Rannsóknir kennslufræði- og lýðheilsudeildar

Við Kennslufræði- og lýðheilsudeild eru stundaðar grunn- og hagnýtar rannsóknir á högum og líðan barna og unglinga. Þá skipa rannsóknir á menntun þjóðarinnar veigamikinn sess. Má þar nefna rannsóknir á námsárangri nemenda, upplýsingatækni í skólastarfi og rannsóknir á hlut þekkingar og vísinda í íslensku samfélagi. Í íþróttafræði er kominn vísir að rannsóknarstarfi við deildina, og stefnt er að því að efla það til muna á næstu árum. Starfsmenn deildarinnar eru í samstarfi við vísindamenn víða um heim, m.a. við Columbia University, Penn State University og San Jose State University í Bandaríkjunum, og King´s College í London.

Rannsóknir og greining

Rannsóknarmiðstöðin Rannsóknir og greining (RogG) starfar innan Kennslufræði- og lýðheilsudeildar HR og hefur hún sérhæft sig í rannsóknum á ungu fólki.

Kennarar og nemendur við deildina hafa þar aðgang að stórum gagnagrunni sem R&G hefur byggt upp á undanförnum árum og hefur að geyma upplýsingar um fjölmarga þætti er varða ungt fólk á Íslandi. Þar á meðal er um að ræða viðamiklar upplýsingar um námsárangur barna og ungmenna, líðan í skóla og aðra námstengda þætti, svo og upplýsingar um ýmsa þætti er tengjast lýðheilsu í víðu samhengi.

Úr þessum gagnagrunni vinnur starfsfólk R&G reglulega skýrslur fyrir sveitarfélög, skóla og aðrar stofnanir. Þessar skýrslur eru notaðar við stefnumótun í málefnum barna og ungmenna. Vísindamenn Kennslufræði- og lýðheilsudeildar nota hins vegar gagnagrunninn til að gera rannsóknir sem birtar eru í alþjóðlegum ritrýndum fræðiritum.

Dæmi um rannsóknarverkefni:

  • Yfirlitsrannsóknirnar „Ungt fólk á Íslandi“.
  • „Youth in Europe“.  Samstarfsverkefni 15 Evrópuborga.
  • Fræðileg og hagnýt þróun íslenska forvarnamódelsins.
  • „Health behaviour and academic achievement among adolescents“.
  • „Parental influences on academic achievement among adolescents“.
  • Tímaraðagreiningar á vísum um heilsu og líðan barna og unglinga.

 


Var efnið hjálplegt? Nei