Greinir styrkleika og veikleika nemenda

Hilmar Eiðsson hefur undanfarin misseri stundað nám í tölvunarfræði með lögfræði sem aukagrein. Hann stofnaði jafnframt fyrirtækið Costner ehf. í kringum nýjan hugbúnað sem hann hefur þróað og nýtist meðal annars við stærðfræði- og íslenskukennslu. Hugbúnaðurinn er sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi, og þó víðar væri leitað. Með notkun hans má greina veikleika og styrkleika nemenda í yngstu bekkjum grunnskóla um leið og þeir sitja í skólastofunni og leysa verkefni. Hann nýtist því kennurum afar vel í kennslu.


Tveir nemar í tölvunarfræði, annar heldur á borðtennisspaða og hinn á ofurhetjubrúðuHugbúnaðurinn vinnur úr miklu magni gagna sem safnað er við leik barnanna í sérstöku smáforriti sem sett er inn í spjaldtölvu. „Leikurinn sjálfur er einfaldur, börnin færa til dæmis rétt form á réttan stað og svo framvegis. Leikurinn er í raun aðeins sú aðferð sem notuð er til að safna gögnum en úr þeim má lesa ýmislegt,“ útskýrir Hilmar. „Upplýsingarnar birtast kennaranum í rauntíma á tölvu með vefviðmóti sem við höfum hannað. Í framtíðinni verða notaðar aðferðir gervigreindar til að lesa úr gögnunum.“ Kosturinn við að nota þessa aðferð er meðal annars sá að kennari fær um leið sendar upplýsingar um frammistöðu nemandans. Þannig er hægt að nýta tæknina til að meta strax líkur á því að nemandi sé talna- eða lesblindur.

Hilmar segist vona að námsgagnið muni jafnframt nýtast vel við kennslu barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. „Með því að skoða þessi gögn í rauntíma er séð til þess að grunnskilningur náist áður en haldið er áfram með námsefnið. Kennarar geta ekki alltaf séð hvort börn skilji námsefnið um leið en þarna fá þeir verkfæri til þess. Það er einfaldlega ekki hægt að fara í gegnum verkefnin án þess að kennarinn viti af öllu sem nemandinn gerir.“

Kennarar sem komið hafa að þróun námsgagnsins eru að sögn Hilmars afar ánægðir með uppfinninguna. Einnig hefur Þróunarsjóður námsgagna styrkt fyrirtækið og Nýsköpunarsjóður námsmanna. Stefnan er að gefa afurðina út á erlendri grundu þegar fram líða stundir. „Þetta er víðfeðmt og stórt verkefni. Mikil vinna hefur farið í að þróa hugmyndina og hugmyndafræðina, smíða gagnagrunninn og virkni hans. Næsta skref er að halda áfram þróun á leiknum og koma frumútgáfu af honum í prófunarferli,“ segir Hilmar að lokum.


Var efnið hjálplegt? Nei