Eimaði olíu úr gömlum bíldekkjum

Eimaði olíu úr bíldekkjum

Í kjallara háskólabyggingarinnar við Menntaveg fann meistaranemi við tækni- og verkfræðideild upp tæki sem endurvinnur efni sem hingað til hefur þótt afar erfitt að endurvinna. Jóhannes Einar Valberg, sem stundar meistaranám í vélaverkfræði, hefur hannað hitasundrunartæki sem eimar olíu úr bíldekkjum.

Í BSc-námi sínu í tæknifræði bjó Jóhannes til þurreimara sem eimar bíldekk svo úr verða gös og olía. Þannig gat hann endurunnið hjólbarða niður í brennanleg gös, olíu, stálvíra og kol. Hjólbarðar eru sérstaklega erfiðir í endurvinnslu sökum þess að þeir eru hannaðir til að standast mikið álag og eru því mjög sterkbyggðir. Olían sem fékkst var prófuð á dísilvél í 50% hlutfalli við dísilolíu og virðast fyrstu niðurstöður prófana sýna að hún sé vel nýtanleg á vélar. Jóhannes kemur til með að þróa kerfið áfram  með aðstoð fræðimanna við tækni- og verkfræðideild.

En hvernig sér Jóhannes fyrir sér að uppfinningin muni nýtast? Getum við farið að brenna dekk og búa til olíu úr þeim að nokkrum árum liðnum?

„Já, við ættum að geta það ef hægt er að byrja ferlið með rafmagni sem svipar til spanhellna. Þá ætti að vera hægt að viðhalda ferlinu með því gasi sem myndast. Hækkandi olíuverð gerir það að verkum að ferlið verður hagkvæmara í hvert sinn sem verðið hækkar. Fyrir tíu árum kostaði lítrinn af bensíni 103 krónur en í dag kostar hann um 250 krónur, svo eftir fimm til tíu ár verða allir keyrandi um á endurunnu eldsneyti held ég, þar sem lítrinn verður kominn í 400-500 krónur miðað við áframhaldandi þróun.“


Var efnið hjálplegt? Nei