Rannsóknarstefna HR
A. Forsendur
1. Góður háskóli verður ekki til án öflugra rannsókna sem standa föstum fótum í alþjóðasamfélaginu.
2. Rannsóknir snúast um sköpun og miðlun þekkingar. Gæði vísindalegrar þekkingar eru best tryggð með jafningjamati sem fram fer á ritrýndum vettvangi. Við mat á gæðum rannsóknarstarfs skal taka tillit til áhrifa þess.
3. Rannsóknir eru skapandi starf og brautryðjendaverk. Slíku starfi verður ekki stjórnað af öðru en þeim drifkrafti sem knýr hvern vísindamann.
B. Grundvallarstefna
1. Það er markmið Háskólans í Reykjavík að byggja upp öflugar rannsóknir, sem efla orðstír skólans á alþjóðavettvangi, næra kennsluna og veita nýrri þekkingu inn í atvinnulíf og samfélag.
2. Vísindamenn við Háskólann í Reykjavík eiga að vera virkir þátttakendur í vísindasamfélaginu og rannsóknir við skólann eiga að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til vandaðra vísindarannsókna á alþjóðlegum vettvangi. Mikilvægur mælikvarði á afrakstur rannsóknarstarfs er birting niðurstaðna á ritrýndum vettvangi og ættu vísindamenn Háskólans í Reykjavík að setja sér það markmið að öðlast alþjóðlega viðurkenningu fyrir störf sín. Greinar í ritrýndum tímaritum innanlands um rannsóknir sem einkum varða íslenskt þjóðfélag kunna vel að gefa vísbendingu um alþjóðlegt ágæti starfsins ef viðkomandi rannsóknir standast samanburð við svipaðar rannsóknir í öðrum löndum. Áhrif rannsóknarstarfs er annar lykilmælikvarði á afrakstur þess.
3. Í Háskólanum í Reykjavík ríkir akademískt frelsi. Það þýðir að hver vísindamaður hefur sjálfdæmi um val á viðfangsefnum, túlkun niðurstaðna og birtingu þeirra. Vísindamenn hafa ennfremur rétt til gagnrýni en þegar þeir ræða um mál sem varða almannahagsmuni tala þeir ekki fyrir hönd háskólans.
C. Rannsóknir og stjórnun
1. Viðfangsefni rannsókna við Háskólann í Reykjavík ráðast að mestu leyti af áhugasviðum vísindamanna innan skólans. Eftir ráðningu hefur vísindamaður akademískt frelsi, eins og að ofan getur.
2. Öll ferli og viðmið sem lúta að mannaráðningum, framgangi, úthlutun rannsóknarfjármagns frá menntamálaráðuneytinu og öðrum þáttum er styðja við rannsóknarstarf ættu að miða að því að auka afrakstur rannsókna háskólans. Ferli og viðmiðunarreglur Háskólans í Reykjavík verða að setja metnaðarfull skilyrði fyrir ráðningu og framgangi í lektors-, dósents- og prófessorsstöður. Við mat á hæfi og ákvarðanir um framgang skal rannsóknarvirkni og áhrif rannsókna að jafnaði vega þungt. Alltaf skal miðað við þær kröfur sem gerðar eru til vandaðra vísindarannsókna á alþjóðlegum vettvangi.
3. Framgangur og laun eru mikilvægir hvatar við Háskólann í Reykjavík. Hvort tveggja þarf að leiða til þess að vísindamenn skólans keppi að því að standa sig sem best í rannsóknum og sé umbunað í samræmi við verk og árangur. Í því sambandi verður að hafa að leiðarljósi mat alþjóðlega vísindasamfélagsins á gildi og áhrifum rannsókna hvers vísindamanns.
4. Mat á rannsóknarárangri Háskólans í Reykjavík skal gert árlega af óháðum erlendum sérfræðingum. Niðurstöðu matsins skal leggja til grundvallar við skiptingu rannsóknarfjár frá menntamálaráðuneytinu.
5. Við Háskólann í Reykjavík skal starfa Rannsóknarráð, sem skipað er einum fulltrúa frá hverri deild auk formanns skipuðum af rektor í samráði forseta deilda. Hlutverk ráðsins er að taka þátt í að þróa og viðhalda sterku rannsóknarumhverfi með hvatningu og stuðningi, hönnun ferla og hvatningu til öflunar fjármagns til rannsókna. Ráðið er stutt af Rannsóknarþjónustu skólans. Ráðið skal móta stefnu skólans í rannsóknum og veita ráðgjöf varðandi framkvæmd hennar til rektors, framkvæmdastjórnar og forseta deilda. Ráðið skal:
· Móta stefnu HR í rannsóknum og stinga upp á nauðsynlegum aðgerðum til að framkvæma stefnuna
· Byggja upp og viðhalda sterkri rannsóknarmenningu við HR
· Þróa ferla og starfshætti sem styrkja akademíska stöðu einstaklinga og deilda
· Vinna að aukningu fjármagns HR til rannsókna og þróa aðferðir til úthlutunar fjármagnsins
· Vera í forsvari fyrir rannsóknir innan HR
Meðlimir Rannsóknarráðs HR skulu vera í miklum tengslum við akademískt starfsfólk sinna deilda og þjóna sem fulltrúar þess á fundum Rannsóknarráðs HR ásamt því að miðla upplýsingum til starfsfólks um vinnu ráðsins.
D. Stefnumörkun og starfshættir sem varða rannsóknarstarf
1. Til að styrkja rannsóknir við Háskólann í Reykjavík skal stefnt að því að allar deildir hafi á að skipa alþjóðlega framúrskarandi vísindamönnum í allar lektors-, dósents- og prófessorsstöður. Í lektors-, dósents- og prófessorsstöður skal að öllu jöfnu krafist doktorsprófs.
2. Almennt skal auglýsa lausar stöður alþjóðlega og með nægum fyrirvara til að útiloka ekki hæfa einstaklinga frá því að sækja um starfið. Ávallt skal ráða hæfasta einstaklinginn sem völ er á í hverja lausa stöðu. Til að stuðla að því marki skal skilgreina hæfniskröfur allra starfa sem ráða á í áður en umsækjenda er aflað. Gæta skal þess að kröfurnar séu ekki svo þröngt skilgreindar að það takmarki möguleika hæfra einstaklinga á að sækja um starfið.
E. Rannsóknarvirkni - efling og gæði
1. Deildir skulu skilgreina metnaðarfull rannsóknarviðmið sem samræmast viðkomandi rannsóknarsviðum. Á hverju sviði skal hafa að leiðarljósi samanburð við rannsóknir á alþjóðlegum vettvangi og áhrif rannsókna skulu ekki einungis metin á grundvelli birtinga og tilvísana, heldur einnig á grundvelli afleiddrar vinnu, leiðbeiningu doktorsnema/nýdoktora, öflun styrkja og stöðu (ritstjóri, sæti í ritstjórnarnefnd, meðlimur ráðstefnunefndar/skipuleggjandi ráðstefnu, prófdómi doktorsritgerðar o.fl.). Reglur deilda skulu unnar í samvinnu við rannsóknarráð skólans og í samræmi við almennar reglur skólans. Reglur deilda geta t.d. náð til nýráðninga, framgangs og móttöku styrkja frá einkaaðilum. Allar reglur um starfsemi tengda rannsóknum skulu vera aðgengilegar á ytri vef skólans, þar með talið sérstakar reglur deilda.
2. Doktorsnám við HR er skipulagt innan hverrar deildar. Doktorsnemar gegna mikilvægu hlutverki við rannsóknir og vísindalegar birtingar. Háskólinn býður einnig nýdoktora velkomna inn í sitt rannsóknarsamfélag.
3. Ytri fjármögnun rannsókna við HR er styrkt gegnum stöðuga vinnu að öflun rannsóknarfjármagns frá innlendum og erlendum aðilum. Háskólinn innleiðir ferla og starfrækir rannsóknarþjónustu til að fá fram eftirfarandi: (a) undirbúa vísindamenn HR til að taka þátt í öflun styrkja með virkum og árangursríkum hætti; (b) fylgjast með tækifærum til að afla ytra fjármagns til rannsókna; og (c) útvega alla viðeigandi aðstoð við að sækja um þessa styrki og þróa fjárhagsáætlanir, ásamt því að veita annan stuðning sem varðar stjórnun.
4. Mikilvæg uppspretta ytra rannsóknarfjármagns við HR eru samkeppnissjóðir og atvinnulífið. Háskólinn ætti stöðugt að leita eftir mögulegum rannsóknarverkefnum í samvinnu við íslensk og erlend fyrirtæki og rannsóknarstofnanir, ásamt því að sækja um rannsóknarstyrki til samkeppnissjóða, bæði innlendra og alþjóðlegra.
5. Stefna skal að því að auka verulega fjölda greina sem birtar eru á virtum ritrýndum vettvangi í nafni skólans og efla þátttöku vísindamanna skólans í alþjóðlegu samstarfi (rannsóknarverkefni, ráðstefnur, netverk, o.fl.).
6. Háskólinn í Reykjavík hvetur til innri samvinnu milli akademískra starfsmanna, bæði innan og milli deilda. Vísindamenn sem vinna í sömu eða skyldum greinum, eða sem hafa sameiginleg markmið, eru hvattir til að koma á rannsóknareiningum, t.d. hópum, miðstöðvum og stofnunum innan HR, hvenær sem slíkt er til þess fallið að ná markmiðum deildanna og háskólans.2 Til að hvetja til þverfaglegra rannsókna skal háskólinn taka viðeigandi skref til að innleiða samhæfingarkerfi sem stuðla að rannsóknarsamstarfi milli sviða og deilda, t.d. reglur og reglugerðir, bókhaldsvenjur og fjárhagsáætlanir.
7. Háskólinn í Reykjavík ætti að innleiða ferla og aðferðir til að efla rannsóknir gegnum fjárhagslega hvata fyrir vísindamenn og rannsóknareiningar (hópa, miðstöðvar og stofnanir), sem tengjast t.d. viðeigandi mælikvörðum s.s. afrakstri rannsókna og öflun ytri styrkja.
8. Mælanleg markmið eru nauðsynleg til að fylgjast með árangri rannsókna. Það er mikilvægt að safna magnbundnum upplýsingum um alla rannsóknarvirkni við HR til að mögulegt sé að miðla þessum niðurstöðum til rannsóknarsamfélagsins og þjóðfélagsins í heild. Þetta er gert með því að skýra frá tölfræðilegum upplýsingum um rannsóknir með öllum viðeigandi aðferðum.
9. Háskólinn í Reykjavík stefnir á að auka alþjóðlegan sýnileika, nýtingu og áhrif sinna rannsóknarniðurstaðna með því að veita opinn aðgang gegnum varðveislusafn og auðvelda vísindamönnum að birta sínar niðurstöður opinberlega með aðstoð mismunandi stoðþjónustu. HR ætti að leggja áherslu á opinn aðgang að afurðum rannsókna háskólans, t.d. ritverkum og gögnum, að því marki sem samningar um höfundarrétt leyfa.
10. Reglur um hugverk ættu að vera til þess fallnar að hvetja til alþjóðlegrar birtingar vísindalegrar þekkingar og niðurstaðna, og á sama tíma stuðla að frumkvöðlastarfsemi með því að veita viðeigandi og nægjanlegan eignarrétt til einstaklinga yfir hugverkum sem verða til í gegnum störf þeirra við HR.
11. Háskólinn í Reykjavík kappkostar að skapa hvetjandi umhverfi til rannsókna. Þetta er gert með margs konar hætti: með því að koma á fót rannsóknareiningum (hópum, miðstöðvum og stofnunum) til að efla samvinnu milli akademísks starfsfólks sem vinnur á sama sviði; með því að takmarka kennsluálag á það akademíska starfsfólk sem er mjög virkt í rannsóknum; með því að gera akademísku starfsfólki kleift að taka sér rannsóknarleyfi; með því að bjóða vísindamönnum viðeigandi aðstöðu, t.d. vinnurými (rannsóknarstofur), reiknigetu, bókhaldsaðstoð rannsóknarverkefna, o.fl.; með því að bjóða aðstoð við að útbúa umsóknir um rannsóknarstyrki. Háð fjárhagslegri getu, sem kann að breytast frá ári til árs, geta virkir vísindamenn fengið ferðastyrki til að taka þátt í ráðstefnum. Búist er við að aðferðir til að efla rannsóknarumhverfið muni þróast eftir því sem nýjar hugmyndir koma fram.
12. Rannsóknarleyfi, þar sem akademískur starfsmaður er undanþeginn kennslu- og/eða stjórnunarskyldum í ákveðinn tíma til að sinna einungis rannsóknarvinnu, eru órjúfanlegur hluti af starfsemi háskólans. Kjarni rannsóknarleyfa er að veita akademísku starfsfólki tækifæri til að halda í við nýjustu þróun á sínu sviði, og hvetur háskólinn starfsfólk til að nýta sér þennan möguleika. HR veitir starfsfólki þann sveigjanleika að fara í rannsóknarleyfi hverja sjöundu önn eða hvert sjöunda ár.
Endurskoðuð stefna samþykkt í framkvæmdastjórn HR 5. febrúar 2015.