Þrívíddarleikur á þremur vikum

Að loknum vorprófum hefjast þriggja vikna námskeið í grunnnámi við HR. Námskeiðin eru oftar en ekki nýtt í verklegar æfingar þar sem nemendur fá tækifæri til að sýna í verki sem þeir hafa lært um veturinn. Nemendur í tölvunarfræði gátu valið um að taka námskeiðið Tölvuleikjahönnun og –þróun og nota þessar þrjár vikur til að setja fram hugmynd að tölvuleik, hanna hann og gera svokallað „demo“ tilbúið til spilunar. Leiðbeinandi á námskeiðinu var dr. David Thue, lektor við tölvunarfræðideild og sérfræðingur í tölvuleikjaþróun.

Þau Anna Dominiak og Páll Arinbjarnar létu knappan tíma ekki trufla sig og ákváðu að búa til tölvuleik í þrívídd. 

Anna

„Fyrsta vikan fór í að þróa hugmyndina og svo höfðum við tvær vikur til að gera leikinn, eða til að skapa demo sem hægt er að spila,“ segir Páll. Anna segir hugmyndina hafa verið metnaðarfulla. „Ég held að kennararnir hafi verið örlítið áhyggjufullir fyrir okkar hönd!,“ segir hún og hlær. Páll segir þau þó hafa gert sýndarheim í þrívídd áður þannig að þau hafi haft hugmynd um hvað þau væru að fara út í. „Við kynntum svo lokaafurðina á lokakynningu námskeiðsins og höfðum þá náð flestum þeim markmiðum sem við settum okkur fyrir gerð leiksins, þannig að við vorum ánægð.“

Í leiknum Wilderness er spilarinn úlfur og markmiðið er að lifa af í náttúrunni. Úlfurinn hefur villst frá hjörðinni í stórum skógi og verður að finna vatn og veiða sér til matar. Hljóðheimurinn er fuglasöngur og skuggar trjánna hreyfast eftir gangi sólar. Spilarinn hefur ýmsa möguleika til að nota eiginleika úlfsins eins og að læðast, nota lyktarskynið og sjá vel í myrkri. Mælistikur efst í vinstra horni sýna spilara hvort brátt þurfi að fara að næra sig eða drekka vatn.

Páll

„Í leiknum er mikið frelsi þar sem það er engin fyrirfram ákveðin saga sem þarf að fylgja og spilarinn hefur marga valmöguleika,“ segir Anna. Páll segir það hafa verið áhugavert að fylgjast með hvernig leikurinn var spilaður þegar þau lögðu hann fram í lok námskeiðsins. „Spilarar hafa spilað leikinn á mjög ólíkan hátt. Sumir ákváðu að ráðast ekki á stóran björn sem er í skóginum, á meðan aðrir ákváðu að ráða niðurlögum hans undir eins. Í lokin var komin upp keppni á milli spilaranna hvort þeim tækist að drepa björninn eða ekki.“

Anna er frá Póllandi og var skiptinemi við tölvunarfræðideild í eina önn ásamt því að starfa í sumar við CADIA , gervigreindarsetur innan HR. Páll varði einnig sumrinu í húsakynnum Háskólans í Reykjavík sem starfsmaður Aldin Dynamics. Þau eru strax komin á fullt í öðrum verkefnum en ætla að vinna að því að gera leikinn aðgengilegan til að sem flestir geti prófað að vera úlfur á öræfum.


Var efnið hjálplegt? Nei