Vöknuðu kl. 5 til að keyra út vörur

Á haustönn sækja annars árs nemendur viðskiptadeildar námskeið sem nefnist Stefnumótunarverkefni og er undir stjórn Kristjáns Vigfússonar forstöðumanns MBA-námsins í viðskiptadeild. Nemendur fá síðan tækifæri til að spreyta sig á að beita aðferðunum í umfangsmikilli verkefnavinnu með fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum. 

Stefnumótunarverkefni fyrir Gæðabakstur

Þau Jóna Kristín Friðriksdóttir, Magnea Gestrún Gestsdóttir, Óskar Sigþórsson, Rakel Reynisdóttir, Viktor Sigurjónsson og Þór Reynir Jóhannsson gerðu verkefni fyrir Gæðabakstur, eitt að leiðandi fyrirtækjum hér á landi í framleiðslu á kornvörum s.s. ýmsum gerðum af brauði, kökum, flatkökum og sætabrauði fyrir neytendur, veitingasölur, veitingastaði, mötuneyti, stofnanir og fyrirtæki.  

„Við sendum Gæðabakstri tölvupóst og fengum um leið frábærar móttökur, skoðuðum fyrirtækið og leist vel á, svo það var ákveðið að fara í þetta samstarf. Markmið okkar var að auka samkeppnishæfni fyrirtækisins og voru markaðsmálin aðaláhersla okkar í stefnumótunarvinnunni. Þar var margt sem þurfti að vinna með og eitt af því var að greina markaðinn. Við sönkuðum  m.a. að okkur dagvörumarkaðsskýrslum frá samkeppniseftirlitinu og gerðum markaðskönnun um vörumerkjavitund; hvað vörumerki þýðir, hvort það þyki traust, ódýrt og hvaða merki viðskiptavinurinn þekkir ekki. Við gerðum könnunina á netinu og náði hún til um 500 manns“ útskýrir Jóna Kristín.

Annað sem hópurinn gerði var að koma með tillögu að því að ráða markaðsstjóra og í kjölfarið var einn úr hópnum, Viktor, ráðinn til starfans. „Við þurftum að verja skýrsluna fyrir kennara og forsvarsmönnum Gæðabaksturs og það gekk ótrúlega vel. Gæðabakstur tók tillit til alls sem við lögðum til í stefnumótunarskýrslunni og hlutverk mitt er m.a. að innleiða og fylgja eftir nýjum hugmyndum um markaðsmálin. Innleiðingamálin eru meira og minna komin í framkvæmd s.s. heimasíðan, sölufundir og aðgreining vörumerkja, sem eru mörg“ segir Viktor.

 „Við mættum í Gæðabakstur á föstudögum alla önnina og unnum fullan vinnudag og svo nánast á hverjum degi í tveggja vikna lotunni í lok annarinnar. Þar fengum við fundarherbergi til afnota, töluðum við allt starfsfólkið; kynningarfólk og bílstjóra, sölumenn og stjórnendur. Þannig fengum við góða innsýn í starf fyrirtækisins. Við sönkuðum að okkur fáránlega miklum upplýsingum og þurftum að leggja mikla vinnu í þetta og mikinn tíma. En það var í lagi því samstarfið gekk mjög vel, þetta er besti hópur sem ég hef unnið með í náminu,“ segir Viktor, „við mættum alltaf öll og unnum vel saman.“

„Það skemmtilegasta við þetta verkefni var að skoða nýjan iðnað sem maður þekkti ekki áður“ segir Þór Reynir. „Við notuðum markaðstækin sem við höfðum lært og þar sem Gæðabakstur er bæði  á fyrirtækja- og neytendamarkaði spannaði þetta marga ólíka fleti, sem var mjög gagnlegt. Við sáum einnig hvernig þetta virkar í búðunum, vöknuðum einn daginn kl. 5 og fylgdum þeim sem voru að keyra út vörurnar. Við lærðum margt af því að vera inni í fyrirtækinu og innan um starfsfólkið sem var mjög þolinmótt og hjálplegt. Þessi mannlegi þáttur var ómetanlegur.“

Magnea bætir við að þetta hafi verið skemmtilegasti  og lærdómsríkasti áfanginn í HR hingað til og hinir jánka því.


Var efnið hjálplegt? Nei