Þetta er bara svona… Staða kynjanna á vinnumarkaði

Íslendingar fara um þessar mundir með formennsku í Norðurlandaráði en eitt markmiðanna tengt formennskunni er jafnrétti kynjanna. Af þeim sökum setti ríkisstjórnin á laggirnar Aðgerðahóp um launajafnrétti og kemur Katrín Ólafsdóttir, hagfræðingur og lektor í viðskiptadeild HR, að verkefninu sem verkefnastjóri kortlagningar vinnumarkaðsins út frá kynjavinkli. Það er Edda öndvegissetur við HÍ sem hefur umsjón með verkefninu.

„Verkefnið snýst um að kortleggja vinnumarkaðinn út frá kynjavinkli. Það er staðreynd að vinnumarkaðurinn er kynjaskiptur en við viljum fá skýra mynd af því hvernig sú kynjaskipting lítur út. Síðan er áhugavert að kafa lengra og spyrja hvers vegna vinnumarkaðurinn er kynjaskiptur, hvaðan það kemur og hvað hægt er að gera,” segir Katrín. Verkefnið snýst meðal annars um að kortleggja þær rannsóknir sem hafa verið gerðar, sjá hvað upp á vantar og gera þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að fá skýra heildarmynd. „Útkoma þessa verkefnis á að vera heildaryfirsýn yfir vinnumarkaðinn út frá kynjasjónarhorni.”

Katrín Ólafsdóttir

Það sem Katrín segir erfiðast að mæla er hugarfarið, sem mögulega hafi þó mest áhrif á val einstaklinga á starfsgrein. „Iðnaðarmenn eru yfirleitt karlmenn og umönnunarstéttir eru yfirleitt skipaðar konum. Hvers vegna er það? Horfir fólk á alla flóru þeirra framtíðarmöguleika sem eru í boði þegar það tekur ákvarðanir um hvert það fer í starfi? Horfa stúlkur ekki til þess að þær geti verið iðnaðarmenn? Svo er áhugavert að skoða það út frá fjölskyldunni, hvort verkaskipting á heimilinu hafi áhrif. Þú getur sett allskyns lög og reglur en ef hugarfarið fylgir ekki með þá erum við áfram föst í þessari hefðbundnu kynjaskiptingu á vinnumarkaði. Mikilvægt er að hafa valið og að valið snúist ekki um viðhorf.“

Nú er komin út viðamikil skýrsla Katrínar  og Steinunnar Rögnvaldsdóttur, kynjafræðings, og hana má finna á vef velferðarráðuneytis:


Var efnið hjálplegt? Nei