Mótuðu stefnu ferðaþjónustufyrirtækis

Á haustönn sækja annars árs nemendur viðskiptadeildar námskeið sem nefnist Stefnumótunarverkefni og er undir stjórn Kristjáns Vigfússonar forstöðumanns MBA-námsins í viðskiptadeild.

Þau Ásgeir Fannar Ásgeirsson, Hildur Sigrún Einarsdóttir, Hinrik Árni Wöhler, Hulda Rós Blöndal Snorradóttir og Jón Ragnar Jónsson völdu að gera verkefni um Hótel Glym í Hvalfirði og gáfu þau Ásgeir, Hildur og Jón Ragnar okkur innsýn í ferlið. „Ferðaþjónustubransinn heillaði okkur og það er ekki auðvelt að fá svona verkefni í þeim umsetna bransa. Þegar faðir eins í hópnum vann gjafabréf frá hótelinu kviknaði þessi hugmynd að hafa samband við Glym,“ segir Ásgeir Fannar einn nemendanna, sem sjálfur starfar í ferðabransanum með náminu.

Mótuðu stefnu ferðaþjónustufyrirtækis

 

„Hótelstjórinn tók vel í samstarf og vann með okkur, auk annarra starfsmanna, að verkefninu. Við fórum nokkrum sinnum í vettvangsferð upp í Hvalfjörð og hittum starfsfólkið sem gaf okkur nauðsynlegar upplýsingar og innsýn í reksturinn og fyrirtækið,“ útskýrir Hildur.  „Markmið okkar var að koma með hugmynd að stefnu fyrirtækisins næstu þrjú árin og þeim umbótaverkefnum sem fyrirtækið gæti farið í. Við gerðum úttekt á stöðu þess og lögðum svo fram skýrslu um heildarstefnumótun með áherslu á sölu- og markaðsmál. Þar gerðum við rökstudda tillögu að bættri aðgerðaráætlun og skiluðum m.a. tímasettri verkefnaáætlun þar sem verkefnum var deilt niður á rétta aðila á hótelinu,“ bætir hún við.

„Við hvöttum hótelið einnig til að setja sig í samband við erlenda aðila og kynna sig betur utan landsteinanna og á ferðaráðstefnum, en það hafði ekki verið gert markvisst. Það er gaman að segja frá því að í ágúst síðastliðnum fékk Hótel Glymur verðlaunin Iceland's Leading Boutique Hotel en þau eru veitt af World Travel Awards sem kölluð eru Óskarinn í ferðaþjónustu og er fremsta viðurkenning sem ferðaþjónustufyrirtækjum getur hlotnast,“ segir Jón Ragnar. „Í þeim felst sú viðurkenning að vera afburða þjónustustaður og getur hótelið notað verðlaunin í markaðsstarfi sínu. Stjórnendur Hótel Glyms voru ánægðir með samstarfið og er þetta fyrsta úttekt á hótelinu af þessu tagi. Nú þegar hefur ýmislegt úr stefnumótuninni nýst og eru tillögur okkar um markaðsmál og sölu það sem nýttist fyrirtækinu best.“

„Annað sem við gerðum, og var gagnlegt fyrir verkefnið, var að við skipulögðum hulduheimsókn. Foreldrar Jóns Ragnars, sem áttu gjafakortið, gistu á hótelinu og prófuðu þjónustuna. Við fengum svo punkta frá þeim um hvað hafði verið gott og hverju mætti breyta að þeirra mati. Þá punkta notuðum við í skýrsluna með rökstuðningi. Við teljum að það hafi verið mikilvægt atriði í rannsókninni þar sem þetta snýst jú allt um að þjóna viðskiptavininum og gera hann ánægðan,“ segir Ásgeir Fannar.

Aðspurð segja þau að vinnan hafi verið skemmtileg en erfið.

„Þetta var nýr hópur sem ekki hafði unnið saman áður. Við þurftum að kynnast og þreifa okkur áfram með hvernig við skiptum með okkur verkum. Síðan þurftum við að kynnast fyrirtækinu sjálfu og starfsseminni þar. Það að vera í tengslum við alvöru fyrirtæki sem var opið fyrir okkar hugmyndum var frábært. Í verkefninu gátum við notað að vild þau tæki og tól sem námið hafði fært okkur. Virkilega  skemmtilegt og gefandi,“ segja þau Ásgeir, Hildur og Jón Ragnar að lokum


Var efnið hjálplegt? Nei