Rannsóknarsamstarf

Háskólinn í Reykjavík er nú formlega orðinn fullgildur þátttakandi í NeurotechEU - University of Brain and Technology, sem er samstarfsverkefni (European University Initiative) nokkurra fremstu rannsóknaháskóla Evrópu á sviði taugatækni (neuro-technology). Háskólar innan NeurotechEU - njóta fjölbreytts ávinnings af því. Þannig munu nemendur í háskólum innan samstarfsins geta sótt nám í öllum háskólum og öðlast með því alþjóðlega reynslu og notið góðs af sérþekkingu hvers háskóla á sviðinu.

Fjórar konur uppstilltar fyrir framan skilti sem á stendur NeurotechBryndís Björk Ásgeirsdóttir, sviðsforseti samsfélagssviðs HR, Luka Biedebacher doktorsnemi við Svefnrannsóknasetur HR, Deborah Cecelia Rose Jacob doktorsnemi við Heilbrigðistæknisetur HR og Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR.

NeurotechEU hefur sömuleiðis að markmiði að stuðla að betri kennsluháttum og auknu samstarfi í rannsóknum. Þannig verður staða Evrópu í heild sterkari í tækni- og taugarannsóknum sem auðveldar vel menntuðu fólki að takast á við ögrandi framtíðarverkefni samfélagsins.

Háskólinn í Reykjavík hefur víðtæka sérfræðiþekkingu auk aðstöðu sem nýtist innan NeurotechEU, en starfsemi á sviði taugavísindi og samspil sálfræði, verkfræði, íþróttafræði og tölvunarfræði blómstrar innan skólans.

„Við erum mjög spennt að ganga til liðs við NeurotechEU og vinna enn nánar með þeim háskólum sem taka þátt í samstarfinu. Við trúum því staðfastlega að þetta muni styrkja bæði Háskólann í Reykjavík og NeurotechEU. Það er afar mikilvægt fyrir litla háskóla að vera í samstarfi við aðra þegar þeir þróa námsframboð sitt, innviði og rannsóknir. En við komum líka með töluverðan styrk, bæði tæknilegan og þverfaglegan, að borðinu. Ég er sannarlega ánægð með að samstarf okkar sé komið á þetta stig,“ segir Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík.

Rannsóknanemar við háskóla innan samstarfsins eru stór hluti verkefnisins og fóru tveir doktorsnemar við HR á fundinn og tóku þátt í umræðum, ákvörðunum og hugarflugi um samstarfið auk þess að funda með öðrum doktorsnemum.

Stofnaðilar NeurotechEU eru Radboud háskólinn í Hollandi, Miguel Hernández háskólinn í Elche á Spáni, Karolinska Institutet í Svíþjóð, Háskólinn í Bonn í Þýskalandi, Boğaziçi háskólinn í Tyrklandi, Oxford háskóli í Englandi, Iuliu Hațieganu-læknaháskólinn í Rúmenía og Debrecen-háskólinn í Ungverjalandi. Fyrr í þessum mánuði var tilkynnt að háskólinn í Lille í Frakklandi væri einnig að ganga í NeurotechEU.

Frekari upplýsingar um NeurotechEU er að finna á vefsvæði samstarfsverkefnisins: theneurotech.eu.


Var efnið hjálplegt? Nei