar. Doktorsnemi skal hafa reglulegan aðgang að leiðbeinendum sínum.
Eftirtaldar faglegar kröfur eru gerðar til aðalleiðbeinenda:
- Aðalleiðbeinandi skal hafa doktorsgráðu.
- Þess skal gætt að rannsókn doktorsnema sé á sérsviði aðalleiðbeinanda og að aðalleiðbeinandi hafi birt ritsmíðar sem viðkoma rannsókn doktorsnemans á viðurkenndum vísindalegum vettvangi.
- Aðalleiðbeinendur skulu vera virkir þátttakendur í rannsóknarsamfélaginu og sérfræðingar á sínu sviði með skýrt framlag og áhrif. Við mat á því skal litið til ritvirkni, reynslu af alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi og fjármögnun rannsóknarverkefna.
Ef aðalleiðbeinandi verður ófær um að leiðbeina doktorsnema með viðeigandi hætti skal rannsóknaráð deildar finna aðila í hans stað eða leysa málið með öðrum hætti.
6. Doktorsnefnd
Deild skal skipa doktorsnefnd samkvæmt tilnefningu viðkomandi rannsóknaráðs. Hlutverk doktorsnefndar er að leggja mat á rannsóknaráætlun, fylgjast með framvindu námsins (sjá 8. grein) og láta í té rökstutt álit sitt á því hvort doktorsritgerð sé tæk til varnar. Doktorsnefnd má fela fleiri verkefni í samráði við leiðbeinanda og rannsóknaráð. Doktorsnefnd skal skipuð innan 9 mánaða frá upphafi náms doktorsnema.
Í doktorsnefnd skulu sitja 3-5 fræðimenn sem eru virkir þátttakendur í rannsóknasamfélaginu og viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi fræðasviði. Við mat á því skal litið til þeirra krafna sem gerðar eru til aðalleiðbeinenda, sbr. 5. grein. Í það minnsta einn doktorsnefndarmaður skal starfa utan deildar. Huga ætti að jafnri kynjaskiptingu við skipun doktorsnefndar.
7. Rannsóknarumhverfi
Það skal tryggt að doktorsnám við Háskólann í Reykjavík fari fram í virku rannsóknarumhverfi. Doktorsnám skal fara fram í samstarfi og tengslum við innlenda og erlenda hópa viðurkenndra vísindamanna eða rannsóknastofnana. Heimilt er að skipuleggja doktorsnám í samstarfi við aðrar háskólastofnanir og doktorsgráðu má veita sameiginlega með öðrum háskóla.
Doktorsnemum skal tryggð fullnægjandi vinnuaðstaða. Doktorsnemum skal gert kleift að fylgjast með þróun og nýjungum á sínu fræðasviði í samfélagi við aðra doktorsnema og/eða fræðimenn, m.a. með því að sækja fundi og ráðstefnur eða dvelja hluta námstímans við erlenda rannsókna- eða háskólastofnun.
Háskólinn í Reykjavík ætti að tryggja að doktorsnemar njóti ávaxtanna af nýtingu (ef einhver er) niðurstaðna rannsóknar- og þróunarvinnu þeirra gegnum lögverndun og sérstaklega gegnum viðeigandi vernd hugverkaréttinda, þ.m.t. höfundarréttar. Samningur milli doktorsnema og deildar skal tilgreina hvaða réttindi tilheyra doktorsnema og/eða, þar sem það á við, háskólanum eða öðrum aðilum, þ.m.t. utanaðkomandi verslunar- eða iðnaðarfyrirtækjum.
8. Námsferli
Ekki seinna en við lok fyrsta námsárs skal nemandi skila fullbúinni rannsóknaráætlun til doktorsnefndar. Í rannsóknaráætlun skal koma fram samantekt á stöðu þekkingar og færni á viðkomandi sérsviði og tillaga að rannsókn (einni eða fleiri) sem lögð verður til grundvallar doktorsritgerð. Þá skal gerð áætlun um framvindu þess sem eftir er af náminu. Doktorsnefnd leggur mat á rannsóknaráætlun og skal byggja matið á því hvort rannsóknaráætlun endurspegli nægilega sérþekkingu nemanda, hvort rannsókn(ir) nemanda séu framkvæmanlegar og hvort nýnæmi og fræðilegt mikilvægi verkefnisins séu fullnægjandi. Í undantekningartilvikum er heimilt að veita doktorsnema viðbótarfrest til framlagningar rannsóknaráætlunar. Þegar rannsóknaráætlun hefur verið samþykkt af doktorsnefnd skal hún yfirfarin af rannsóknaráði deildar.
Leiðbeinendur hafa á námstímanum eftirlit með framvindu námsins og gæðum rannsóknarvinnunnar. Í því skyni að tryggja gæði doktorsnámsins er deild heimilt að gera kröfur í námslýsingu um námskeiðasókn, kynningar rannsóknarverkefnisins og/eða birtingar ritsmíða á ritrýndum vettvangi.
Hver doktorsnemi skal undirgangast árlegt framvindumat, bæði til að verja réttindi doktorsnemans og gæðaviðmið deildar/háskólans. Doktorsnemi skilar framvinduskýrslu sem aðalleiðbeinandi bætir athugasemdum við. Doktorsnefnd leggur mat á skýrsluna í heild og getur óskað eftir breytingum á henni. Þegar framvinduskýrsla hefur verið samþykkt af doktorsnefnd skal rannsóknaráð deildar yfirfara skýrsluna. Ef framvinda er ófullnægjandi og doktorsnefnd getur ekki lagt til lausn getur rannsóknaráð mælt með leiðum til úrlausnar, þ.m.t. að skipa annan leiðbeinanda eða leiðbeinendur eða jafnvel að binda enda á doktorsnámið. Viðkomandi deild gefur ECTS einingar fyrir hverja önn á grundvelli framvindumats og samráðs við aðalleiðbeinanda.
Rannsóknaráð HR leggur árlega mat á doktorsnámið, og yfirstandandi doktorsvinnu í hverri deild, sem almenna aðgerð til tryggingar á gæðum.
9. Doktorsritgerð og doktorsvörn
Doktorsnemi lýkur rannsóknum sínum með doktorsritgerð sem er sjálfstæð ritsmíð sem felur í sér nýtt framlag til þekkingar á fræðasviðinu. Doktorsnefnd leggur mat á ritgerðina og skilar rökstuddu áliti um hvort hún sé líkleg til að uppfylla kröfur deildar og hvort doktorsnemi fái kost á að leggja hana fram til varnar til rannsóknaráðs deildar.
Doktorsnefnd og einn eða fleiri andmælendur mynda saman dómnefnd við doktorsvörnina. Tilnefna skal einn eða fleiri andmælendur sem taki þátt í doktorsvörn með doktorsnefnd. Andmælandinn/andmælendurnir skulu vera viðurkenndir sérfræðingar í viðfangsefni ritgerðarinnar og æskilegt er að þeir komi frá erlendri stofnun. Þeir skulu vera óháðir doktorsnema og leiðbeinendum sem felur m.a. í sér að aðilarnir hafi ekki átt sameiginlega birtingu síðastliðin fimm ár og séu ekki með sameiginlega styrki. Val á andmælanda, sem þarf að vera staðfest af rannsóknaráði deildar, skal fara fram a.m.k. 4 mánuðum fyrir doktorsvörnina.
Þegar ritgerð er álitin tæk til varnar af doktorsnefnd skal doktorsvörn fara fram fyrir dómnefnd.
Við vörn skal dómnefnd leggja mat á efni ritgerðar annars vegar og vörn nemanda hins vegar. Strax að lokinni doktorsvörn tekur dómnefnd ákvörðun um veitingu doktorsgráðu. Doktorsgráðu má því einungis veita að nemandi hafi unnið sjálfstæðar frumlegar rannsóknir er hafi nægjanlegt nýnæmi og vísindalegt gildi og séu af nægu umfangi til þess að verðskulda gráðuna.
Ef dómnefnd álítur ritgerð og/eða vörn ófullnægjandi getur nefndin tekið ákvörðun sem hér segir:
- Í tilviki alvarlegra galla getur nefndin fellt ritgerðina án þess að gefa kost á að skila henni aftur.
- Í tilviki galla sem varða uppbyggingu eða skort á fræðilegum vinnubrögðum getur nefndin óskað eftir að ritgerðinni verði skilað aftur og hefur doktorsneminn 6 - 12 mánaða tímabil til að bæta úr þeim göllum sem tilgreindir voru.
- Í tilviki minniháttar galla getur nefndin veitt doktorsgráðu en gefið doktorsnemanum 3-6 vikna frest til að betrumbæta ritgerðina og mun doktorsnefndin staðfesta breytingar áður en kemur að birtingu.
Ef ekki er um neina galla að ræða gefur nefndin veitt doktorsgráðu án tafar.
Nemandi á rétt á greinargóðri skriflegri útskýringu á ákvörðun dómnefndar ef ritgerð er felld eða gallar greinast í ritgerðinni og/eða vörninni. Ákvörðun dómnefndar er endanleg og ekki er unnt að áfrýja henni.