Mótuðu stefnu fyrir íslenskt tískuhús

Á haustönn sækja annars árs nemendur viðskiptadeildar námskeið sem nefnist Stefnumótunarverkefni og er undir stjórn Kristjáns Vigfússonar forstöðumanns MBA-námsins í viðskiptadeild. Einn hópurinn tók að sér að móta stefnu fyrir tískuhúsið JÖR, í góðu samstarfi við stofnanda fyrirtækisins og framkvæmdastjóra.

Í þessu námskeiði er fjallað um helstu kenningar, verkfæri og þá hugmyndafræði sem stefnumótun byggir á og kynnir til sögunnar helstu aðferðir og aðferðafræði við greiningu og undirbúning stefnumótunar. Nemendur fá síðan tækifæri til að spreyta sig á að beita aðferðunum í umfangsmikilli verkefnavinnu með fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum. Góð stefnumótunarvinna byggir meðal annars á vinnureynslu nemenda sem og þekkingu þeirra á mannauðsmálum, fjármálum, markaðsmálum, rekstri, stjórnun ofl. Nemendur þurfa því að byggja mikið á reynslu sinni og fyrra námi í háskólanum.

Mótuðu stefnu fyrir íslenskt tískuhús

Fá þjálfun í stefnumótun

Að námskeiði loknu er stefnt að því að nemendur hafi öðlast grundvallar þekkingu á hugmynda- og aðferðafræði stefnumótunar og að þeir búi yfir skilningi á því hvernig stefnumótun hjálpar við að móta og ná markmiðum í rekstri. Einnig þurfa þeir að hafa hlotið þjálfun og leikni í að beita aðferðum stefnumótunar og ættu að námskeiði loknu að hafa hæfni til að taka þátt og jafnvel leiða stefnumótun innan fyrirtækis, stofnunar og/eða félagasamtaka.

Nemendum var raðað í hópa af kennaranum og þekktust fæstir þeirra fyrir. Undirbúningur fór fram alla önnina en í lok hennar unnu hóparnir skýrslu og fluttu niðurstöðurnar fyrir kennara og fyrirtækin. Fjórir hópar úr námskeiðinu deila hér reynslu sinni af verkefninu og vinnunni í fyrirtækjunum sem urðu fyrir valinu.

Tískuhús frábrugðin öðrum rekstri

Þau Anna Þóra Bragadóttir, Andri Örn Gunnarsson, Daníel Hermannsson, Erla María Sigurðardóttir, Valgerður Fjóla Einarsdóttir og Arnar Freyr Reynisson unnu að stefnumótun fyrir tískuhúsið JÖR og byrjar á að útskýra hvers vegna JÖR varð fyrir valinu.

„Hópnum fannst mjög spennandi að skoða fyrirtæki sem á að baki eitt rekstrarár, er búið að reyna ýmislegt en á enn eftir að læra margt. Þetta er ungt og kraftmikið fyrirtæki með mikla framtíðarmöguleika á spennandi og síbreytilegum markaði fatahönnunar og verslunar,“ segir Andri Örn.

„Stofnendur JÖR, Guðmundur Jörundsson, hönnuður og Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri,  gáfu okkur góðan tíma og unnu mikið með okkur og hafa vonandi getað nýtt eitthvað af okkar vinnu. Við fengum góða innsýn í reksturinn með því að hitta þá reglulega. Kynntum okkur sögu fyrirtækisins, stefnu og markmið og lögðum þannig grunn að heildarstefnumótun. Markaðurinn sem JÖR starfar á breytist ört, frá mánuði til mánaðar og einni fatalínu til annarrar. Á margan hátt eru tískuhús frábrugðin venjulegum rekstri, því reyndist erfitt að nota hin hefðbundnu fræði. Það gerði verkefnið ögrandi.“

Af hverju er Guðmundur svona vinsæll?

 „Það sem við lögðum fyrst og fremst áherslu á var að skoða innviði fyrirtækisins. Gerðar voru greiningar á fyrirtækinu og markaðinum og spurðum við ýmissa spurninga. Hvað er JÖR að gera vel? Af hverju er Guðmundur svona vinsæll? Af hverju selst ákveðin vara vel? Hvernig er hægt að viðhalda þekkingu og reynslu innan fyrirtækisins? Við töldum t.a.m. að mikilvægt væri að nýir starfsmenn hefðu aðgang að upplýsingum um hlutverk og starfssemi fyrirtækisins og komum með tillögur að ferlum. Við skoðuðum innviði fyrirtækisins, settum fram framtíðarsýn, hlutverk, gildi og markmið og lögðum fram tillögu að framleiðsluferli fyrir sýningar. Auk þess gerðum við markhópakönnun þar sem við nálguðumst viðskiptavini og aðra tengda markhópa rafrænt,“ segir Andri Örn.

Í verkefninu sameinast margir þættir s.s. fjármál og markaðsmál, ferlar, mannauðsmál og stjórnunarhættir – þá er gott að hafa ólíka einstaklinga í hópnum með ólíka styrkleika. „Það getur tekið á að vinna í hópi,“ segir Andri, „en samvinnan gekk vel. Við töldum mikilvægt að setja vinnureglur, hver væri tengiliður við fyrirtækið o.þ.h. því það auðveldar öll samskipti og samvinnu. Samskiptin við fyrirtækið gengu einnig vel. Það er mikilvægt að bera virðingu fyrir samstarfsfyrirtækinu og kynnast því og starfsfólkinu, því eins og við vitum eru ekki öll fyrirtæki eins og ekki virka sömu aðferðir á ólík fyrirtæki. Það er mikilvægt  og lærdómsríkt að fá að nota fræðin sem við höfum lært og að fá endurgjöf frá kennurum og stjórnendum fyrirtækisins til að sjá hvað virkar og hvað ekki. JÖR er enn að læra á markaðinn og var þetta góð tímasetning fyrir þá til að fá utanaðkomandi aðila eins og okkur til að gera úttekt á starfseminni,“ segir Andri Örn að lokum.


Var efnið hjálplegt? Nei