Verkefni í tölvuleikjakúrs verður að Playstation tölvuleik

Í frumkvöðlasetri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í Hafnarfirði, Kveikjunni, finnum við fyrir Burkna J. Óskarsson og félaga hans í fyrirtækinu Lumenox Games. Í fyrirtækinu er nú unnið að því að gera leikinn Aaru´s Awakening tilbúinn fyrir útgáfu á Playstation leikjatölvuna. Þeir Burkni, Tyrfingur Sigurðsson og Ingþór Hjálmar Hjálmarsson byrjuðu á leiknum í tölvuleikjakúrs við tölvunarfræðideild HR. Burkni og Ingþór komu úr tölvunarfræðinni en
Tyrfingur var í heilbrigðisverkfræði og hafði tekið námskeiðið sem val. Þeir þrír stofnuðu svo fyrirtækið Lumenox til að þróa leikinn áfram ásamt Ágústi Frey Kristinssyni, sem hannar útlit leiksins.


 „Við höfum verið í þessu í næstum þrjú ár núna. Við byrjuðum opinberlega í mars 2012 en þá stofnuðum við fyrirtækið Lumenox ehf. Síðan þá höfum við unnið alla daga til miðnættis, nema aðfangadag. Þetta er skemmtilegasta vinna sem ég hef verið í, en þetta gerist ekkert að sjálfu sér,“ segir Burkni sem gefur Tímariti HR nokkrar verðmætar mínútur til að rekja sögu Lumenox Games. „Það eru miklu fleiri sem hafa komið að verkefninu, ætli það séu ekki um 13-15 manns í allt. Núna erum við fimm en við erum að ljúka við PlayStation-útgáfuna og svo verðum við fram á haust að klára Xbox- og Nintendo-útgáfurnar.“

Lumenox gamesHvert skyldi svo leyndarmálið vera, hvernig kemur maður leik í útgáfu hjá tölvuleikjarisanum Playstation? Fyrir utan ómælda vinnu að sjálfsögðu. „Í fyrsta lagi þá sækir maður um og lætur vita af sér og það gerðum við fyrir ári síðan. Um svipað leyti gáfum við út demo af leiknum og mánuði síðar fengum við skilaboð frá þeim um að þeir vildu hafa okkur sem þróunaraðila, sem þýðir að þá fáum við svigrúm til að þróa leikinn sérstaklega fyrir útgáfu á Playstation.“ Þetta er þó ekki eins einfalt og það hljómar.

„Þú verður að vera með bæði góðan leik og einhverja sérstöðu. Það er alls ekkert sjálfgefið að fá leikinn gefinn út hjá þeim, því þetta er alveg lokað kerfi. Maður þarf að ná athygli þeirra og hafa eitthvað sem gerir spilunina skemmtilega. Við erum til dæmis að þróa fjórar aðrar hugmyndir núna og tökum inn í hugmyndavinnuna alls konar þætti eins og eitthvað sem virkar í einhverjum gömlum leik, sitt hvað úr kvikmyndum og notum eigin reynslu sem leikjaspilarar.“ Eitt af því sem gefur Aaru´s Awakening sérstöðu er útlit hans. Leikurinn er
teiknaður með blýanti og svo eru teikningarnar fluttar inn í Photoshop og unnar áfram þar. „Við
höfum fengið mikið lof fyrir þetta enda eru ekki margir leikir á markaði í dag sem eru handteiknaðir
og að ákveðnu leyti förum við gegn straumnum með útlitið, enda ganga flestir leikir í dag út á
þrívídd.“ Annað dæmi um sérstöðu í spilun er að aðalsögupersónan, Aaru, getur skotið sál sinni út úr
líkamanum og birst á öðrum stað, eða „teleportað“ sig.

Þeir félagar hafa þar að auki brugðið á það ráð að vera með í stórum tölvuleikjasýningum. „Í fyrra
fórum við á Pax Prime í Seattle sem er ein stærsta leikjasýningin. Við fengum að vita að við hefðum
verið valdir inn af dómnefnd en af 300 fyrirtækjum sem sækja um komast um 50 á sýninguna. Á þessum
tíma höfðum við verið að kynna leikinn á netinu og það var einnig um svipað leyti að Playstation
samþykkir okkur sem þróunaraðila, þannig að það gerðist margt sumarið 2013. Svo fórum við á Pax East
í apríl á þessu ári, sem er sama sýning en í Boston. Við verðum væntanlega á þeirri sýningu héðan í frá
með nýja leiki. Svo vorum við á stærstu vörusýningu í heimi, E3 í Los Angeles, í júní. Þar vorum við einn af
leikjunum sem Playstation var að kynna.“

Eins og áður hefur komið fram er Lumenox Games að þróa fleiri leiki, afurðir sem þeir eru bjartsýnir á
að komist auðveldlega á alþjóðlegan markað. „Við erum svo miklu, miklu reyndari núna. Það eru svo
margar hindranir sem við höfum rutt úr vegi á síðustu þremur árum sem við þurfum ekki að takast
á við aftur. Í framtíðinni getum við haldið áfram að þróa leiki fyrir Xbox og Playstation og þurfum ekki
að leggja í þessa gríðarlegu vinnu við að koma okkur á framfæri.“


Var efnið hjálplegt? Nei