Rannsóknastefna

Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík stundar rannsóknir til þess að auka þekkingu og tækni mannkynsins á sviði tölvunarfræði og skyldra greina. Þetta byggir á því að hafa við deildina sterkan kjarna vísindamanna, sem vinna að sínum rannsóknum í náinni samvinnu við alþjóðlega samstarfsmenn, og að laða til sín öfluga og áhugasama nemendur og nýdoktora. 

Sá kjarni vísindamanna sem vinnur við deildina er valinn úr umsækjendum víðs vegar að úr heiminum til að tryggja að hver sé alþjóðlega þekktur fræðamaður á sínu sviði. Deildin leggur þó sérstaka áherslu á ákveðin svið innan tölvunarfræði til að tryggja að á hverju sviði verði nægilega mikil breidd og dýpt. 

Alþjóðlegt samstarf er lykillinn að öflugu rannsóknarstarfi. Tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík tekur þátt í alþjóðlegu vísindasamfélagi með heimsóknum fyrirlesara, ráðstefnum og almennri þátttöku í alþjóðasamfélaginu. Deildin byggir jafnframt upp enn sterkara tengslanet í alþjóðlegri samvinnu með skiptum á nemendum og fræðamönnum, sveigjanleika í hlutastöðum fyrir alþjóðlega fræðimenn, og náinni samvinnu um rannsóknir og fjármögnun þeirra. 

Framhaldsnemar og nýdoktorar gegna lykilhlutverkum í rannsóknum við háskóla. Háskólinn í Reykjavík er í þeirri einstöku aðstöðu að hafa alþjóðlega eftirsótta fræðimenn starfandi við skólann og á sama tíma vera staðsettur í einum af bestu og áhugaverðustu löndum heims.


Var efnið hjálplegt? Nei